Notkunarflokkur

Neyðarakstur, sjúkraflutningar, lögregluökutæki o.fl.

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til ökutækja sem skráð eru í neyðarakstur og kröfur Samgöngustofu við skoðun þeirra.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.


Skilgreining notkunarflokksins


Skilgreining á ökutæki til neyðaraksturs

Ökutæki sem búið er neyðarakstursljóskeri.


Skráning notkunarflokksins


Notkunarflokkur "Neyðarakstur"

  • Skráningarheimild: Það er krafa að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk uppfylli hún kröfurnar sem lýst er í þessu skjali, enda er óheimilt að stunda neyðarakstur eða hafa neyðarakstursbúnað á ökutæki sem ekki er skráð sem slíkt.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sérstakar kröfur eru gerðar til ökutækja sem notuð eru í neyðarakstri.
  • Notkun: Til að staðfesta að ökutækið sé viðurkennt til notkunar í neyðarakstri.

Aðeins þeir sem hafa heimild til mega búa ökutæki sín til neyðaraksturs og fá þau skráð sem slík. Ökutæki skulu færð til breytingaskoðunar vegna þessarar breytingar og skal skoðunarstofa tryggja að skilyrði um eignaraðild séu uppfyllt.

Samgöngustofa hefur gefið út heimild til að skrá til neyðaraksturs ökutæki í eigu Ríkislögreglustjóra, opinberra slökkviliða, Almannavarna ríkisins, Rauða kross Íslands og björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Ef ökutæki slökkviliða eru skráð í eigu sveitarfélags skal framvísa yfirlýsingu frá sveitarfélaginu um að um ökutæki slökkviliðs sé að ræða.

Einnig er heimilt að skrá til neyðaraksturs ökutæki í eigu annarra opinberra stjórnvalda s.s. sjúkrabifreiðir, björgunarbifreiðir og hliðstæð ökutæki þó þau séu í einkaeign en í slíkum tilvikum skal liggja fyrir sérstök heimild samgönguráðuneytisins. Henni skal framvísað við breytingaskoðun hjá skoðunarstofu og látin fylgja með breytingatilkynningu til Samgöngustofu.

Eftirfarandi notkunarflokkar eru til fyrir neyðarakstur:

  • Neyðarakstur
  • Neyðarakstur / Sjúkraflutningar
  • Neyðarakstur / Ökutækjaleiga
  • Neyðarakstur / Sérstök not
  • Neyðarakstur / Hættulegur farmur


Kröfur til ökutækja í neyðarakstri


Neyðarakstursljós

Ökutæki til neyðaraksturs skal búið neyðarakstursljóskeri (einu eða fleirum) sem uppfyllir eftirtalin skilyrði (fleiri en eitt ljós mega sameiginlega uppfylla þessi skilyrði um dreifingu og staðsetningu):

  • Litur: Skal vera blár.
  • Dreifing: Ljósið skal vera sýnilegt úr öllum áttum og undir a.m.k. 5° horni ofan og neðan við ljóskerið. Fleiri en eitt ljósker geta í sameiningu uppfyllt ákvæði um dreifingu ljóss.
  • Staðsetning: Ljóskerum skal komið fyrir þar sem þau sjást vel og eru minnst til óþæginda fyrir ökumann.
  • Ljósstyrkur: Styrkur ljóssins skal vera nægur til að það sjáist auðveldlega, einnig að degi til, án þess að vera til óþæginda.
  • Tenging: Ljósker skulu tengd um eigin rofa óháð öðrum ljósum og samtengd gaumljósi í mælaborði.
  • Tíðni: Blikktíðni skal vera á milli 60 og 240 leiftur á mínútu. Þó er heimilt að hafa eingöngu blá ljós án blikktíðni (sólir) til að auka sýnileika neyðarakstursökutækis þegar neyðarakstur á sér ekki stað t.d. að næturlagi og við fjölmennar samkomur.
  • Merking: Á ljóskerum skal vera greinileg merking um framleiðanda, gerð og spennu.

Ljós frá neyðarakstursljóskerum framan og aftan á bifhjóli skal vera sýnilegt a.m.k. 80° til hvorrar handar.


Glitmerkingar

Glitmerkingar ökutækja í neyðarakstri skulu vera sem hér segir:

  • Litasamsetningar:
    • Ökutæki lögreglu: Gulur og blár.
    • Ökutæki slökkviliðs: Gulur og rauður.
    • Ökutæki til sjúkraflutninga: Gulur og grænn.
    • Ökutæki björgunarsveita: Gulur og appelsínugulur.

Óheimilt er að hafa framvísandi rauða glitmerkingu og afturvísandi hvíta glitmerkingu, nema um sé að ræða viðvörunarglitmerkingar.

  • Lögun: Raðir af viðeigandi litum til skiptis. Önnur ökutæki en fólksbifreiðar skulu hafa ferhyrnt glit á hlið, viðvörunarglitmerkingar skv. lið 07.02 (7) að framan og/eða aftan.
  • Viðurkenning og merkingar: Ekki er gerð krafa um viðurkenningu á sérstökum glitmerk­ingum, en viðvörunarglitmerkingar skulu vera viðurkenndar og merktar samkvæmt ECE-reglum nr. 70 og 104.
  • Stærð merkinga: Hver flötur skal vera að lágmarki 40 x 40 mm.

Skv. reglugerð 909/2019 getur Samgöngustofa getur veitt ökutækjum í neyðarakstri undanþágu frá merkingum eða heimild til frekari merkinga og annarrar gerðar þeirra en kveðið er á um í reglugerðinni.

Heimilt er að lögreglubifreið og sjúkraflutningabifreið sé búin glitmerkingu á hlið og að aftan, án þess að ökutækið uppfylli ákvæði um auðkenningarborða (lit, staðsetningu, stærð, viðurkenningu og merkingar).

Heimilt er að hafa viðvörunarglitmerkingar á ökutæki með sérstakan búnað til neyðaraksturs.


Hraðatakmarkari

Bifreið til neyðaraksturs er undanþegin ákvæðum um hraðatakmarkara.


Hljóðmerkisbúnaður

Ökutæki til neyðaraksturs má hafa tveggja tóna sjálfvirkan hljóðmerkisbúnað sem skiptir stöðugt milli tveggja aðskilinna fastra tónhæða með svipaðri tónlengd.


Hjólbarðar

Hjólbarðar á ökutæki til neyðaraksturs skulu gerðir fyrir a.m.k. tæknilegan hámarkshraða þess.

Fjöldi nagla í hverjum hjólbarða bifreiðar til neyðaraksturs má vera 100 fleiri en almennt gildir, þ.e.

  • 90+100 fyrir felgustærð til og með 13".
  • 110+100 fyrir felgustærð yfir 13" til og með 15".
  • 150+100 fyrir felgustærð yfir 15".

Einnig gildir:

  • Á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október skal bifreið til neyðaraksturs búin hjólbörðum með a.m.k. 2,0 mm mynstursdýpt.
  • Á tímabilinu frá og með 1. nóvember til og með 14. apríl skal bifreið til neyðaraksturs búin hjólbörðum með a.m.k. 4,0 mm mynstursdýpt.


Afturvörn

Bifreið sem skráð er til neyðaraksturs er undanþegin afturvörn.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni unnið upp úr reglugerðum og skráningarreglum.



Var efnið hjálplegt? Nei