K7 Öryggisbelti og púðar

Kröfur og nánari túlkun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum um öryggisbelti, öryggisbeltastrekkjara og öryggispúða, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur

 

Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007.

 

Skoðunaratriði

 

Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 Skoðunaratriði Skýring
 7.1.1 Festingar öryggisbelta/læsinga
 7.1.2 Ástand öryggisbelta/læsinga
 7.1.3 Öryggisbeltaslakarar
 7.1.4 Öryggisbeltastrekkjarar
 7.1.5 Öryggispúðar.
 7.1.6 Öryggispúðakerfi (SRS)

 

Öryggisbelti - skilgreiningar á orðum og hugtökum

 

Skilgreiningar á orðum: (St3.4.2.1)

  • Tveggjafestu: Mjaðmarbelti, fest á tveimur stöðum.
  • Þriggjafestu: Mjaðmar- og axlarbelti, fest á þremur stöðum (fer yfir aðra öxlina).
  • Fjögurrafestu: Mjaðmar- og axlarbelti, fest á fjórum stöðum (fer yfir báðar axlirnar). Ekki er heimilt að hafa eingöngu fjögurraafestu belti í ökumannssæti ef ökumaður nær ekki til allra stjórntækja með beltið spennt. Sæti fyrir farþega mega vera búin fjögurrafestu beltum án sérstakra skilyrða
  • Rúllubelti: Útdraganlegt belti á rúllu sem sjálfkrafa dregur beltið inn eins og hægt er hverju sinni (myndar ekki slaka). Rúllan læsist þegar reynt er að draga beltið snögglega út.
  • Framvörn: Höggmildandi afturhluti sætisbaks, eða sambærileg höggmildandi vörn fyrir framan viðkomandi sæti, sem er í innan við 100 cm láréttri fjarlægð frá sætiskverk.
  • Frambil: Frítt bil frá sætiskverk að einhverjum hlut innréttingar eða bifreiðar sem ekki telst höggmildandi (t.d. stýrishjól, framrúða, skilveggir eða ófóðraðar slár).
  • Fellisæti: Sæti sem jafnan takmarka gangpláss og eru felld niður þegar þau eru í notkun (seta felld niður til hliðar og baki lyft upp til að taka í notkun).
  • Veltisæti: Sæti sem mögulegt er að velta fram til að ganga um dyr.

 

Öryggibelti - samantekt krafna um áskilin öryggisbelti

 

Öryggisbelti eiga að vera í eftirtöldum sætum (miðað við fyrsta skráningardag og leyfða heildarþyngd). (St3.4.2.1) Athuga að þetta eru lágmarkskröfur og því er ætíð heimilt að nota öruggara belti og búa fleiri sæti beltum en áskilið er.


Fólksbifreið  3.500 kg

  • Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum.
  • Eftir 01.01.1989: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum fólksbifreiða, og tveggjafestu belti í öðrum sætum sem snúa fram. Ekki er krafist belta í veltisæti. Verði rúllubeltum ekki komið fyrir er heimilt að nota þriggjafestu belti án rúllu, og verði þeim ekki heldur viðkomið skal nota tveggjafestu belti.
  • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum og ytri aftursætum sem snúa fram, og tveggjafestu belti í öðrum sætum.
  • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.

 

Fólksbifreið > 3.500 kg

  • Eftir 01.03.1994: Tveggjafestu belti í framsætum.
  • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum og ytri aftursætum, og tveggjafestu belti í öðrum sætum.
  • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.

 

Sendibifreið

  • Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum sendibifreiða fyrir allt að 1000 kg. farm.
  • Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum.
  • Eftir 01.07.1990: Tveggjafestu belti í öllum sætum sem snúa fram. Ekki er krafist belta í veltisætum.
  • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í ytri framsætum og tveggjafestu belti í öðrum sætum.
  • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í ytri framsætum og tveggjafestu belti í öðrum framvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.


Hópbifreið ≤ 3.500 kg

  • Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum.
  • Eftir 01.07.1990: Tveggjafestu belti í öllum sætum
  • Eftir 01.10.2001: Hópbifreið B: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum, sætum sem liggja að hlið og sætum án framvarnar, og tveggjafestu rúllubelti í öðrum sætum. Ekki er krafist belta í fellisæti.
  • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu rúllubelti í afturvísandi sætum.


Hópbifreið > 3.500 kg 

  • Eftir 01.03.1994: Undirflokkur B: Tveggjafestu rúllubelti í ökumannssæti og framvísandi sætum án framvarnar.
  • Eftir 01.10.1999: Undirflokkur B: Þriggjafestu rúllubelti í ökumannssæti og framsætum án framvarnar og tveggjafestu rúllubelti í öðrum framvísandi sætum (ekki er krafist belta í fellisæti).
  • Eftir 10.11.2006: Undirflokkar II, III og B: Þriggjafestu rúllubelti í framvísandi sætum (tveggjafestu rúllubelti þó leyfileg sé framvörn eða yfir 130 cm frambil) og tveggjafestu rúllubelti í afturvísandi sætum.


Vörubifreið 

  • Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum vörubifreiða fyrir allt að 1000 kg farm.
  • Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum vörubifreiða < 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd (eru nú flokkaðar til sendibifreiða).
  • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum (tveggjafestu belti þó leyfileg sé frambil yfir 100 cm), tveggjafestu belti í öðrum sætum án framvarnar.
  • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum (tveggjafestu belti þó leyfileg sé frambil yfir 100 cm), tveggjafestu belti í öðrum framvísandi sætum án framvarnar. Hliðarvísandi sæti eru óheimil


Aðrir ökutækjaflokkar

  • Séu öryggisbelti í ökutækjum sem eru skráð í aðra flokka en bifreið skulu þau vera í lagi.

 

Öryggisbelti - ýmsar upplýsingar

 

Merking um sætisbeltaskyldu í hópbifreiðum

Í reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum er kveðið á um að merking um sætisbeltaskyldu sé sýnileg úr öllum sætum hópbifreiðar sem búin eru öryggisbeltum. Miðarnir sem Samgöngustofa hefur látið útbúa eru í tveimur stærðum, ferkantaður miði í stærðinni 210 x 150 mm og kringlóttur með þvermálið 98 mm, sjá mynd 1.

Þar sem krafan er að þessi miði skuli vera sýnilegur úr öllum sætum hópbifreiða, þá er í sumum tilfellum nægjanlegt að í minni hópbifreiðum sé fullnægjandi að hafa einn stóran miða fremst í bifreiðinni en nauðsynlegt er að merkja stærri bifreiðar einnig með minni miðanum. Ekki er tilgreint hvar miðinn skal vera – en sem dæmi væri hægt að setja hann á sætisbak, hliðarrúðu eða gluggapóst

Oryggisbeltamidi1

Mynd 1. Límmiðar sem setja skal í hópbifreið og sýnir hvernig spenna skal öryggisbelti. Miðarnir eru í tveimur stærðum, ferkantaður miði í stærðinni 210 x 150 mm og kringlóttur með þvermálið 98 mm. Hvít mynd og stafir á bláum grunni.

 

Öryggisbelti í bifhjólum og dráttarvélum (St3.4.2.1)

Séu öryggisbelti í bifhjólum og dráttarvélum skulu þau vera í lagi. Dæmi um ökutæki sem skráð er sem bifhjól er af gerðinni Reva (er í flokknum L7e) og kemur með beltum.

 

Öryggisbeltafestingar á snúningsstólum (St3.4.2.3)

Í nokkrum útfærslum amerískra „Van”-bifreiða með snúningsstólum fyrir framsæti eru neðri festur öryggisbeltanna í stólunum sjálfum. Ef snúningurinn undir þessum stólum er upprunalegur (sívalningurinn u.þ.b. 15 til 20 cm í þvermál) og stólarnir hafa komið útbúnir á þennan hátt frá framleiðanda, er slík útfærsla samþykkt.

Ef snúningurinn hefur hins vegar verið smíðaður hér á landi (grennri sívalningur og minni festiplata) er aðeins ein festa öryggisbeltis leyfð í stólinn sjálfan, þ.e. innri festan að neðan. Ytri festuna verður í þeim tilfellum að færa niður í dyrastaf.

 

Öryggisbeltafestingar í sætisbekkjum (nýtt)

Óheimilt er að festa öryggisbelti í sætisbekki bifreiðar nema sú smíði hafi verið viðurkennd af framleiðanda bifreiðarinnar eða af viðurkenndri tækniþjónustu. Enginn íslenskur framleiðandi hefur hlotið viðurkenningu til að smíða eða framleiða sætisbekki í bíla sem heimilt er að festa belti í.

Séu óviðurkenndir sætisbekkir settir í bíl (t.d. við breytingu úr sendibíl í fólksbíl) verða beltafestingar fyrir öll sæti bekkjarins að festast með traustum hætti ofan í gólf bílsins og hliðar (þriggjafestu belti). Þó er heimilt að axlarfestan sé í bekkinn sjálfan ef ekki er hægt að festa í hlið bílsins (gildir um miðjusæti og endasæti ef hliðarhurðir eða hliðargluggar koma í veg fyrir festu í hlið bílsins). Að auki gildir að bekkurinn sjálfur verður að vera festur í gólf bílsins með traustum hætti.

Ofangreint gildir fyrir bifreiðir með fyrstu skráningu eftir 01.03.2023 eða er breytt eftir þennan tíma. Þetta er ráðstöfun eftir ábendingar Rannsóknarnefndar samgönguslysa í skýrslu um alvarlegt umferðarslys. Skoða ber sérstaklega vel festingar sætisbekkja ofan í gólf í bifreiðum sem breytt var fyrir þessa dagsetningu og gera athugasemdir við styrkleikamissi ef minnsta ástæða er til.

 

Öryggispúðar og öryggispúðakerfi (SRS)

 

SRS stendur fyrir Supplemental Restraint System, eða öryggispúðakerfi. SRS kerfið er viðbót (e. supplemental) við öryggisbeltakerfið sem eykur öryggi einstaklingsins í ákveðnum tegundum árekstra með því að tengja saman virkni öryggispúða, öryggisbelta og jafnvel annarra kerfa og hámarka virkn allra kerfa sem heildar. 

Gaumljós bilanavísis öryggispúðakerfis er gjarnan tákn eða merki sem sýnir manneskju með spennt sætisbelti og stóran skyggðan hring í fanginu (púðann), ásamt jafnvel stöfunum “SRS”. Bilanavísir öryggispúðakerfis getur gefið til kynna að það sé bilun í öryggisbeltaslakara, öryggisbeltastrekkjara, öryggispúða og/eða einhverjum skynjurum kerfisins.

 

Öryggisbeltastrekkjari

 

Tilgangur öryggisbeltastrekkjara er að ganga úr skugga um að öryggisbeltið sitji þétt að líkama einstaklingsins í ákveðnum tegundum árekstra. Öryggisbeltastrekkjarinn virkjast yfirleitt bara í hörðum árekstrum. Hann er í þremur megin útfærslum.

  • Vélrænn öryggisbeltastrekkjari. Hann er í grunninn öflugur gormur sem læst í samþjappaðri stöðu. Í árekstri losnar lásinn og gormurinn þrýstist út og þrengir beltið sem snöggvast. Eftir að vélrænn strekkjari hefur virkjast verður að skipta um búnaðinn.
  • Rafrænn öryggisbeltastrekkjari. Hér er það rafmótor sem er látinn þrengja beltið þegar til áreksturs kemur. Hann er tengdur við tölvu bílsins. Hröðunarskynjari, oft sá sami og virkjar loftpúðana, gefur skilaboð í gegnum tölvuna til mótorsins þegar árekstur verður og hann þrengir þá beltið í skyndi. Ekki þarf að skipta um búnaðinn þótt hann hafi virkjast en komi fram bilun í honum ætti gaumljós bilanavísis að sýna það.
  • Gasþrýstingsknúinn öryggisbeltastrekkjari. Þetta er algengasti búnaðurinn í dag, hann þykir áreiðanlegastur og virkar hraðar en hinar útfærslurnar. Um er að ræða litla gassprengingu sem virkjar vélræna herðingu beltisins. Búnaðurinn er tengdur við tölvu bílsins og nýtir sér ytri hröðunarskynjara. Skipta þarf um þennan búnað ef hann hefur virkjast og sýnir gaumljós bilanavísis það.

 

Öryggisbeltaslakari

 

Ákveðin sætisbeltakerfi nota öryggisbeltaslakara (álagstakmarkara) til að lágmarka meiðsli af völdum sætisbelta. Grunnhugmyndin er sú að álagstakmarkari losi aðeins á beltinu þegar mikið álag myndast á beltinu við árekstur. Þar með minnki álag á brjóstkassa þess sem spenntur er í beltið.

Einfaldasti álagstakmarkarinn er felling sem er saumuð í efni sætisbeltisins. Saumarnir sem halda fellingunni á sínum stað eru hannaðir til að rifna þegar ákveðinn kraftur togar í beltið. Allt þetta veldur skemmdum á beltinu sem þýðir að skipta skal um belti.

Álagstakmarkari getur svo verið flóknari búnaður og virkjaður í gegnum öryggiskerfi ökutækisins og þar með verður ástand hans raflesanlegt.

 

Breytingasaga skjalsins

 

Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

Dagsetning Efnislegar breytingar
27.12.2023
  • Skilgreining á framvörn: Bætt við skilgreininguna, nú tiltekið að hún skuli vera í innan við 100 cm láréttri fjarlægð frá sætiskverk.
  • Skilgreining á frambili: Bætt við skilgreininguna, nú tiltekið að bilið geti verið að einhverjum hluta innréttingar (ekki bara framrúðu eins og var).
  • Áskilin öryggisbelti, leiðréttingar: (a) gildistaka nýjustu ákvæða um áskilin öryggisbelti  allra ökutækisflokka á að vera 10.11.2006 (en ekki 01.10.2005), (b) beltaskylda í hópbifreið <3,5 t, það mega vera tveggjafestu belti í afturvísandi sætum (var ranglega þriggjafestu), (c) breytingarnar 10.11.2006 um beltaskyldu í hópbifreið >3,5 t eiga bara við hópbifreiðir í undirflokkum II, III og B (gleymst hafði að tiltaka þessa undirflokka), (d) beltaskylda í sendi- og vörubifreið nær bara til framvísandi sæta (var hægt að skilja að hún næði líka til afturvísandi sæta).
  • Áskilin öryggisbelti: Bætt við áréttingu um að í kaflanum séu tilteknar gildandi lágmarkskröfur og því sé ætíð heimilt að nota öruggara belti og búa fleiri sæti beltum en áskilið er.
01.01.2023 Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kafli 3.4.2.1, 3.4.2.2, 3.4.2.3, 3.4.5.1. Aukið og endurbætt.

Var efnið hjálplegt? Nei