Notkunarflokkur

Sérstök not, undanþáguakstur o.fl.

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til ökutækja í sérstökum notkun, undanþáguakstri, vegavinnu og til námuökutækja, auk leiðbeininga vegna skoðunar og skráningar.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
  • Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007.


Skilgreining notkunarflokkanna


Skilgreining á ökutæki í sérstökum notum

Heimilt er að skrá í þennan notkunarflokk bifreiðar sem ætlaðar eru til sérstakra nota og brenna að meginhluta til dísilolíu í kyrrstöðu.

Ökutæki í sérstökum notum ber sérstök skráningarmerki sem kallast olíumerki.


Skilgreining á ökutæki í undanþáguakstri

Heimilt er að skrá sem undanþáguökutæki bifreið, dráttarvél eða eftirvagn sem nær eingöngu eru notuð utan vega eða til sérstakra flutninga á vegi gegn undanþágu. Ástæða undanþágunnar er sú að ökutækin eru of stór (hæð, lengd og/eða breidd). 

Ökutæki í undanþáguakstri ber sérstök skráningarmerki (undanþágumerki) auk skiltis um að það þurfi undanþágu til aksturs.


Skilgreining á námuökutæki

Heimilt er að skrá vörubifreið eða eftirvagn sem námuökutæki, ef ökutækið er ætlað til efnisflutninga innan afmarkaðra vinnusvæða utan vega.

Námuökutæki ber sérstök skráningarmerki sem kallast utanvegamerki.


Skilgreining á flugvallarökutæki

Hópbifreið sem hönnuð er stærri en hámarksgildi í reglum um stærð og þyngd ökutækis segir til um og ætluð er til fólksflutninga milli flugvélar og flugstöðvar innan afmarkaðs flugvallarsvæðis. Einnig flugvallarökutæki sem notuð eru innan afmarkaðs flugvallarsvæðis.

Flugvallarökutæki ber sérstök skráningarmerki sem kallast utanvegamerki.


Skráning notkunarflokkanna


Notkunarflokkur "Sérstök not"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk uppfylli hún kröfurnar sem lýst er í þessu skjali.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sérstakar kröfur eru gerðar til bifreiða sem heimilt er að merkja með olíumerkjum.
  • Notkun: Til að auðkenna bifreiðir í sérstökum notum.

Umsókn um skráningu skal beina til skoðunarstofu sem gengur úr skugga um að skilyrði til skráningar séu uppfyllt. Skoðunarstofa sendir í framhaldinu tilkynningu til Samgöngustofu þar sem staðfest er að ökutækið uppfylli kröfur til skráningar (og e.t.v. að viðeigandi búnaður eða yfirbygging sé skráð á ökutækið) til sérstakra nota og óskar eftir skráningu í notkunarflokkinn "Sérstök not" og afhendingu á "olíumerkjum".


Notkunarflokkur "Undanþáguakstur"

  • Skráningarheimild: Það er krafa að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk hafi það undanþágu af þessu tagi til aksturs í almennri umferð.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og merkja verður sérstaklega ökutæki sem eru í þessum undanþáguakstri.
  • Notkun: Til að auðkenna ökutæki í umferðinni sem hafa undanþágu af þessu tagi.

Sé ökutæki stærra en reglugerðir kveða á um en uppfyllir skilyrði til undanþáguflutninga ásamt öðrum kröfum sem gerðar eru til ökutækja í almennri notkun, er ökutækið forskráð í notkunarflokkinn "Undanþáguakstur". Í flestum tilfellum er ekki hægt að breyta ökutæki úr þessum notkunarflokk í almenna notkun.


Notkunarflokkur "Námuökutæki"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk sé umsókn samþykkt.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og merkja verður sérstaklega ökutæki sem eru skráð til þessara nota.
  • Notkun: Til að auðkenna ökutæki sem skráð eru með þessum þætti enda má ekki nota þau í almennri umferð.

Sé ökutæki stærra en reglugerðir kveða á um og uppfyllir ekki kröfur til skráningar í almenna notkun, er ökutækið forskráð í notkunarflokkinn "Námökutæki". Í flestum tilfellum er ekki hægt að breyta ökutæki úr þessum notkunarflokk í almenna notkun.


Notkunarflokkur "Flugvallarökutæki"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk sé umsókn samþykkt.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og merkja verður sérstaklega ökutæki sem eru skráð til þessara nota.
  • Notkun: Til að auðkenna ökutæki sem skráð eru með þessum þætti enda má ekki nota þau í almennri umferð.

Sé ökutæki einungis notað inni á lokuðum athafnasvæðum og uppfyllir ekki kröfur í reglugerðum varðandi skráningu í almenna notkun, er ökutækið forskráð í notkunarflokkinn "Flugvallarökutæki". Í flestum tilfellum er ekki hægt að breyta ökutæki úr þessum notkunarflokk í almenna notkun.


Ökutæki í sérstökum notum


Heimilt er að skrá í þennan notkunarflokk bifreiðir sem ætlaðar eru til sérstakra nota og brenna að meginhluta til dísilolíu í kyrrstöðu. Þau skilyrði sem þarf að uppfylla eru:

  • Álestur af ökumæli bifreiðar.
  • Ökutæki verður að vera vörubifreið með heildarþyngd 5000 kg eða meira.
  • Bifreið skal vera merkt með sérstökum skráningarmerkjum (olíumerki).
  • Bifreið skal vera búin akstursmæli (sjá einnig kröfu um álestur).
  • Bifreið skal vera með varanlegum áföstum búnaði til sérstakra nota (ekki með útskiptanlegri yfirbyggingu).
  • Bifreið skal vera skráð með eina af eftirfarandi yfirbyggingum í ökutækjaskrá: hreinsibúnaður, jarðbor, karfa, krani, slökkvidæla, steypudæla, steyputunna, úðunarbúnaður eða krani yfir 25 tonnmetra. Staðfesting Vinnueftirlitsins á stærð krana þarf að liggja fyrir og bifreiðin þarf að auki að vera með fastan pall þ.e. vörupall sem hvorki er lyftanlegur né verður fjarlægður tímabundið. Vörubifreið með krana yfir 25 tonnmetra verður að vera án tengibúnaðar en með tengibúnaði er átt við stól fyrir festivagn eða krók fyrir hengi- eða tengivagn.
  • Mjólkurflutningabifreið sem skráð er með tank sem yfirbyggingu, er sérstaklega búin, og eingöngu notuð til að safna mjólk frá búum. Hafi mjólkurbifreiðin tengibúnað verður farmur tengivagnsins að vera sá sami, þ.e. mjólk frá búum.

Faggild skoðunarstofa sér um aðthuga hvort skilyrði séu uppfyllt og sendir breytingablað (US.111) til Samgöngustofu með ósk um breytingu á notkunarflokki.


Ökutæki í undanþáguakstri


Hægt er að sækja um undanþágu til skráningar ökutækis sem er of stórt til að heimilt sé að skrá það almennri skráningu til aksturs á opinberum vegum (gert á umsókn um forskráningu). 

Sé umsóknin samþykkt er ökutækið forskráð og stöðluð athugasemd skráð í skráningarskírteini: "Þarf undanþágu Vegagerðar til aksturs í almennri umferð".

Ökutækið þarf að bera sérstakt merki að aftan, sjá mynd 1, þegar það er fært til skráningarskoðunar.


Þarf undanþágu vegna stærðar

Mynd 1. Merki á ökutæki í undanþáguakstri skal vera aftan á ökutækinu.


Sé ökutæki, sem er of stórt eða breitt, fært til skráningarskoðunar sem forskráð hefur verið án þess að sótt hafi verið um undanþágu, skal hafna skráningu. Einnig skal hafna skráningu ef undanþágumerkið, sbr. mynd 1, vantar á ökutæki sem samþykkt hefur verið.


Námuökutæki


Námubifreið er bifreið sem er hönnuð stærri en hámarksgildi í reglum um stærð og þyngd ökutækja segja til um og er einkum ætluð til efnisflutninga utan vega eða innan afmarkaðra vinnusvæða. Námubifreið má ekki bera einkamerki. 


Flugvallarökutæki


Hópbifreið sem hönnuð er stærri en hámarksgildi í reglum um stærð og þyngd ökutækis segir til um og ætluð er til fólksflutninga milli flugvélar og flugstöðvar innan afmarkaðs flugvallarsvæðis. Einnig flugvallarökutæki sem notuð eru innan afmarkaðs flugvallarsvæðis.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni unnið upp úr reglugerðum og skráningarreglum.



Var efnið hjálplegt? Nei