K0 Skráningarmerki

Samantekt krafna, túlkanir og upplýsingar

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum er varða skráningarmerki ökutækja.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:    

SkoðunaratriðiSkýring
 0.1Skráningarmerki


Notkun skráningarmerkja


Nota skal gerðir og tegundir skráningarmerkja (sjá sérkafla um gerðir og tegundir) á ökutækjum sem hér segir (miðað við núgildandi skráningarmerki, sjá allt um fornmerki í sérstökum kafla):

  • Bifreið (A, B, D): Skal merkt með viðeigandi tegund skráningarmerkja að framan og aftan af gerð A. Nota má skráningarmerki af gerð B, henti ekki merki af gerð A og merki af gerð D ef merkjum af gerð A og B verður ekki með góðu móti komið fyrir.
  • Eftirvagn (A, B, D): Skal merkt að aftan. Sömu reglur um val merkja gilda og eiga við um bifreið.
  • Bifhjól (C, léttbifhjólamerki): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð C. Þó skal nota léttbifhjólamerki I fyrir létt bifhjól af flokki I og léttbifhjólamerki II fyrir létt bifhjól af flokki II.
  • Dráttarvél (C, A): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð C en að framan ef merkinu verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan. Nota má merki af gerð A ef dráttarvél er hönnuð þannig að merki af gerð C verði ekki með góðu móti komið fyrir.
  • Torfærutæki (C): Skal merkt að aftan með skráningarmerki af gerð C. Merkið má vera að framan eða á hlið ef því verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan.


Ásetning og sýnileiki

Skráningarmerki skal komið fyrir á þar til gerðum fleti þar sem það sést vel og er tryggilega fest. Merkið skal vera í lóðréttri eða sem næst lóðréttri stöðu og hornrétt á lengdarás ökutækisins. 

Óheimilt er að hylja skráningarmerkið eða hluta þess með nokkrum hætti eða koma fyrir búnaði sem skyggir á það. Heimilt er þó að hafa skráningarmerkið í þar til gerðum ramma. Hylji ramminn rönd merkisins skal hann vera svartur eða hafa sama lit og stafir merkisins. Skrúfur, sem notaðar eru til að festa skráningarmerki, má ekki setja þannig að dragi úr því að lesa megi á merkið. Haus skrúfunnar skal, ef unnt er, hulinn með hettu eftir því sem við á, í sama lit og grunnur merkisins eða stafir.


Krafa um endurnýjun ef ólæsilegt

Skráningarmerki skal ávallt vera sýnilegt og vel læsilegt. Skylt er að endurnýja skráningarmerki ef það verður ógreinilegt eða ónothæft. Þegar nýtt skráningarmerki er afhent í stað annars skal skila eldra merkinu. 


Óheimil eða röng notkun

Skráningarmerki og önnur merki, sem ætluð eru á ökutæki, má eigi nota með öðrum hætti en fyrir er mælt. Óheimilt er að festa á ökutæki merki, áletranir eða önnur auðkenni ef hætta er á að villst verði á þeim.

Skylda til að bera skráningarmerki við skoðun

Tryggja skal að skráningarmerki séu á ökutækinu við skoðun. Séu skráningarmerki ekki á ökutækinu skal tryggja að skráningarmerkin og svæði fyrir þau á ökutækinu séu skoðuð. 

Skráningarmerki skal skoða við aðalskoðun/endurskoðun. Ef þau eru ekki til staðar á ökutækinu við skoðun þarf ökutækið að færast til skoðunar á þeirri skoðunarstofu sem skráningarmerki eru innlögð, eða fá þau send á viðkomandi skoðunarstofu. 

Ef niðurstaða aðalskoðunar/endurskoðunar er „notkun bönnuð“ er óheimilt að afhenda eða setja innlögð skráningarmerki á ökutæki. Þetta á við um allar mögulegar ástæður þess að skráningarmerkin eru ekki á ökutæki, s.s. innlögð af eiganda, afklippt af lögreglu (vegna vanbúnaðar, tjóns, trygginga, o.fl.) eða skilað inn af öðrum aðila.


Skoðun vegna afhendingar innlagðra skráningarmerkja

Afhenda má skráningarmerki, sem lögð hafa verið inn til geymslu, án þess að ökutæki hafi áður verið fært til reglubundinnar skoðunar, þó frestur til að færa ökutækið til skoðunar sé liðinn, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (sjá hér).


Gerðir skráningarmerkja (A, B, C, D, E)


Efni þessa kafla á við um núgildandi skráningarmerki (ekki fornmerki). Með gerð skráningarmerkja er átt við kröfur til efnisgerðar, stærðar þeirra og uppröðun svæða og stafa á merkinu.


Gerðir A, B, C, D, E

  • Gerð A er af stærðinni 520 x 110 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.
  • Gerð B er af stærðinni 280 x 200 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.
  • Gerð C er af stærðinni 240 x 130 mm, hæð stafa 49 mm og breidd stafleggja 7 mm.
  • Gerð D er af stærðinni 305 x 155 mm, hæð stafa 61 mm og breidd stafleggja 9 mm.
  • Gerð E er af stærðinni 168 x 133 mm, hæð stafa 49 mm og breidd stafleggja 7 mm.


Smíðaefni

Skráningarmerki skal vera úr a.m.k. 1,0 mm þykku áli.


Litur

Grunnur skráningarmerkis skal vera hvítur með endurskini og stöfunum ÍS í vatnsmerki. Rönd á brúnum, stafir og bandstrik skulu vera blá. Nokkur frávik eru þó frá þessari litasamsetningu, sjá um tegundir skráningarmerkja.


Áletrun

Skráningarmerki af gerð A skulu hafa áletrun í einni röð. Skráningarmerki af gerð B, C, D og E skulu hafa áletrun í tveim röðum, tvo bókstafi og bandstrik í þeirri efri og eftir atvikum, bókstaf og tölustafi eða eingöngu tölustafi í þeirri neðri.


Svæði

Á skráningarmerkjum geta verið eitt eða tvö svæði sem ætluð eru undir þjóðarmerki, fyrir skoðunarmiða, upphleyptan tígul eða ekki neitt. Þau eru kölluð svæði I og svæði II til aðgreiningar í kaflanum um tegundir skráningarmerkja:

  • Svæði I: Á merkjum af gerð A og B er átt við svæðið fyrir framan áletrunina á merkinu (í efri línu á gerð B). Á merki af gerð D er átt við svæðið vinstra megin í hæðarmiðju. Á þessu svæði getur verið áprentað þjóðarmerki, tígull, upphleyptur flötur eða ekkert. Þetta svæði er ekki á merkjum af gerð C og E.
  • Svæði II: Á merkjum af gerð A og B er átt við svæðið á milli fyrstu tveggja stafanna og síðari þriggja (fremst í neðri línu merkis af gerð B). Á merki af gerð C er átt við svæðið vinstra megin í hæðarmiðju og á merki af gerð D átt við svæðið hægra megin í hæðarmiðju. Á þessu svæði getur verið upphleyptur flötur eða ekkert. Þetta svæði er ekki til á merki af gerð E.


Tegundir skráningarmerkja (litir, áletrun, fletir)


Efni þessa kafla á við um núgildandi skráningarmerki (ekki fornmerki).  Tegundir skráningarmerkja geta verið tengdar notkun ökutækisins eða öktækjaflokki. Mismunandi samsetning á lit, áletrun og upplýsingum á svæðum mynda tegundir merkja.


Almenn merki

  • Gerðir: Gerðir A, B, C og D.
  • Litur: Hvítur grunnur. Blár í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Áprentað þjóðarmerki.
  • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Fyrstu tveir (og í seinni tíð fyrstu þrír) eru bókstafir og afgangurinn tölustafir.

Almenn


VSK merki

  • Gerðir: Gerðir A, B og D.
  • Litur: Hvítur grunnur. Rauður í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Rauður upphleyptur tígullaga flötur.
  • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

VSK


Einkamerki

Á bifreiðum og bifhjólum mega vera einkamerki (þó ekki á þeim sem eiga að bera VSK-merki, utanvegamerki, olíumerki eða undanþágumerki).

  • Einkamerki hafa hvítan flöt með endurskini með bláa rönd á brúnum og bláa stafi. 
  • Upphleyptur flötur er fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun einkamerkis skal vera 2–6 íslenskir bókstafir eða tölustafir að vali eiganda (umráðamanns) ökutækisins. Á einkamerki má þó hvorki vera áletrun sem í eru tveir bókstafir og þrír tölustafir, eða þrír bókstafir og tveir tölustafir, né sama áletrun og er á skráningarmerki af eldri gerð í notkun. 
  • Þjóðarmerki skal ekki vera á einkamerki. 
  • Áletrun einkamerkis má hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera líkleg til að valda hneykslun. 
  • Á einkamerki af gerð B, C og D má fjöldi stafa, þrátt fyrir ákvæði í 4. mgr. 18. gr., vera eins og fyrir verður komið með góðu móti.
  • Áletrun skráningarmerkis má ekki vera svo lík áletrun annars skráningarmerkis, sem þegar er í notkun að valdið geti ruglingi.

Einkamerki

Utanvegamerki

  • Gerðir: A, B og D.
  • Litur: Hvítur grunnur. Grænn í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Grænn upphleyptur tígullaga flötur.
  • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Utanvegamerki


Sendiráðsmerki

  • Gerðir: Gerðir A, B, C og D.
  • Litur: Grænn grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Ónotað.
  • Svæði II: Grænn upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Fyrstu tveir stafirnir eru CD, svo kemur einn bókstafur og lokst tveir tölustafir.

Sendiradsmerki


Olíumerki

  • Gerðir: Gerðir A, B og D.
  • Litur: Dökkgulur grunnur. Svartur í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Svartur upphleyptur tígullaga flötur.
  • Svæði II: Dökkgulur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Oliumerki

Undanþágumerki

  • Gerðir: Gerðir A, B og D.
  • Litur: Hvítur grunnur. Grænn í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Áprentað þjóðarmerki.
  • Svæði II: Hvítur upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Undanthagumerki

Reynslumerki

  • Gerðir: Gerðir A, B, C og D.
  • Litur: Rauður grunnur. Svartur í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Ónotað.
  • Svæði II: Rauður upphleyptur flötur fyrir gildismiða sem sýnir leyfilegan notkunartíma reynslumerkis.
  • Áletrun: Fyrstu tveir stafirnir eru RN og svo þrír tölustafir.

Reynslumerki

Dráttarvélamerki

  • Gerðir: Gerðir A og C.
  • Litur: Hvítur grunnur. Blár í stöfum og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Ónotað.
  • Svæði II: Fyrir skoðunarmiða sé dráttarvélin skráð í notkunarflokk 180 (Skoðunarskyld dráttarvél), annars er svæðið ónotað.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Drattarvelamerki


Torfærumerki

  • Gerðir: Gerð C.
  • Litur: Rauður grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Enginn slíkur.
  • Svæði II: Ónotaður.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Tofaerumerki


Léttbifhjólamerki I & II

Léttbifhjólamerki I:

  • Gerðir: Gerð E.
  • Litur: Appelsínugulur grunnur. Hvítur í stöfum, bandstriki og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Enginn slíkur.
  • Svæði II: Enginn slíkur.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Léttbifhjólamerki II:

  • Gerðir: Gerð C.
  • Litur: Blár grunnur. Hvítur í stöfum og í rönd á brúnum.
  • Svæði I: Enginn slíkur.
  • Svæði II: Blár upphleyptur flötur fyrir skoðunarmiða.
  • Áletrun: Sömu reglur gilda og um almenn merki.

Lett-bifhjol


Aukamerki

Dragi bifreið ökutæki sem ekki er skráningarskylt og skyggir á skráningarmerki bifreiðarinnar, skal merkja það að aftan með skráningarmerki af gerð A, B eða D með því fráviki að merkið skal vera án litaðra upplyftra brúna og án upplyfts flatar fyrir skoðunarmiða. Skráningarmerkið skal vera með sömu áletrun og sama lit og skráningarmerki bifreiðarinnar. Sama á við ef búnaður aftan á skráningarskyldu ökutæki sem ekið er skyggir á skráningarmerki þess.

Aukamerki hafa sama lit á grunni og stöfum og er á skráningarmerki þeirrar bifreiðar sem dregur tengtækið, en án litaðra, upplyftra brúna og án upphleypts flatar fyrir skoðunarmiða.

Aukamerki


Tollamerki

  • Tollamerkin skulu vera með fjórum hvítum tölustöfum á svörtum grunni.
  • Á hvorri hlið skráningarmerkis skal vera lóðrétt rauð rönd. 
  • Vinstra megin skal skrá með hvítum tölustöfum röð þess mánaðar og hægra megin tvo síðustu tölustafi þess árs þegar gildistíma skráningar lýkur. 

Tollamerki


Fornmerki (gerð og notkun)


Ökutæki sem skráð voru fyrir 1. janúar 1989 fengu skráningarmerki af eldri gerð við nýskráningu. Þau ökutæki mega vera merkt með þeim áfram, enda borið þau óslitið síðan, séu merkin heil og vel læsileg. Það er skilyrði að á skoðunarskyldum ökutækjum sé framrúða þar sem festa má skoðunarmiða.

Hafi skráningarmerki ofangreindra ökutækja verið fjarlægð eða eyðilögð er ekki heimilt að setja á það skráningarmerki af eldri gerð aftur nema það uppfylli skilyrði sem fornökutæki og verði skráð sem slíkt. Sama gildir um ökutæki sem nýskráð hafa verið 1. janúar 1989 eða síðar með fyrsta skráningardag fyrir þessa dagsetningu.

Gerð fornmerkis á fornökutæki skal vera í samræmi við þær reglur er giltu um eldri gerðir fornmerkja.


Bifreið fyrst skráð 31.12.1937 eða fyrr

Litur: Hvítt letur á svörtum grunni eða svart letur á hvítum grunni. Stærðir: Hæð 120 mm og lengd eftir fjölda stafa.

Fornmerki

1937

Bifreið fyrst skráð 01.01.1938-31.12.1949

Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 112 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn og stærð stafa skal vera þessi: hæð 80 mm, breidd 50 mm og breidd strika 15 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 22 mm langt og 12 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 10 mm.

1938-1949


Bifreið fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988

Merkin skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 130 mm á hæð. Stafir skulu vera með steinskrift, þrykktir í spjaldið. Rönd skal vera á brúnum, 5 mm breið, þrykkt á sama hátt. Stafirnir og röndin skulu vera fægð og bera sama lit málmsins, en grunnur með svartri, gljálausri málningu. Stafir skulu vera 90 mm á hæð, 55 mm á breidd og breidd stafleggja 15 mm. Bil milli tölustafa skal vera 10 mm, en bil milli bókstafs og tölustafa 30 mm. Á stafi og rönd skráningarmerkis er heimilt að setja hvítt glitefni af gerð sem Samgöngustofa viðurkennir.

Sidasta

Þungt bifhjól skráð 31.12.1949 eða fyrr

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, úr 2 mm þykku járni, 90 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, málaðir eða glerjaðir, með steinskrift á svartan málaðan eða gleraðan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 65 mm, breidd 40 mm og breidd stafleggja 12 mm. Framan við tölurnar skal mála einkennisbókstaf lögsagnarumdæmis og skal vera strik á milli bókstafs og tölustafa sem er 18 mm langt og 10 mm breitt. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.

Bifhjol

Þung bifhjól fyrst skráð 1.1.1950-31.12.1988

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera hvítir, með steinskrift á svartan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis. Bil milli stafa skal vera að minnsta kosti 8 mm.

1950-bf

Dráttarvélar fyrst skráðar 31.12.1988 eða fyrr

Merki af þessari gerð skulu vera rétthyrnd, aflöng spjöld, 70 mm á hæð og lengd eftir fjölda stafa. Stafir skulu vera rauðir, með steinskrift á hvítan grunn. Stærð stafa skal vera þessi: hæð 50 mm, breidd 30 mm og breidd stafleggja 8 mm. Framan við tölurnar skal vera einkennisbókstafur lögsagnarumdæmis og bókstafurinn d. Stærð bókstafsins d skal vera: hæð 27 mm, breidd 16 mm og breidd stafleggs 5 mm.

Drattarvelar


Sjá nánar um fornmerki hér.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 9.1.3.4, 9.3.5.1, 9.3.5.2, 


Var efnið hjálplegt? Nei