K7 Slökkvitæki og sjúkrakassi

Kröfur og nánari túlkun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum um slökkvitæki og sjúkrakassa, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 7.2Slökkvitæki
 7.5Sjúkrakassi


Slökkvitæki


Krafa um gerð

Öll slökkvitæki skulu viðurkennd gerð fyrir A, B og C brunaflokka (A-föst efni, B-olía og bensín, C-gas). 

Samkvæmt reglugerð um slökkvitæki og fyrirmælum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eiga slökkvitæki að vera af viðunandi gæðum, þeim skal viðhaldið þannig að þau séu að fullu virk á hverjum tíma, þau skuli merkt með auðskildum íslenskum leiðbeiningum og skulu yfirfarin eða þjónustuð reglulega.


Áskilnaður m.v. ökutæki

Slökkvitæki eiga að vera í eftirtöldum ökutækjum. Þetta eru lágmarkskröfur um stærð (slökkvimátt) tækja. Strangasta krafan um slökkvitæki gildir ef bifreið tilheyrir fleiri en einum flokki. Lágmarks slökkvimáttur sérhvers slökkvitækis skal samsvara 2 kg slökkvimætti dufts (ekki er þó dæmt á lágmarksstærð fyrr en eftir 01.01.2025).

  • Hópbifreið A og B: Eitt eða tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 4 kg duftslökkvitæki.
  • Hópbifreið I: Eitt eða tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 6 kg duftslökkvitæki. 
  • Hópbifreið II og III: Tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 6 kg duftslökkvitæki hvert um sig.
  • Breytt bifreið: Samsvarandi að lágmarki 2 kg slökkvimætti dufts.
  • Í notkunarflokki Húsbifreið, Leigubifreið, Ferðaþjónustuleyfi og/eða Skólabifreið: Samsvarandi að lágmarki 2 kg slökkvimætti dufts.


Krafa um staðsetningu og festingar

Í hópbifreið M3 má staðsetning slökkvitækis ekki vera lengra en 2 m frá ökumannssæti.

Festingar slökkvitækja skulu vera traustar þannig að ekki sé hætta á að slökkvitæki losni úr festingum sínum við eðlilega notkun ökutækisins. En um leið á að vera auðveldlega hægt að losa tækið úr festingum sínum þegar á því þarf að halda.


Krafa um merkingar

Slökkvitæki á að vera merkt skráningarnúmeri bifreiðar (eftir 01.03.1994).

Slökkvitæki á að vera merkt með íslenskum leiðbeiningum. Gildir um hópbifreiðir eftir 01.03.1993 og breyttar bifreiðir og húsbifreiðir eftir 01.03.1994.


Krafa um reglubundna úttekt

Ný slökkvitæki í bifreiðum skulu úttekin í fyrsta sinn áður en gildistími frá framleiðanda á fyrstu vottun fellur úr gildi. Gerð er athugasemd ef fyrsta vottun er fallin úr gildi eða ef upplýsingar um fyrstu vottun eru ekki auðlæsilegar eða sýnilegar.

Eftir það skal slökkvitæki í bifreiðum úttekið eigi sjaldnar en árlega (gerð er athugasemd ef meira en 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu úttekt). Samanber fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og reglugerð um slökkvitæki sem segir (8. gr): „Tæki sem eru geymd við breytilegt hitastig eða aðrar aðstæður sem geta haft áhrif á virkni þeirra þjónustuð oftar í samræmi við fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða annarra þar til bærra stofnana.“.


Sjúkrakassi


Krafa um innihald

Innihald sjúkrakassa skal vera að fyrirmælum landlæknis. Samkvæmt þeim fyrirmælum skal innihald sjúkrakassa vera sem hér segir:

  • Verkjatöflur
  • Heftiplástur
  • Grisjuplástur
  • Sárabindi
  • Sáraböggull
  • Silicongrisjur (fyrir skafsár) eða sambærilegar grisjur
  • Saltvatn til sárahreinsunar (einnota) eða sambærilegt
  • Teygjubindi
  • Skæri

Innihald sjúkrakassa skal vera í kassa eða púða sem hægt er að loka með traustum hætti. Sjúkrakassinn skal vera merktur skráningarnúmeri bifreiðarinnar. Innihald sjúkrakassans og merking skráningarmerkis gildir fyrir allar hópbifreiðir óháð skráningardegi þeirra.


Áskilnaður m.v. ökutæki

Sjúkrakassi á að vera í eftirtöldum bifreiðum:

  • Hópbifreiðir.
  • Breyttar bifreiðir. Gildir frá 01.01.1993, bifreiðir sem samþykktar voru fyrir þann tíma með sjúkrakassa sem ekki uppfylla þessar kröfur, þurfa ekki að endurnýja hann.
  • Bifreiðir í notkunarflokki Leigubifreið, Ferðaþjónustuleyfi og/eða Skólabifreið.


Krafa um staðsetningu

Í hópbifreið II má staðsetning sjúkrakassa ekki vera lengra en 2 m frá ökumannssæti.


Kröfur um merkingar

Áskilinn sjúkrakassi á að vera merktur skráningarnúmeri bifreiðar.


Breytingasaga skjals


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
27.12.2023Stjórnvaldskröfur,  reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011 bætt inn í listann.
Slökkvitæki, eftirfarandi breytingar gerðar:
  • Krafa um gerð: (a) Vísað í reglugerð um slökkvitæki og fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en var áður vísað til reglna Brunamálastofnunar. (b) Almennur texti um viðurkenningu uppfærður (tekinn úr reglugerð um slökkvitæki í stað reglna Brunamálastofnunar). Hefur ekki áhrif efnislega.
  • Áskilnaður m.v. ökutæki: Bætt við nýrri kröfu, „Lágmarks slökkvimáttur sérhvers slökkvitækis skal samsvara 2 kg slökkvimætti dufts“ (ekkert lágmark var tilgreint áður, ekki er þó dæmt á lágmarksstærð fyrr en eftir 01.01.2025).
  • Krafa um reglubundna úttekt: (a) Ekki lengur krafa um að ný tæki skuli úttekin innan árs heldur megi miðað við fyrsta gildistíma frá framleiðanda. Gera eigi athugasemd ef gildistíminn er liðinn (eða hann er ólæsilegur). (b) Krafa Brunamálastofnunar uppfærð yfir í fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og 8. grein reglugerðar um slökkvitæki, efnislega sambærileg.
31.03.2023Í lista yfir áskilnað miðað við ökutæki bætast ökutæki í eftirfarandi notkunarflokkum; Leigubifreið (slökkvitæki og sjúkrakassi, ný krafa sem tók gildi 01.04.2023 og er afturvirk), ferðaþjónustuleyfi (slökkvitæki og sjúkrakassi, hefur verið krafa en vantaði í listana) og skólabifreið (slökkvitæki, hefur verið krafa en vantaði í listann).
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 9.5.2.1, 9.5.2.2.



Var efnið hjálplegt? Nei