Verklagsbók: leyfisskoðun

Atriði til skoðunar og sérkröfur

Skjalið tilheyrir Skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna skoðunaratriði og sértækar kröfur um framkvæmd skoðunarinnar.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
  • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
  • Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.
  • Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017.


Leyfisskoðun: Kröfur til skoðunarmanna


Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2024):

  • V-viðurkenning (sérstakar skoðanir)
  • G- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja.


Leyfisskoðun: Umfang og ferli


Umfang

Við leyfisskoðun fer fram athugun á því hvort ökutæki uppfyllir kröfur sem til þess eru gerðar eins og lýst er í leiðbeiningaskjali um notkunarflokka fyrir ökutæki í leyfisskyldum akstri. Samantekt á þeim atriðum eru í þessu skjali.


Ferli

Við leyfisskoðun er fylgt ferli sem lýst er í 1. hluta skoðunarhandbókar um skoðunarkerfið (formála) varðandi skilyrði til skoðunar, framkvæmd skoðunar og niðurstöðu skoðunar. Nánari lýsing á einstökum þáttum er svo að finna í þessu skjali.


Auðkenning ökutækis

Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.


Leyfisskoðun: Skoðunaratriði


Í töflu 1 eru talin upp þau atriði sem skoðuð eru í leyfisskoðun. Þau taka á ástandi þeirra atriða í útliti ökutækisins, hreinlæti, þægindum og öðru er snúa að þjónustu við farþegana. Sérstökum kröfum til ökutækja í einstökum þjónustuflokkum er lýst í köflunum hér að framan, uppfylli ökutækið ekki þær kröfur er skoðun og skráningu hafnað.

Öll atriðin er hægt að dæma í bæði flokk 1 og 2 og er það metið út frá skýringum einstakra atriðia og eftirfarandi forsendum:

  • Dæming 1: Mjög auðvelt að kippa í liðinn, t.d. smávægileg óhreinindi, pera farin í inniljósi eða smávægilegar rispur inni eða úti.
  • Dæming 2: Öll önnur frávik, enda þeim ekki kippt í liðinn með auðveldum hætti.


Tafla 1. Skoðunaratriði leyfisskoðunar.

NrAtriðiSkýring
Y02Útlit þekjandi hluta (úti) ófullnægjandiLakkhúð skal vera heil og án ryðskemmda (samanlögð stærð ryðflata á öllum bílnum má ekki vera meiri en 1 dm²). Þó má hún vera lítillega skemmd, s.s. steinkast, smá rispur eða smávægilegt ryð (20-50 mm á lengd). Yfirbygging skal vera hrein (án varanlegra fitu- og olíubletta).
Y08Útlit á felgum eða hjólkoppum ófullnægjandiLakkhúð felgum og hjólkoppum skal vera heil og án tæringar- eða ryðskemmda (nær samfelldar ryðrendur meðfram brúnum og röndum eða ryðfletir yfir 0,2 dm²), smá rispur eru þó leyfðar (20-50 mm á lengd). Beyglur á hjólkoppum eiga að vera í lágmarki. Felgur og hjólkoppar skulu vera hrein (án varanlegra fitu- og olíubletta). Hjólkoppar skulu vera á báðum hjólum áss (séu þeir til staðar) og sömu gerðar. Ef hjólkoppur er á hjóli afturásasamstæðu skulu þeir vera á öllum hjólum samstæðunnar og allir sömu gerðar.
Y15Framrúða skemmdÓskemmd í sjónsviði ökumanns en smávægilegar rispur, sprungur eða steinbrot eru leyfð utan sjónsviðs ökumanns (mest 2 sprungur eða rispur, hvor eigi lengri en 100 mm, og mest 3 steinbrot, hvert eigi stærra að þvermáli en 50 mm).
Y16Hliðarrúður skemmdar eða af mismunandi útlitiÓskemmdar með öllu og sami litur skal vera á öllum hliðarrúðum. Skemmdir vegna höggs, sprungur eða rispur eru ekki leyfðar. Móða milli tvöfaldra glerja er ekki leyfð. Lituð plastfilma er í lagi ef hún er órifin, glampalaus og í góðu standi að öðru leyti.
G05Farmgeymsla - ófullnægjandi útfærsla, þéttleiki eða hreinlætiFarmgeymsla skal vera máluð eða klædd (ekki mega vera hvöss horn, kantar eða brúnir sem skemma farangur). Farmgeymsla á að vera hrein (ryk og skítur, taumar o.þ.h. eiga ekki að sjást). Farmgeymsla á að vera ryk- og vatnsþétt (ekki mega sjást ryktaumar og óhreinindi á fölsum og samskeytum kringum hurðir og lúgur, rifur eða hurð/hleri pressar ekki á þéttikanta).
I02Farþegasæti - gerð, útlit eða stillingar ófullnægjandi Seta og bak verða að vera heilklædd og bólstruð með a.m.k. 40 mm þykkum svampi (eða efni með svipaða eiginleika). Séu sætin formuð, má þykkt minnst vera 2 mm (má nota nálmæli). Efni í sætum má ekki vera snjáð (hár slitin ofan í flata efnið), mislitt vegna upplitunar, trosnað eða rifið (s.s. sígarettugöt). Stillingar sem eru á sætum skulu vera í lagi (bæði hliðarfærslu og bakhalla), mega ekki skrölta (t.d. þegar tekið efst í bakið og það hrist fram og aftur).
I10Gólfefni - ófullnægjandi útlit eða óhreintTeppi mega ekki vera snjáð (hár slitin ofan í flata efnið), trosnuð eða rifin (t.d. sígarettugöt). Dúkur verður að vera sléttur og vel límdur, án áferðaskemmda. Má vera lítillega rispaður. Lausir dreglar skulu vera vel sniðnir, stamir á gólfi og endar mega ekki flettast upp.
I11Hliðar- eða loftklæðning - ófullnægjandi útlit eða óhreinMá ekki vera snjáð (hár slitin ofan í flata efnið), trosnuð eða rifin (s.s. sígarettugöt).
I18Inniljós - almenn lýsing ófullnægjandi
Farþegarými (gangur) skal vera vel upp lýst (virkni ljósa könnuð). Öll ljósker skulu lýsa og skal lýsing vera samfelld þannig að hún sé sem næst jafnmikil í öllu rýminu. Í stærri bílum má hún vera í formi gólfljósa sem lýsa nær samfellt upp gang (gönguflötinn).
I19Inniljós - inn/útgönguljós ófullnægjandi
Tröppur hópbíla I og II sem eru inni í bílnum skulu vera vel upp lýstar þegar dyr eru opnar (virkni prófuð). Öll ljósker skulu lýsa. Öll þrep skulu upplýst með svipuðu ljósmagni.
I22Hljóðnema vantar eða virkni ófullnægjandiHljóðnemi á að vera fyrir fararstjóra í bílum með 15 farþega og fleiri. Snúra skal vera a.m.k. 2 m og skal ná auðveldlega að sæti leiðsögumanns (sé það í bílnum). Virkni skal prófuð með því að tala í hljóðnemann (talað mál verður að skiljast auðveldlega hvar sem er í bílnum).
I30Útvarp vantar eða virkni ófullnægjandiÚtvarp fyrir farþega á að vera í bílum með 15 farþega og fleiri. Prófað með því hlusta um allan bíl á a.m.k. eina útvarpsstöð.
I31Hátalarakerfi vantar eða ófullnægjandiA.m.k. einn hátalari á að vera við aðra hverja sætaröð beggja vegna í farþegarými í bílum með 15 farþega og fleiri. Hljóðnemi, útvarp eða spilari virkjaður og sérhver hátalari athugaður.
I35Hávaði í farþegarými of mikill í akstri
Sé tilefni til er hávaðamæling framkvæmd. Bílnum skal ekið (af öðrum en skoðunarmanni) á 60 km hraða, hreyfill skal snúast á 3/4 af hámarks snúningshraða og miðstöð og loftræsting á fullum gangi. Hljóðstyrkur í farþegarými mældur og má hann ekki fara yfir 77 dB(A). Mælingar skulu gerðar á gangi við efri brún sæta sem næst hreyfli, framás, afturás og gírkössum. Skoðunarmaður skal sitja í farþegasæti þegar mæling er gerð (til að trufla ekki hljóðflæði eftir gangi).
I41Þéttleiki farþegarýmis ekki nægur
Farþegarými skal vera sem næst ryk- og vatnsþétt.
Föls og samskeyti kringum hurðir, opnanleg fög, topplúgur o.þ.h. skoðað m.t.t. ryktauma og óhreininda. Athuga hvort sést út með þéttingum.
I45Hreinlæti farþegarýmis ábótavantFarþegarými skal vera sem næst hreint. Bankað er í stóla og teppi og athugað hvort ryk gýs upp. Dúkur og klæðningar (yfir vélarhúsi, mælaborð, o.fl.) skal vera án bletta og óhreininda í hornum og fölsum. Gler og plasthlutir skulu vera hreinir og glansandi. Heimilt er að gera undantekningu á kröfum um útlit farþegarýmis þegar um sérstaka flutninga á farþegum í óþrifalegum eða blautum fatnaði er að ræða, td. við flutning á þátttakendum í fljótasiglingum enda notist bifreiðin ekki til annarra fólksflutninga. Þegar um slíkar undantekningar er að ræða skal skila þeim inn sem athugasemd með niðurstöðu skoðunar.
I51Loftræsing farþegarýmis ófullnægjandi
Farþegarými verður að hafa opnanlegar einingar (glugga, lúgur, o.þ.h.) og/eða viftur sem blása út og inn. Lágmarksstærð opa (ef eingöngu er um frjálsan loftflutning er að ræða) er 2% af gólfflatarmáli fólksrýmis.
I52Upphitun farþegarýmis ófullnægjandiSnertifletir hitaflata (sem auðveldlega er hægt að snerta viljandi eða óvart) mega mest vera 80°C (prófað og mælt ef tilefni er til). Hitunarbúnaður ætti að geta haldið bíl að lágmarki 15°C í 20°C frosti (reiknað með að það sé uppfyllt er a.m.k. einn hitagjafi við gólf (blástur, ofn, o.þ.h.) er fyrir hverjar þrjár sætaraðir.
E99Aukabúnaður virkar ekki sem skyldi Sé einhver aukabúnaður ætlaður farþegum í bifreiðinni skal hann vera í lagi (annars fjarlægður eða lokaður af og merkingar um hann fjarlægðar). Hann er því prófaður eins og tilefni er til hverju sinni, t.d. með því að fá að sjá hann í notkun. Dæmi um aukabúnað og skoðun hans:

  • Kaffivél: Fari í gang.
  • Klukka: Sýni réttan tíma.
  • Kæliskápur: Sé að kæla, hönd lögð að kælifleti.
  • Lesljós: Kveikja á þeim.
  • Loftkæling: Hönd lögð að kæliblæstri, sé að kæla.
  • Salerni/handþvottabúnaður: Skrúfa frá eða sturta niður.
  • Sími: Má hringja úr símanum.
  • Skjár: Allir farþegar ættu að geta séð á skjáinn.
  • Spilarar (CD/DVD/VHS/spóla): Má prófa.
  • Sætisarmar: Armar færðir og þeim læst.


Leyfisskoðun: Frávik og niðurstaða


Frávik við leyfisskoðun og niðurstaða skoðunar

Sé gerð athugasemd í flokki 2 verður niðurstaða skoðunar „Endurskoðun“ og ökutækið telst ekki hafa staðist skoðunina. Eigi að skrá ökutækið í viðkomandi rekstur í framhaldi af skoðun er þeirri skráningu hafnað. Annars er heimilt er að klára umsóknarferil og/eða staðfesta áframhaldandi leyfi fyrir viðkomandi ökutæki.


Númer skoðunaratriða

Númer skoðunaratriða á skoðunarvottorði eru LEY.xxx.d, þar sem LEY er fast forskeyti, xxx er númer atriðis hér að ofan, og d er flokkun þess (1 eða 2). Dæmi: LEY.I10.2 er dæming 2 á að gólfefni sé ófullnægjandi í farþegarými.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Úr eldri útgáfu leyfisskoðunarhandbókar, efni endurskoðað.



Var efnið hjálplegt? Nei