Verklagsbók: samanburðarskoðun

Atriði til skoðunar og sérkröfur

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna skoðunaratriði og sértækar kröfur um framkvæmd skoðunarinnar.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
  • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.


Samanburðarskoðun: Kröfur til skoðunarmanna


Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2024):

  • V-viðurkenning (sérstakar skoðanir)
  • G-, B- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja og ökutækjaflokka.


Samanburðarskoðun: Umfang og ferli


Umfang

Við samanburðarskoðun fer fram athugun á því hvort gerðarviðurkennt ökutæki sé í samræmi við tilteknar upplýsingar sem forskráðar hafa verið í ökutækjaskrá. Samantekt á þeim atriðum eru í þessu skjali.


Ferli

Við samanburðarskoðun er fylgt ferli sem lýst er í 1. hluta skoðunarhandbókar um skoðunarkerfið (formála) varðandi skilyrði til skoðunar, framkvæmd skoðunar og niðurstöðu skoðunar. Nánari lýsing á einstökum þáttum er svo að finna í þessu skjali.


Auðkenning ökutækis

Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu (nema náist að leiðrétta í samvinnu við Samgöngustofu).


Samanburðarskoðun: Skoðunaratriði


Í töflu 1 eru talin upp þau atriði sem borin eru saman í samanburðarskoðun. Mögulegum frávikum sem kunna að finnast og viðbrögðum við þeim er lýst í töflunni.


Tafla 1. Skoðunaratriði samanburðarskoðunar.

AtriðiSkoðun
Samræmi við gerðarviðurkenninguGanga skal úr skugga um að ökutæki sé í samræmi við þá gerð sem það er skráð eftir að því er varðar hönnun, innréttingu og búnað. Ef fulltrúi verður var við frávik frá gerð eða sérstaka annmarka á ökutækinu, t.d. vegna tjóns, skal hafna skoðun og skráningu.
ÞyngdartölurBera skal saman þyngdartölur á ökutæki og í ökutækjaskrá. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.
LjósabúnaðurAthuga skal virkni ljósabúnaðar og ljós skulu vera rétt stillt (mælt). Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.
Viðvörunar-þríhyrningurÍ öllum bifreiðum skal vera viðvörunarþríhyrningur (ekki nauðsynlegur í öðrum ökutækjum) sem uppfyllir kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Ef hann er ekki til staðar skal hafna skoðun og skráningu.
Skermun hjólaHjól bifhjóls skulu búin hjólhlífum sem uppfylla reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Ef kröfur um hjólhlífar eru ekki uppfylltar skal hafna skoðun og skráningu.
Litur ökutækisBera skal saman skráðan lit og lit á ökutæki. Ef litur er rangur í ökutækjaskrá skal réttur litur tilgreindur á nýskráningarbeiðni og er hann skráður í ökutækjaskrá við nýskráningu.
SætafjöldiBera skal saman skráðan sætafjölda og sætafjölda í ökutæki. Öll sæti verða að hafa öryggisbelti. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.
HjólbarðastærðBera skal saman hjólbarðastærð ökutækis og skráða hjólbarðastærð. Ef hjólbarðastærð ökutækis er önnur en skráð er, en sú stærð er í lista yfir leyfilegar stærðir samkvæmt gerðarviðurkenningu (tilgreint á nýskráningarbeiðni) er leyfilegt að skrá hana. Ef stærðin er ekki ein af þeim stærðum sem til tilgreinar eru á nýskráningarbeiðni skal hafna skoðun og skráningu.
Staða akstursmælisVið samanburðarskoðun skal tilgreina stöðu akstursmælis í km á nýskráningarbeiðni.
TengibúnaðurEf um er að ræða þjóðargerðarviðurkenndan tengibúnað má taka til greina undiritaða beiðni um skráningu tengibúnaðar frá fulltrúa (US.112 eða US.112-1). Annars þarf að taka út tengibúnaðinn með venjulegum hætti í breytingaskoðun og láta þess getið á nýskráningarbeiðni.
NotkunarflokkurNotkunarflokkur er almennt skráður sem "Almenn notkun". Ef ætlunin er að nota ökutækið til útleigu má tilkynna þá skráningu á breytingablaði. Aðrar breytingar á notkunarflokkum er óheimilt að framkvæma samhliða nýskráningu (gera verður breytingaskoðun eftir að skráning hefur farið fram).
SkráningarflokkurMeð skráningarflokki er átt við þann flokk sem skráningarmerki ökutækisins tilheyra t.d. almenn-, vsk- eða einkamerki. Mikilvægt er að tilgreina réttan flokk í samræmi við þau merki sem sett hafa verið á ökutækið.
SkráningarnúmerTilgreina skal þá áletrun sem er á skráningarmerkjum ökutækisins. Mikilvægt er að tilgreina rétta áletrun.


Samanburðarskoðun: Frávik og niðurstaða


Frávik við samanburðarskoðun

Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta á meðan á framkvæmd skoðunarinnar stendur (í samvinnu við Samgöngustofu) skal hafna skoðun og er þá óheimilt að nýskrá ökutækið. Ef frávik stafar af mistökum hjá Samgöngustofu er reynt að leiðrétta þau án tafar.

Ef frávik stafar af vali umsækjanda á rangri gerð eða röngum upplýsingum í gerðarskráningu er skoðun og skráningu hafnað. Umsækjandi þarf svo annað hvort að sækja um nýja gerð eða leiðréttingu/breytingu á viðkomandi gerð. Að lokinni skráningu á nýrri gerð þarf hann að sækja um breytingu á skráningu viðkomandi ökutækis til samræmis við hina nýju gerð (US.406).


Niðurstaða samanburðarskoðunar og nýskráning ökutækis

Niðurstaða samanburðarskoðunar getur aðeins verið án athugasemda (nema hætt sé við skoðun). Nýskráning ökutækis skal fara fram sem fyrst eftir að samanburðarskoðun er lokið.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal, úr skráningarreglum, aukið og endurbætt.



Var efnið hjálplegt? Nei