K5 Ásar, fjöðrun og spindlar

Spindilkúlur/-boltar, legur, spyrnur, stífur, fóðringar

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum til ása, fjöðrunar, spindilkúla og -bolta, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
5.1.2Hjólnöf og spindilboltar 
5.1.3Hjólalegur 
5.3.3Hjólspyrnur, armar og stífur
5.3.4Spindilkúlur 


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Hjóllegur


Slag í hjóllegum (St6.2.3.1)

Ökutæki er lyft upp þannig að hjól hangi laus. Tekið er á hjólum að ofan og að neðan. Við skoðun ökutækja sem eru meira en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd skal nota spennijárn. 

Hreyfing hjóls er metin og ef líkur eru á að hún sé nálægt leyfilegum mörkum er hún mæld á eftirfarandi hátt: Vinkill er lagður á gólfið eða á lyftu og að hjólbananum. Mæla skal bilið frá vinkli að felgubrún. Hjólið er tekið út að neðan og inn að ofan þannig að vinkillinn færist með. Síðan er hjólinu ýtt inn að neðan og út að ofan og bilið sem myndast á milli vinkilsins og felgubrúnar mælt. Raunveruleg færsla hjóls fæst með því að draga frá upphaflegu fjarlægðina frá vinkli að felgubrún. Í töflu 1 er að finna upplýsingar um leyfilega færslu hjólbana vegna slags í legu m.v. felgustærðir.


Tafla 1. Leyfileg færsla hjólbana vegna slags í legu. (St6.2.5.1)

FelgustærðFærsla hjólsFelgustærðFærsla hjóls
 12" 2,5 ± 0,1 mm 18" 3,5 ± 0,1 mm
 13" 2,5 ± 0,1 mm 20" 4,0 ± 0,1 mm
 14" 3,0 ± 0,1 mm 22" 4,5 ± 0,1 mm
 15" 3,0 ± 0,1 mm 24" 5,0 ± 0,1 mm
 16" 3,5 ± 0,1 mm  


Hjólspyrnur og stífur


Fóðringar í hjólspyrnum og stífum og festingar þeirra (St6.3.3.1)

Til að meta slit í fóðringum bifreiða, sem eru minna en 3500 kg af leyfðri heildarþyngd, er notaður skakari og/eða spennujárn. Festingar efri ófergðrar hjólaspyrnu eru athugaðar með því að lyfta framhluta bifreiðarinnar upp með tjakki. Fremri og aftari festingar eru athugaðar með því að taka á hjólinu í fullu stýrisútslagi til hægri og vinstri. Festingar fergðra spyrna eru athugaðar með sjónskoðun. Í vafatilvikum má aflesta festingarnar með spennijárni. 

Slit í spyrnum á tengivögnum má einnig athuga með því að hemla vagninum og skaka honum afturábak og áfram með dráttarbifreiðina tengda á meðan liðamótin eru athuguð.


Fjaðrir (allar gerðir)


Varðar krókblað (St6.4.2.1)

Fjaðrir sem hannaðar eru með krókblaði skulu vera með slíku blaði. Sé skipt um fjöður í heild sinni og sú fjöður ekki hönnuð með krókblaði skal ekki gera kröfu um það þó að slíkt hafi verið í upphaf-legri fjöður ökutækisins.


Aksturshæð (St6.4.3.4)

Á ökutækjum með stillanlega aksturshæð, t.d. á ökutækjum með loftpúðafjöðrun, skal aksturshæð vera skilgreind sem 1/3 af fjöðrunarsviðinu, þ.e. fjöðrunarbúnaður undir ökutækinu skal vera útdregin um 1/3 af fjöðrunarsviðinu. Aksturshæðin skal fundin á eftirfarandi hátt:

  • Hámarkshæð er fundin með því að dæla hámarksþrýstingi í loftpúðana og mæla fjarlægð frá jörðu í fastan punkt á yfirbyggingu.
  • Lágmarkshæð skal fundin með því að hleypa öllu lofti úr loftpúðunum og mæla fjarlægð frá jörðu í sama fasta punkt á yfirbyggingu.
  • Dæla skal svo í loftpúðana þannig að fjarlægð í fasta punktinn á yfirbyggingu frá jörðu sé þriðjungur af hæstu og lægstu stöðu.


Spindilkúlur


Skoðun á ísetningu

Ef um nýjar spindilkúlur er að ræða eða líkur eru á rangt ísettri kúlu er athugað hvort merki passi saman, ef þau eru fyrir hendi.


Skoðun splittun

Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.


Skoðun á festingum og sliti

Á ökutækjum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á hugsanlegu losi eða slagi fram með skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á spindla. Stundum fyllist liðskál slitinnar spindilkúlu af óhreinindum þannig að ekkert hlaup kemur fram. Yfirleitt gerist þetta vegna ónýts hlífðargúmmís. Í slíkum tilfellum skal gæta sérstaklega að legu kúlunnar í liðnum og hvort lega kúlunnar bendi til þess að hún sé að fara úr kúluhúsinu. Þetta skal athuga sérstaklega ef hlífðargúmmí er skemmt eða vantar. Slag er einnig athugað eftir að spindillinn hefur verið aflestaður. Slagið skal mælt ef líkur eru á því að það sé utan leyfilegra marka.


Fergð og ófergð spindilkúla - aflestun og skoðun

Slit fer eftir því álagi sem spindilkúla verður fyrir. Fergð spindilkúla slitnar oftast í lengdarstefnu en slit í þverstefnu verður yfirleitt mun minna. Ófergð spindilkúla slitnar oftast svipað í lengdar og þverstefnu.

  • Fergð spindilkúla: Ef spindilkúla er höfð milli fjaðrar og hjóls ber hún þunga ökutækisins sem kemur á hjólið. Nefnist hún þá fergð spindilkúla. Fergð spindilkúla yfirfærir því þyngdarkraftinn frá fjöðrum út í spindilkúlu og niður í gegnum hjólið.
  • Ófergð spindilkúla: Hún ber ekki þunga og hefur fyrst og fremst það hlutverk að halda hjólinu í réttri stöðu.

Við athugun á hlaupi í spindli má ekki nein meiriháttar þyngd hvíla á spindlinum, þ.e.a.s. hann verður að vera álagslaus. Aflesta verður spindilinn óháð gerð hans, gerð bolta, fóðringa eða spindilkúlu. Aðferðin sem notuð er við aflestunina ræðst af því hvernig spindillinn er fergður. Það kemur þó ekki í veg fyrir skoðun þótt þyngd hjólsins hvíli á spindlinum. Hlutir í framvagni svo sem spyrnustífa, jafnvægisstöng og gashöggdeyfir gera aflestun spindilsins erfiðari.

Hér er lýst búnaði og skoðunaraðferðum í þremur algengustu útfærslum í stýrisbúnaði fólksbifreiða.


TVÆR SPYRNUR, EFRI SPINDILKÚLA FERGÐ

K2Mynd 1. Tvær spyrnur, efri spindilkúla fergð.

Lýsing: Þyngd ökutækis flyst um fjöður, efri spyrnu, efri spindilkúlu, hjólvöl og hjól til jarðar. Þyngd ökutækisins leitast þannig við að þrýsta saman spindilkúlunni sem ber þyngdina. Sjá mynd 1.

Ökutækinu lyft: Bifreiðinni er lyft með átaki utan fjaðrabúnaðar þ.e. lyft undir burðarvirki. Á flestum ökutækjum er höggpúði sem heldur við efri spyrnu. Þá hvílir fjaðrarátakið á púðanum þegar framvagn er á lofti svo að ekkert verulegt átak er á spindilkúlunni. Við sum ökutæki, t.d. Saab, þarf að nota sérjárn á milli spyrna til að koma í veg fyrir sundurfjöðrun sem veldur því að spindilkúlur spennast fastar og slag finnst ekki.

Skoðun á fergðum spindilkúlum: Aðeins er athugað lengdarhlaup. Hjólinu er lyft upp með því að setja spennijárn undir það. Lega kúlunnar í spindlinum er metin með sjónskoðun. Þegar ætla má að þyngd hjólsins hafi ekki náð að draga völinn niður í neðstu stöðu er notað spennijárn til þess að ná honum niður.

Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Bæði er athugað lengdar og þverhlaup. Lengdarhlaup er athugað með því að taka á neðri spyrnu upp og niður. Þverhlaup finnst með því að rykkja í hjólið utan frá. Heppilegasta tak á hjóli fer eftir afstöðu spindilkúlu og stýrisenda. Til þess að nota eins lítið átak og unnt er ætti að taka á hjólinu út frá línu um hjólmiðju sem liggur þvert á línu um þá liði sem ekki er verið að athuga. Þverhlaupið finnst því betur sem styttra bil er milli spindilsins sem athugaður er og snúningsáss um hjólið við átakið. Sjá mynd 2.

UMynd 2. Skoðun á ófergðum spindilkúlum, hvernig tekið er á hjóli.


TVÆR SPYRNUR, NEÐRI SPINDILKÚLA FERGÐ

K23

Mynd 3. Tvær spyrnur og neðri spindilkúla fergð.

Lýsing: Þyngdin flyst af framásbita um fjöður, neðri spyrnu, neðri spindilkúlu, hjólvöl og hjól til jarðar. Þyngd ökutækisins leitast þannig við að toga sundur spindilkúluna sem ber þyngdina. Sjá mynd 3.

Ökutækinu lyft: Við skoðun er framvagni lyft á neðri spyrnum eins nærri spindilkúlu og kostur er. Þyngdin fer þá um fjöður og neðri spyrnu á tjakkinn. Neðri spindilkúla tekur þá aðeins við þyngd hjólsins.

Skoðun á fergðum spindilkúlum: Aðeins er athugað lengdarhlaup. Spindilkúlunni er þrýst upp og niður með spennijárni. Óhreinindi eða frosið vatn í liðnum getur orðið til þess að hlaup komi ekki fram í skemmdri kúlu. Þess vegna þarf einnig að meta með sjónskoðun legu kúlunnar í skálinni.

Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Athugun á þverhlaupi og e.t.v. einnig lengdarhlaupi er hliðstæð þeim reglum sem lýst var um neðri ófergða spindilkúlu. Þar sem oftast er einfaldara að athuga þverhlaupið beinist athugun fyrst að því. Ef fram kemur þverhlaup skal einnig athuga lengdarhlaup og dæma síðan út frá því.


McPHERSON

K28

Mynd 4. Fjöðrun af gerðinni McPherson með ófergða spindilkúlu.

Lýsing: Yfirleitt er sú þyngd ökutækisins sem kemur á hjólið borin beint uppi af hjólvalarstykkinu. Spindilkúlan er ófergð. Þrátt fyrir það kemur oft fram meira lengdarhlaup en þverhlaup í slitnum spindilkúlum í McPherson stýrisbúnaði. Sjá mynd 4.

Ökutækinu lyft: Lyft er undir burðarvirki. Þess verður að gæta við sundurfjöðrunina að spindilkúlur geta skorðast fastar þannig að hlaup finnst ekki. Öflugar spyrnustífur eða jafnvægisstöng geta einnig torveldað athugun á þverhlaupi. Því er best að athuga þverhlaup í spindilkúlu með skakaranum áður en ökutækinu er lyft.

Athugun á gormlegg: Gormleggir er metnir út frá hlaupi í legu og festingu og stirðleika við snúningshreyfingu. Þegar framvagn er á lofti má finna hlaup í legu með því að toga í og ýta utan á hjólið til skiptis eins og lýst var áður. Ef stýrisendar eru staðsettir lágt má taka á efri brún hjólsins. Sumar leggfestingar eru þannig að hlaup getur komið fram þegar framvagni er lyft undir burðarvirki án þess að slíkt hlaup stafi af bilun, t.d. í VW og Audi. Þegar hlaup finnst skal því einnig athuga búnaðinn í aksturslegu.

Skoðun á ófergðum spindilkúlum: Lengdarhlaup er athugað annað hvort með framvagn á lofti eða áður en honum er lyft. Liðnum er þrýst saman og hann togaður sundur með átaki spennijárns á hjólspyrnuna. Þverhlaup finnst með því að rykkja í hjólin utan frá. Heppilegasta tak á hjólunum fer eftir afstöðu stýrisenda. Til þess að nota eins lítið átak og unnt er ætti að grípa á hjólinu eftir því sem fyrr var sagt eða samkvæmt því sem myndirnar hér á eftir sýna. Sjá mynd 5.

K30Mynd 5. Skoðun á ófergðum spindilkúlum, hvernig tekið er á hjóli.


Spindilboltar


Skoðun splittun

Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.


Skoðun á festingum og sliti

Á ökutækjum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á hugsanlegu losi eða slagi fram með skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á spindla. Slag er einnig athugað eftir að spindillinn hefur verið aflestaður. Slagið skal mælt ef líkur eru á því að það sé utan leyfilegra marka.


Aflestun og skoðun

Við athugun á hlaupi í spindli má ekki nein meiriháttar þyngd hvíla á spindlinum, þ.e.a.s. hann verður að vera álagslaus. Aflesta verður spindilinn óháð gerð hans, gerð bolta, fóðringa eða spindilkúlu. Aðferðin sem notuð er við aflestunina ræðst af því hvernig spindillinn er fergður. Það kemur þó ekki í veg fyrir skoðun þótt þyngd hjólsins hvíli á spindlinum. Hlutir í framvagni svo sem spyrnustífa, jafnvægisstöng og gashöggdeyfir gera aflestun spindilsins erfiðari.

Hér er lýst búnaði og skoðunaraðferðum í algengustu útfærslu spindilbolta í þyngri bifreiðum.


K25Mynd 6. Algeng útfærsla spindilbolta í stærri ökutækjum.

Lýsing: Á þungum ökutækjum er spindilbolti algengasta gerð spindla. Þunginn flyst frá framás um legu til hjólvalarstykkis, hjólvalar og hjóls. Sjá mynd 6.

Athugun á lengdarhlaupi: Lengdarhlaup er athugað annað hvort þegar ökutækinu er lyft eða með því að setja spennijárn undir hjólið þegar það er á lofti.

Athugun á þverhlaupi: Þverhlaup er athugað með því að stinga spennijárni í neðri eða efri hluta felgunnar sbr. mynd 7. Stigið er á fóthemil til þess að hugsanlegt hlaup í hjóllegu valdi ekki röngu mati.

P

Mynd 7. Skoðun á þverhlaupi spindilbolta með spennijárni.


Upplýsingar um leyfilegt slag í spindilkúlum


Tafla 2. Upplýsingar um leyfilegt slag í spindilkúlum. Í öðrum tegundum ökutækja skal gengið út frá því að hámarks leyfilegt slag sé 1 mm. (St4.1.5.2)

Gerð bifreiðarEfri: lengdar/þversNeðri: lengdar/þvers
Audi A4, A6, A80 / 0 mm
Chevrolet 4x4 með stangarfjöðrun0 / 0 mm3 / 0 mm
Chevrolet BlazerÞverslag í báðum spindlum jafngildi 3,2 mm mælt við felgubrún. Lengdarslag í neðri spindli 3,2 mm
Dodge Dakota, Ram Van, Ram Pickup2,29 / 1,52 mm2,29 / 0 mm
Dodge Dakota, Durango 97 - 991,5 / 0 mm0 / 1,5 mm
Ford Aerostar frá og með 19902 / 0 mm
Ford Twin I-Beam ás0 / 0,8 mm0 / 0,8 mm
Lexus LS 400, GS 300, 400, 430, SC 300, 400, SC 430, IS 200, 300.0,4 / - mm
Mercedes Benz C/E W202/W210Ekki mælt / 1 mm
Mercedes Benz / Dodge SprinterEkki mælt / 0 mm

Mercedes Benz ML 97 – 05 VIN númer byrjar á WDD163

4 / 0 mm

Mercedes Benz ML 05 - > VIN númer byrjar á WDD164

0 / 0 mm
Suzuki (allar gerðir)Ekkert slagEkkert slag
Toyota Crown2,3 / - mm
Toyota Supra0,4 / - mm
Toyota Liteace, Townace2,3 / - mm2,3 / - mm
Toyota Hiace2,3 / - mm2,3 / - mm
Toyota Dyna2,3 / - mm
Toyota Landcruiser 90, 120, 150 og Hilux 2005 -0,5 / - mm
Toyota Sequoia0,5 / - mm
Toyota 4Runner (VZN120, 13#, YN13#, RN13#, 125, LN13#)2,3 / - mm
Toyota 4Runner (RZN185, VZN18#, KZN185)0,5 / - mm
Toyota Tundra0,5 / - mm
Toyota Tacoma0,5 / - mm
Toyota Hilux (YN8#, 9#, RN8, 90, VAN85, 9#, YN10#, 11#, RN10#, 11#, LN10#, 11#)2,3 / - mm2,3 / - mm
Toyota Hilux (RZN14#, 15#, LN14#, 15#)1,9 / - mm0,5 / - mm
Toyota Hilux (LN16#, 17#, 19#, RZN16#, 17#, 19#)2,3 / - mm
Toyota T-100 (RCK10, VCK1#)1,9 / - mm0,5 / - mm
Toyota T-100 (VCK2#)2,3 / - mm
Volvo 200-línan0 / 0 mm3 / 0 mm
Volvo 700-línan0 / 0 mm3 / 0,5 mm
Volkswagen LT1,1 / 0 mm
Volkswagen Passat0 / 0 mm

M. Benz, gerðir 124 & 201 nema með vélar 104 & 119 (sjá gerðarnúmer)

Hlaup athugað með spindilmáta MB 201 589102300. Kúlur eru slitnar umfram leyfileg mörk ef hægt er að ýta mátanum í botn án mikils krafts og án notkunar verkfæra (sjá mynd 8).

K31

Mynd 8. Hlaup athugað með spindilmáta.


Volkswagen Passat frá 1998

Í Volkswagen Passat frá 1998 eru stýrisdemparar á stýrisstöng við stýrisenda, við skoðun á slagi í stýrisenda sést slag í demparafestingunni, dæma skal hana skv. skoðunaratriði 5.3.2 Höggdeyfar og höggdeyfafestingar.


Citröen (með vökvafjöðrunarkerfi)

Aðferð til að athuga slag í spindilkúlum og aflesta þær er þessi. Lyftið undir burðarvirki bifreiðar þannig að hjól rétt fari á loft. Setja má hæðarstilli inni í bifreið í lægstu stöðu. Setjið kúbein undir hjól og lyftið og látið síga nokkrum sinnum. Við það gengur vökvinn í fjöðrunarkerfinu til baka og spenna fer af hjólabúnaðinum. Athugið slag í spindlum og stýrisendum á venjulegan hátt eins og um McPherson fjöðrun væri að ræða. Setjið hæðarstilli aftur í upprunalega stöðu ef hann hefur verið hreyfður.


Upplýsingar um leyfilegt slag í spindilboltum


Tafla 3. Upplýsingar um leyfilegt slag í spindilboltum. (St4.1.5.3)

Gerð bifreiðarLengdarslag (endaslag)Þverslag
Bifreiðir undir 3.500 kg heildarþyngd2 mm1 mm
Bifreiðir yfir 3.500 kg heildarþyngd2 mm2 mm

K32

Mynd 9. Línuritið sýnir færslu hjólbarða miðað við 2 mm þverslag í spindilboltum. 1 mm slag fæst með því að deila með 2 í þá tölu sem sýnir leyft þverslag á lárétta ásnum.


Sértækar upplýsingar: Leyfilegt slag í hjólabúnaði


Nissan Primera P10 - leyfilegt slag í stífuenda (St6.3.5.1)

Leyfilegt slag í stífuenda Nissan Primera P 10 er mest 10 mm, sjá mynd 10.

K40Mynd 10. Leyfilegt slag í stífuenda er 10 mm.


MMC Pajero, Pajero Sport og L200 (árg 1993-2002)

Leyfilegt slag í efri hjólspyrnufóðringum að framan (double wishbone) í MMC Pajero, Pajero Sport og L200 er 1 mm (gildir um lausa fóðringu). Á við um þessa bíla af árgerðum 1993 til 2002, en þeir komu bæði með lausum og stífum fóðringum á þessu árabili.

Sjá myndir 11, annars vegar mynd af lausri fóðringu (v.m), hinsvegar af stífri fóðringu (þar sem ekkert slag er leyft h.m.). Gildir þegar tekið er á hjóli ofan og neðan með höndum eða létt með spennijárni (gæta verður að spenna ekki of mikið svo færsla gúmmífóðringarinnar sé ekki tekið sem slag.

K58Mynd 11. Myndir af stífri fóðringu og lausri hjólspyrnufóðringu.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 4.1.3.3-5, 4.1.5.2, 4.1.5.3, 6.2.3.1, 6.3.5.1, 6.4.2.1, 6.4.3.4.


Var efnið hjálplegt? Nei