Búnaðarkröfur

Kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofum

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til aðstöðu og búnaðar  á skoðunarstofum (og DRÖG að innleiðingu nýrra tækja).

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
  • Tilskipun ESB um mælitæki nr. 2004/22/ESB.
  • Tilskipun ESB um gerðarviðurkenningu ökutækja nr. 2019/2144/ESB.
  • Staðall ISO 21069-1 Ökutæki - Prófun hemlakerfa ökutækja með leyfða heildarþyngd yfir 3,5 t með rúlluhemlaprófara - Hluti 1: Lofthemlakerfi.


Kröfur og umfang viðurkenningar skoðunarstofu


Lágmarkskröfur til aðstöðu og búnaðar

Í viðauka I í reglugerð um skoðun ökutækja er kveðið á um að skoðanir skuli framkvæmdar í viðeigandi aðstöðu og með viðeigandi búnaði. Eftir atvikum má nota færanleg skoðunartæki. Einnig er hægt að sameina tvö eða fleiri tæki í eitt samsett tæki, að því tilskildu að það hafi ekki áhrif á nákvæmni hvers tækis.

Í reglugerðinni eru settar fram lágmarskröfur til aðstöðu og búnaðar og eru þær skýrðar og túlkaðar hér í skjalinu (númer liða eru þau sömu og í reglugerðinni). Kröfur til búnaðar eru einnig tilgreindar í viðeigandi skjölum stoðrits þar sem fjallað er um notkun viðkomandi búnaðar.


Viðurkenning skoðunarstofu og einstakra skoðunarstöðva

Nauðsynlegur búnaður og aðstaða fer eftir því hvaða ökutæki og ökutækjaflokka á að skoða hjá skoðunarstofu. Samgöngustofa viðurkennir skoðunarstofu til að skoða ökutæki og miðast viðurkenningin við þann búnað sem er til staðar. 

Hafi skoðunarstofa starfsemi á fleiri en einum stað er aðstaða og búnaður þeirrar stöðvar sem best er búin lögð til grundvallar þegar umfang viðurkenningar skoðunarstofunnar í heild er ákveðin. Þrátt fyrir það má skoðunarstofan aldrei skoða önnur ökutæki í skoðunarstöð sinni en þau sem falla innan þeirra krafna sem gerð eru til aðstöðu og búnaðar við skoðun þeirra. Í eftirfarandi tilvikum þyrfti t.d. að hafna skoðun á ökutæki vegna þessa:

  • Ökutæki er of hátt fyrir innkeyrsludyr.
  • Ökutæki er of breitt fyrir t.d. innkeyrsludyr, hemlaprófara eða lyftu.
  • Ökutæki er of langt fyrir lyftu (og gryfja er ekki til staðar).
  • Hemlaprófun eftirvagns í hemlaprófara óframkvæmanleg vegna þess að ekki er gegnumakstur.
  • Ökutæki er yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd og hjólþeyti vantar (frá 01.07.2024). 


Aðstaða


Skoðunaraðstaða (liður 1)

Skoðunaraðstaða (skoðunarstöð) með fullnægjandi rými til að skoða ökutæki og sem uppfyllir nauðsynlegar kröfur um heilbrigði og öryggi.


Plan, gryfja, lyfta (liður 2)

Nægilega stór skoðunarbraut til að sinna skoðun á ökutækinu (í kyrrstöðu) ásamt gryfju eða lyftu.

Tjakkur á gryfju og lyftu til að lyfta hverjum ási ökutækisins fyrir sig.

Aðstaðan skal búin viðeigandi lýsingu og loftræstibúnaði (ef nauðsyn krefur).


Vélræn skoðunartæki og handverkfæri


Skakari (liðir 8) - AÐ FULLU KRAFA FRÁ frá 01.07.2024

Á lyftu og í gryfju skal vera ein hreyfiplata til að hreyfa framhjól bifreiðar (skakari) vegna mats á sliti í hjóla- og stýrisbúnaði. Hreyfiplatan á a.m.k. að geta færst þversum (út/inn) og snúist í báðar áttir (nokkrar gráður).  Skoðunarmaður skal geta stjórnað skakaranum sjálfur á meðan hann skoðar og metur slitið.

Þessi krafa gildir frá 01.07.2024: Tvöfaldur skakari (með hreyfiplötu fyrir sitthvort framhjól) í gryfju vegna mats á sliti í hjóla- og stýrisbúnaði í ökutækjum yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd. Hreyfiplötur skulu geta færst í sitthvora áttina, bæði langsum og þversum (a.m.k. 95 mm á hraðanum 5-15 cm/sek). Skoðunarmaður skal geta stjórnað skakaranum sjálfur á meðan hann skoðar og metur slitið.


Hjólþeytir (liður 16) - AÐ FULLU KRAFA FRÁ frá 01.07.2024

Hjólþeytir til að snúa hjólum ökutækis sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd. Hann skal geta snúið stærstu ódriftengdum hjólum  ökutækisins á fullnægjandi hraða svo mögulegt sé að finna misþyngd á hjóli og/eða skemmdir í legu hjólvalar eins og lýst er í verklagsbókum handbókarinnar.

Ofangreind krafa gildir frá 01.07.2024. Fram að því miðast krafan við 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd.


Handverkfæri - áhöld (liður 17)

Nauðsynleg handverkfæri sem nota þarf við skoðun ökutækja eins og lýst er í verklagsbókum handbókarinnar. Má nefna nauðsynlegan fjölda fastalykla, hjólatjakk, handljós, spennijárn, spenniverkfæri fyrir ýtihemil, ásamt nauðsynlegum aflestunarklossum. 


Stafræn myndavél (ekki í viðaukanum) - SÉRSTAKAR SKOÐANIR

Stafræn myndavél (t.d. sími) sem hægt er að nota til að taka myndir af ökutækjum að hluta eða í heild, t.d. vegna tjónaendurmats og í skráningarskoðun og samanburðarskoðun (sjá verklagsbækur þessara skoðana). Myndirnar eru svo sendar Samgöngustofu í tengslum við skráningu eða breytingar ökutækis.


Mælitæki fyrir virkni hemla


Hemlaprófari (vökva/vélræn) (liður 4)

Rúlluhemlaprófari (eða plötuhemlaprófari) sem nota má til skoðana á skoðunarskyldum ökutækjum með leyfða heildarþyngd til og með 3.500 kg.

Hann á að uppfylla sömu skilyrði og stór hemlaprófari (sbr. lið 3) en þarf þó ekki að geta mælt, skráð og sýnt hemlakrafta og loftþrýsting í lofthemlakerfi.


Hemlaprófari (loft) (liður 3, auk liða 6 og 7)

Rúlluhemlaprófari sem nota má til skoðana á öllum skoðunarskyldum ökutækjum (óháð heildarþyngd). Hann þarf að geta mælt, sýnt og skráð hemlakrafta og loftþrýsting í lofthemlakerfi í samræmi við viðauka A við ISO 21069-1 (eða jafngilda staðla).

Fylgibúnaður - lofthemlaáhöld (liður 6) til prófunar á lofthemlakerfum, eins og tengi, slöngur og þrýstimælar (til að afla allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að geta reikna hemlunargetu ökutækis út frá mældri hemlun).

Fylgibúnaður - þyngdarmælibúnaður (liður 7) til að meta þyngd ása í tengslum við hemlaprófun lofthemlakerfa (oftast innbyggð vigt í prófara).


Hemlaklukka (liður 5)

Hraðaminnkunarmælir (hemlaklukka) sem sýnir mestu hemlun sem næst á meðan hemlað er. Sé mælingin ekki samfelld (t.d. stafrænn mælir sem tekur staka mælipunkta) verður mælirinn að skrá og geyma mælingar a.m.k. 10 sinnum á sekúndu.


Mælitæki fyrir hávaða- og útblástursmengun


Hávaðamælir (liður 9)

Hljóðstyrksmælir (hávaðamælir) í nákvæmnisflokki Class 2 (hannaður til að standast kröfur í IEC 61672-1). Hann skal hafa mælisvið a.m.k. 40 - 120 dB(A) og geta fest hámarksmæligildi.


Útblástursmengun bensínhreyfils - fjórgasmælir (liður 10)

Útblástursmengunarmælir (fjórgasmælir) fyrir fjórar lofttegundir í samræmi við tilskipun ESB um mælitæki. Lofttegundirnar og lágmarks mælisvið þeirra eru kolmónoxíð (CO 0-5% vol), koltvísýringur (CO2 0-16% vol), súrefni (O2 0-21% vol) og vetniskolefni (HC 0-2.000 ppm vol). Jafnframt reiknar tækið út frá þessum mælistærðum svokallað lambdagildi (λ a.m.k. á bilinu 0,8-1,2) sem er brunanýtni hreyfilsins (staðlaður útreikningur).


Útblástursmengun díselhreyfils - reykþykknimælir (liður 11)

Útblástursmengunarmælir (reykþykknimælir) til að mæla gleypnistuðul (eða svertustuðul, K-gildi) í útblæstri díselhreyfla með nægilegri nákvæmni (lágmarks mælisvið 0-5,50 m-1).


Snúningshraðamælir (liður 18)- KRAFA FRÁ frá 01.07.2024

Þessi krafa gildir frá 01.07.2024: Mælitæki til að meta snúningshraða hreyfils í tengslum við hávaða- og mengunarmælingar, sbr. kröfur um mat á snúningshraða í verklagsbókum handbókarinnar. 


Mælitæki fyrir annað


Ljósaskoðunartæki (liður 12)

Ljósaskoðunartæki með safnlinsu fyrir aðalljósker og þokuljósker sem sýnir ljósgeislann á geislaspjaldi. Auðvelt á að vera að greina útlínur ljósgeislans á geislaspjaldinu í dagsbirtu. 

Á geislaspjaldinu skal vera auðlesinn kvarði (mælilína) sem sýnir vísun ljósgeislans þannig að hægt sé að meta samræmi geislans við kröfur í verklagsbókum handbókarinnar (sbr. reglugerð um gerð og búnað og tilskipun ESB um gerðarviðurkenningu ökutækja). 


Mynsturdýptarmælir (liður 13)

Mælitæki til að mæla mynsturdýpt hjólbarða. Þetta getur verið sérstakt verkfæri til þess arna eða fjölnota mælitæki, s.s. skífmál.


Prófari fyrir raftengi (liður 19)

Prófari fyrir raftengi eftirvagna, bæði 12V (7-póla og 13-póla) og 24V (7-póla og 15-póla) tengi af þeim gerðum sem lýst er í verklagsbókum handbókarinnar.


Handverkfæri - mælar/mátar (liður 17)

Nauðsynleg handverkfæri sem nota þarf við skoðun ökutækja eins og lýst er í verklagsbókum handbókarinnar. Má nefna nauðsynleg mælitæki eins og málband, skífmál, gráðuboga og máta (valkvæðir) til að mæla slit og skemmdir á tengibúnaði eða stýrisliðum.


Gaslekamælar (liður 15) - KRAFA FRÁ frá 01.07.2024

Mælitæki til að greina leka fljótandi jarðolíugass (LPG), þjappaðs jarðgass (CNG) og fljótandi jarðgass (LNG).

Ofangreind krafa gildir frá 01.07.2024. Vinna stendur yfir við að skilgreina kröfur til tækjanna og notkun þeirra við skoðun.


GPS-tæki (ekki í viðaukanum) - VALKVÆTT

Valkvætt er að bjóða upp á staðfestingu á hraðamæli (vegna breytinga á hjólastærð umfram 10%). Til þess þarf GPS tæki sem þarf að uppfylla kröfur um hnetti, aflestur og hraða. Þeim kröfum er lýst í skjali um hraðamæla.


Rafrænn aflestur


OBD aflesari (liður 14)

Tæki til að tengjast ökutækinu með rafrænum hætti, svo sem OBD aflesari (e. on board diagnostic). Tækið á m.a. að geta lesið upplýsingar um útblástursmengun en mögulega sitthvað fleira.

Vinna stendur yfir hjá Samgöngustofu við að skilgreina kröfur til tækisins og notkun þess við skoðun.


Kvörðun búnaðar sem notaður er til mælinga


Ef annað er ekki tilgreint í viðkomandi löggjöf Evrópusambandsins skal tíminn sem líður á milli tveggja kvarðana ekki vera lengri en:

  1. 24 mánuðir varðandi mælingu þyngdar, þrýstings og hljóðstigs,
  2. 24 mánuðir varðandi mælingu krafta, og
  3. 12 mánuðir varðandi mælingu á útblæstri.


Beytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
30.12.2023Gildistöku búnaðarkrafna skv. liðum 8, 15, 16 og 18 skulu vera uppfylltar eigi síðar en 1. júlí 2024 (var 1. janúar 2024).
31.01.2023Gildistöku búnaðarkrafna skv. liðum 8, 16 og 18 skulu vera uppfylltar eigi síðar en 1. janúar 2024 (í textanum var krafa á 8 og 16 en 18  valkvætt). Gildistökuákvæði liðar 14 tekið út (var 01.01.2024), þess í stað tilgreint að verið sé að vinna að innleiðingu.
01.01.2023Nýtt skjal. Efni úr reglugerð um skoðun ökutækja o.fl.



Var efnið hjálplegt? Nei