K7 Hraðamælir

Kröfur og leiðbeiningar um vottun og skoðun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum um hraðamæli, auk leiðbeininga um vottun og skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 7.8Hraðamælir


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
  • GPS-tæki: Vegna staðfestingar á hraðamæli, sjá kröfur til tækisins í skjalinu (valkvætt fyrir skoðunarstofu að stunda þessa starfsemi).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Ferill staðfestingar á hraðamæli


Skoðunarstofur ökutækja mega gefa út staðfestingu á hraðamæli (valkvætt). Ekki þarf að krefjast staðfestingar um réttan hraðamæli vegna bifreiða þar sem breyting hjóla er undir 10%. Þegar breyting hjóla er orðin meiri en 10% skal krefjast staðfestingar um að hraðamælir sé réttur óháð því hvort um breytingaskoðun vegna breyttar bifreiðar er að ræða eða ekki.


Kröfur til GPS tækja

Mælingar eru gerðar með GPS tæki. Kröfur til þeirra eru þessar:

  • Hnettir: Tækið þarf að geta læst á a.m.k. 4 hnetti.
  • Aflestur: Æskilegt að hægt sé að frysta hraðagildi, eða hægt sé að fletta upp í log til að sjá hraða á ákveðnum tímapunkti (og þá þarf að vera auðvelt að skrá hjá sér tímapunktinn).
  • Hraði: Birta hraðagildi á ekki sjaldnar en sekúndu fresti. Ef það er meðaltal yfir tímabil þá má það ekki vera meðaltal yfir lengra tímabil en síðustu 2 sekúndna.


Undirbúningur, aðstæður og vikmörk

  • Úttektaraðili: Starfsmaður skoðunarstofu.
  • Vegur/aðstæður: Vegur sé beinn, því sem næst láréttur, helst fjarri háum húsum, og kaflinn sé það langur að hægt sé að halda umbeðnum hraða í 5-10 sekúndur.
  • Hjólbarðastærð: Hjólbarðastærð er lesin (af hjólbarða, reikna með að allir hjólbarðar séu af sömu stærð) og radíus hjólbarðans mældur (mælt frá jörðu upp í mitt hjólnaf).


Ferill úttektar

  • Akstur og aflestur: Úttektaraðili situr í bíl með ökumanni þannig að hann geti lesið tryggilega af hraðamæli.
  • Mælipunktar: Miðað er við hraða samkvæmt hraðamæli. Misjafnt er hvaða merkingar eru á hraðamælaskífu, en mælt er á hraða sem merktur er á skífuna. Helst á að mæla við 30 km/klst. og 50 km/klst., en ef þeir hraðar eru ekki merktir á skífuna ber að mæla við 40 km/klst. og 60 km/klst.
  • Aflestur: Þegar viðkomandi hraða er náð er honum haldið í um 3-5 sek og þá lesið af GPS-tæki.
  • Leyfileg vikmörk: Hraðamælir má ekki sýna meira en 4% minni hraða og 10% meiri hraða en raunverulegt er skv. GPS-tæki til að hægt sé að staðfesta að hraðamælir sé innan marka.


Útgáfa staðfestingar á hraðamæli

Að lokum er gefin út staðfesting á að hraðamælir sé innan vikmarka á eyðublaði US.139, ef það er raunin (sjá mynd 1). Þar kemur eftirfarandi fram:

  • Staður og dagsetning: Nafn skoðunarstofu, staður og starfsmaður, ásamt dagsetningu úttektar.
  • Ökutæki: Fastnúmer, tegund og undirtegund, og dekkjastærð (bæði lesin og mæld).
  • Hjólbarðastærð: Skráð stærð á hjólbarða og ummál (radíus ×2π).
  • Hraðagildi: Fyrir báða mælipunkta er skráður raunhraði og leyfileg vikmörk.
  • Niðurstaða: Niðurstaða mælingar (innan marka eða ekki).
  • Undirskrift: Undirritun úttektaraðila.

Útgefin staðfesting gildir í 7 daga frá útgáfudegi. Frumrit hennar verður að fylgja skráningargögnum breytingaskoðunarinnar til Samgöngustofu.

K74

Mynd 1. Vottorð US.139 til staðfestingar á hraðamæli.


Mæling á hámarkshraða léttra bifhjóla (VANTAR)


(VANTAR)


Breytingasaga skjals


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 7.4.2.1, 7.4.2.2, 7.4.3.1.



Var efnið hjálplegt? Nei