Breytingar

Breyttar bifreiðir (og torfærubifreiðar)

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á reglum sem gilda um breytingar á bifreiðum (þó sérstaklega torfærubifreiðum).

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.


Veigamiklar breytingar á atriðum bifreiðar


Þegar veigamiklum atriðum bifreiðar, svo sem stýrisbúnaði, hemlabúnaði, aflrás, hjólum, grind og yfirbyggingu, hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda og ekki eru til leiðbeiningar um frá honum, er bifreiðin skráð sem „Breytt bifreið“. Slíkar bifreiðir eru merktar með með áletruninni „Viðvörun! Þetta er breytt bifreið með aðra aksturseiginleika en upphaflega“. Skoða ber öll atriði handbókarinnar í þessum tilvikum.

Algengast er að verið sé að gera bifreið að öflugri torfærubifreið (stærri dekk og hækkun með tilheyrandi áhrifum á drifbúnað, ása og stýrisbúnað) en ekki má gleyma að um annarskonar breytingar getur líka verið að ræða. Almennt má segja að allar gerðarbreytingar, útfærslubreytingar og viðbætur varðandi stýrisbúnað, hemla, fjaðrir og ása, geri bifreið að breyttri bifreið, allar lengdarbreytingar á grind og sjálfberandi yfirbyggingu þannig að breyting verður á hjólhafi, svo og allar styrkleikabreytingar berandi hluta.

Hafi breyting verið gerð á hjólabúnaði og/eða stýrisbúnaði, sem haft getur áhrif á hjólastöðu, skal hjólastöðuvottorð fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.


Reglur um hjólastærðarbreytingar


Heimilar hjólbarðastærðabreytingar

Heimilt er að breyta hjólastærð (þvermáli) um allt að 10% frá upprunalegri stærð framleiðanda án þess að bifreiðin teljist sem breytt bifreið.

Heimilt er að hafa það stóra hjólbarða að þvermál þeirra nái allt að 44% af hjólhafi en að þeim skilyrðum uppfylltum að unnt sé að aka bifreiðinni á öruggan hátt, hemlar nái að stöðva bifreiðina á virkan hátt og fylgt sé reglum um skermun hjóla.


Vottorð um leiðréttingu á hraðamæli

Við breytingu hjólastærðar yfir 10% þarf hraðamælavottorð að fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar. Vottorðið þar að staðfesta að hraðamælir sýni ekki meira en 4% minni hraða og 10% meiri hraða en raunverulegt er.

Þeir sem hafa heimild til að staðfesta þetta samkvæmt verklagi í þessum tilvikum eru skoðunarstofur ökutækja (sjá leiðbeiningar um staðfestingu á hraðamæli) og viðurkenndir prófunaraðilar fyrir ökurita og hraðatakmarkara (sjá lista á heimasíðu Samgöngustofu).


Reglur um hækkun bifreiðar


Heimilar hæðarbreytingar (St3.7.2.4)

Heimil heildarhækkun bifreiðar (með því að auka bil milli yfirbyggingar og ása, þ.e. milli fjaðra og ása og/eða húss og grindar) þannig að bifreið hækki um 50 mm án þess að hún verði breytt bifreið, svo framarlega að breytingin hafi ekki áhrif á halla eða stefnu hjóla eða stýrisvala. Einnig ef samanlögð hækkun vegna þessara aðgerða verður ekki meiri.

Annars er heimilt að heildarhækkun bifreiðar verði allt að 250 mm og má mismunur hækkunar að framan og aftan ekki vera meiri en 50 mm. Að auki gildir að hækkun má ekki vera meiri en 50 mm milli blaðfjaðra og framáss, 100 mm milli annarra fjaðra og framáss, 100 mm milli fjaðra og afturáss, 100 mm milli húss og grindar og 200 mm milli hjólmiðju og grindar. Sjá um einstakar bíltegundir í töflu 1. (St3.7.5.2)


Tafla 1. Listi yfir ýmsar bifreiðir þar sem fram koma mál frá hjólmiðju í fastan punkt á yfirbyggingu á óbreyttum bifreiðum og einnig málin þegar bifreiðin hefur verið hækkuð í mestu hæð sem leyfileg er 250 mm).

 Tegund bifreiðarMælipunktur að framan (óbreytt hæð / mesta hæð)Mælipunktur að aftan (óbreytt hæð / mesta hæð) 
Daihatsu Rocky ELEfri brettakantur 730 mm / 980 mmEfri brún á skúffukanti 860 mm / 1110 mm
Ford Econoline E150Neðri brún í brot á hlið 630 mm / 880 mmNeðri brún í brot á hlið 720 mm / 970 mm
Ford Econoline E250Neðri brún í brot á hlið 680 mm / 930 mmNeðri brún í brot á hlið 750 mm / 1000 mm
Ford Econoline E350Neðri brún í brot á hlið 680 mm / 930 mmNeðri brún í brot á hlið 770 mm / 1020 mm
Ford Econoline E250 nýja gerðinRönd á miðri hlið 755 mm / 1005 mmRönd á miðri hlið 850 mm / 1100 mm
Ford Econoline E350 nýja gerðinRönd á miðri hlið 730 mm / 980 mmRönd á miðri hlið 860 mm / 1110 mm
Ford ExplorerMálb. lagt í kant við vélarhl. m.v. upphafl. brettakant 850 mm / 1100 mm Gúmmíkantur við rúðu 850 mm / 1100 mm
Ford RangerEfri brún á línu eftir endilangri bifreið 680 mm / 930 mmEfri brún á línu eftir endilangri bifreið 750 mm / 1000 mm
Toyota Hilux X-CabBil á milli brettis og vélarhl. 900 mm / 1150 mmEfri brún á skúffukanti 910 mm / 1160 mm
Toyota Double CabEfri brún á frambretti 790 mm / 1040 mmEfri brún á skúffukanti 930 mm / 1180 mm
Suzuki 410Fyrsta brún á yfirbyggingu 580 mm / 830 mmFyrsta brún á yfirbyggingu 640 mm / 890 mm
International Scout IIEfri brún á frambretti 880 mm / 1130 mmBrún við hús 900 mm / 1150 mm


Reglur um breytingar á stýrisbúnaði


Sérsmíðaðir íhlutir ökutækja

Óheimilt er að nota sérsmíða hluti í bifreið (sem hafa aðra eiginleika en upprunalegri hlutir og koma í stað þeirra) nema íhlutirnir hafi staðist úttekt viðurkennds aðila (sem Samgöngustofa viðurkennir). Á þetta við um íhluti sem haft geta áhrif á örugga notkun bifreiðarinnar, svo sem (og ekki einskorðað við) íhluta í stýrisgangi, aflrás, hemlakerfi og fjaðrabúnaði. Skýrsla viðurkennds úttektaraðila um viðkomandi íhlut skal fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.


Breytingar á stýrisbúnaði (St4.3.2.2)

Breyting á stýrisbúnaði telst vera þar sem hlutir sem koma í stað upphaflegra hluta í stýrisgangi hafa verið nýsmíðaðir, beygðir, soðnir eða fjaðrabúnaði breytt þannig að hjólstaða breytist (t.d. breyting á stífum eða festingum). Athugið að óheimilt er að sjóða saman eða beygja togstangir, millibilsstangir og arma í stýrisbúnaði svo og að sjóða í stangir. Leyfilegt er að draga öryggisliði á stýrisleggjum í sundur, en þó ekki meira en svo að neðri plastþétting sé inni í ytra röri, án þess að fá vottorð frá óháðum rannsóknaraðila. Breytingar í stýrisbúnaði sem ekki gera kröfu um vottorð frá óháðum rannsóknaraðila hafa ekki einar og sér í för með sér kröfu um breytingaskoðun.


Stýrisleggir (stýrisöxlar) í breyttum torfærubifreiðum (St4.3.2.1)

Þegar yfirbygging er hækkuð frá grind á viðkomandi bifreiðum þarf að gera ráðstafanir til að mæta aukinni lengd á milli stýrisvélar og hvalbaks. Til þess eru þrjár leiðir:

  • Lengja stýrislegginn með því að bæta bút inn í hann.
  • Setja millistykki á milli hjöruliðar og gúmmíliðar niður við stýrisvél.
  • Draga í sundur öryggislið eða draglið þannig að samlega minnkar.

Tvær fyrst nefndu aðferðirnar teljast breytingar í stýrisbúnaði og skal framkvæma þær í samráði við Samgöngustofu og óháðan rannsóknaraðila. Skal þeim í öllum tilvikum fylgja vottorð frá óháðum rannsóknaraðila skv. lið 05.203 (1) í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

Leyft er að draga öryggisliði í sundur, en þó ekki meira en svo að báðar plastþéttingarnar séu inni í ytra rörinu. Plastþéttingarnar halda liðnum slaglausum og stífum og eru því nauðsynlegar. Ekki er leyfilegt að bora plastið úr götunum og setja splitti eða hnoð í staðinn því það eyðileggur virkni liðsins. Götin eru einungis til þess ætluð að koma plastinu inn í liðinn og hann er því hægt að draga í sundur án þess að átt sé við þau. Yfirleitt er neðri plastþéttingin það stutt frá enda ytra rörsins að engin hætta er á að samlega verði of lítil. Staðsetning þéttingarinnar leyfir almennt frekar lítinn sundurdrátt.

Athugið að sú aðgerð að draga öryggisliðinn á stýrisleggnum í sundur og festa síðan aftur með suðu eða öðrum hætti er ekki leyfileg.


Auka stýrishöggdeyfar og -tjakkar (St4.3.2.3)

Nokkuð er um það á breyttum torfærubifeiðum að settir séu aðrir stýrishöggdeyfar en þeir upphaflegu eða nýjum bætt við, einnig að settir séu stýristjakkar. Höggdeyfarnir eru festir annarsvegar á framásinn og hinsvegar á millibilsstöngina (stundum á togstöngina), en tjakkarnir eru einungis festir á milli framáss og millibilsstangar. Ekki er gerð krafa um vottorð varðandi þessa hluti þar sem þetta er viðbótarbúnaður en kemur ekki beint í staðinn fyrir annan búnað.


Halli á togstöngum (St4.3.2.5)

Í bifreiðum með blaðfjöðrum að framan og þverstæðri togstöng skal stöngin liggja því sem næst lárétt til þess að fjöðrunarhreyfingar bifreiðarinnar hafi sem minnst áhrif á stýrisbúnað.

Þar sem togstöngin liggur samsíða fjöður skal halli hennar vera því sem næst sá sami og sveigja fjaðrarinnar.

Ef um gorma og stífur er að ræða skal togstöngin liggja því sem næst samsíða stífunni.


Smíðaðir stýrisarmar á Dana 60 framása (St4.3.2.6)

Komið hefur í ljós að liðhúsin á Dana 60 þola ekki það álag sem á þau kemur þegar smíðuðum stýrisarmi hefur verið hliðrað upp frá planinu ofan á liðhúsinu. Þessi útfærsla er því ekki leyfð.

Einungis eru leyfðir beinir stýrisarmar sem ekkert hefur verið hliðrað upp frá liðhúsinu. Þá verður að festa í samræmi við kröfur sem gerðar eru til þeirra samkvæmt vottorðum sem óháður aðili gefur út. Allflestir þessara arma eiga að vera með keilulaga götum, kónum sem ganga ofan í þau og pinnboltum og róm sem herða þá niður. Örfá gömul framleiðsluleyfi geta þó verið til þar sem notaðir eru boltar sem eru mjög stífir í götunum. (Komið hafa upp nokkur tilfelli í skoðun þar sem smíðaðir armar hafa verið lausir á liðhúsunum og var ástæðan sú að þeir armar voru festir með venjulegum boltum án kóna eða á annan hátt og ekki í samræmi við vottorðin sem þeim fylgja).

Dana 60 framhásingar er helst að finna undir breyttum Ford Econoline þótt flestir séu með Dana 44. Liðhúsin eru með legum en ekki spindilkúlum.


Vottorð um sérsmíðaða hluti í stýrisgangi (St4.3.5.2)

Skýrsla viðurkennds úttektaraðila um viðkomandi íhlut skal fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar. Eftirfarandi aðilar eru viðurkenndir til útgáfu vottorðs um sérsmíðaða hluti í stýrisgangi:

  • Verkfræðiþjónusta Péturs Sigurðssonar / Pétur Sigurðsson / Funafold 48 / 112 Reykjavík
  • HB Tækniþjónusta / Haraldur Baldursson / Hvammabraut 16 / 220 Hafnarfjörður


Reglur um breytingar á drifbúnaði


Læst drif og soðin mismunadrif í bifreiðum (St7.3.2.1)

Leyfilegt er að hafa soðið framdrif ef driflokur eru á bifreiðinni til að aftengja það. Hins vegar er ekki leyfilegt að vera með soðið mismunadrif að aftan. Gerður er greinarmunur á soðnum mismunadrifum og læstum drifum. Svokallaðar „No-spin” læsingar geta stundum virkað eins og soðin drif, þ.e. þær læsa öxlunum alveg saman. Hins vegar hefur „No-spin” læsingin töluvert fríhlaup og hún læsir við átak frá Pinion en losar læsinguna þegar átakið fer af honum. Svipaða sögu er að segja um snigillæsingar eins og „Torsen” nema að þær læsa ekki eins vel og „No-spin”. Síðan eru til læsingar sem stjórnað er handvirkt innan úr bílnum annað hvort með börkum, lofti eða rafmagni. Er þá gjarnan gaumljós í mælaborðinu sem sýnir hvort læsingin er á eða ekki.

Síðast en ekki síst eru það diskalæsingarnar. Ýmsar mismunandi tegundir eru til en allar vinna þær á svipaðan hátt. Hafa menn gjarnan reynt að gera læsingarnar stífari með því að bæta undir diskana. Hins vegar er hægt að skjóta yfir markið í þeim efnum þannig að læsingin gefur alls ekkert eftir og virkar þá orðið eins og soðið mismunadrif. Slíkar diskalæsingar eru lagðar að jöfnu við soðin drif og því ekki leyfilegar.


Reglur um styrkingu yfirbyggingar (veltigrind)


Styrkur yfirbyggingar breyttrar torfærubifreiðar

Ef yfirbygging er þannig að veltistyrkur bifreiðarinnar telst ekki fullnægjandi (t.d. blæjur, plastskýli) skal bifreiðin búin viðurkenndri veltigrind. Á þetta við um allar breyttar bifreiðir óháð skráningardegi þeirra.


Smíði veltigrindar - hugtök (St3.7.2.3)

  • Veltigrind: Grind gerð úr rörum með festingum, skástífum og/eða tengingum til að varna alvarlegri aflögun farþegarýmis ef bifreiðin veltur.
  • Aðalbogi: Lóðréttur bogi, eða því sem næst, staðsettur aftan við framsæti þvert á lengdarás bifreiðar.
  • Aftaribogi: Bogi eins og aðalbogi staðsettur aftan við aftursæti bifreiðar.
  • Skástífur: Hallandi rör soðið eða fest á annan traustan hátt (t.d. soðnar stýringar og síðan boltað) við aðal- eða aftariboga og liggur samsíða lengdarási bifreiðar niður og festist á sama hátt og þeir. Nauðsynlegar ef bogar eru stakir og ekki stífaðir af á annan hátt með góðum festum í yfirbyggingu bifreiðar.
  • Tengingar: Lárétt rör, fest á svipaðan hátt og skástífur, samsíða lengdarási bifreiðar sem tengja saman aðal- og aftariboga eða lárétt rör þvert á lengdarás bifreiðar sem tengir saman hliðarboga þar sem þeir beygja niður.
  • Festiplötur: Málmplötur festar við rörin í bogum og skástífum og boltast við styrktarplötur eða bita í gólfi.
  • Styrktarplötur: Málmplötur festar við yfirbyggingu og festingar boga og skástífa hvíla á. Ekki nauðsynlegar ef bogi kemur beint á bita.
  • Stífun: Allir bogar þurfa að vera stífaðir af á einhvern hátt; með skástífu, festir á traustan hátt í yfirbyggingu þar sem styrkur er fyrir hendi eða með tengingu í annan boga.


Smíði veltigrindar - lýsing og kröfur (St3.7.2.3)

  • Almennt: Veltigrindin skal þannig gerð og staðsett að hún hindri ekki verulega útsýn úr bifreiðinni, aðgang að farþegarými, dragi verulega úr rými því er ætlað er ökumanni og farþegum og valdi ekki hættu við umferðaróhapp.
  • Lögun: Bogar skulu falla að hliðum bifreiðar og beygjur vera krumpulausar og ósprungnar. Ef nauðsynlegt er að beygja neðri hluta boga skal hann fylgja innri lögun bifreiðar og styrktur ef um miklar beygjur er að ræða.
  • Festingar: Hverja festiplötu skal festa við ökutækið með a.m.k. þremur boltum sem skulu dreifast sem jafnast í plötuna. Boltar skulu vera að lágmarki 10 mm og uppfylla styrk ISO 8.8. Nota má sjálfsplittandi rær eða spenniskífur. Styrktarplötur skulu vera um 3 mm að þykkt og ná út fyrir allar hliðar festiplötu ef því verður við komið. Ef bogar ná ekki niður á gólf heldur setjast á brettaskálar eða slíkt þá er nauðsynlegt að setja festur einnig út í hliðar. Það er þó ekki nauðsynlegt með skástífur.
  • Suður: Suður skulu vera gegnumsoðnar og hafa sem sléttast og samfellt yfirborð. Ef bogar eru samansoðnir skulu þær suður vera soðnar af lærðum járniðnaðarmanni eða manni sem hefur suðupróf og skal eigandi bifreiðar leggja fram staðfestingu þess efnis frá viðkomandi suðumanni.
  • Efniskröfur: Rör skulu vera með lágmarksstyrk samsvarandi stáli St.37. Lágmarksþykkt á rörum er 2 mm. Ef ytra þvermál fer niður fyrir 42 mm skulu þó efnismál ekki vera minni en eftirfarandi (utanmál × þykkt): 42×2,0 mm, 40×2,2 mm, 38×2,5 mm, 36×3,0 mm, 34×3,5 mm, 33,7×4,0 mm, 32×4,5 mm og 30×6,0 mm. Bora skal 4 mm gat framan á boga 20 cm fyrir neðan vinstra horn til að hægt sé að mæla efnisþykkt.

Athugið að allar kröfur sem eru settar hér fram eru lágmarkskröfur. Ekki er gerð krafa um að veltigrindur settar í fyrir 01.07.1990 fylgi nákvæmlega þessum kröfum en meta verður styrkleika þeirra í hverju tilfelli.

Í flestum tilfellum er einungis gerð krafa um einn boga. Undantekning á því getur komið upp ef upphaflegur styrkur yfirbyggingar hefur verið skertur verulega. Þessi bogi skal að jafnaði vera aðalbogi nema styrkur fremri hluta húss sé góður eða innbyggður (upphaflegur) bogi sé til staðar. Í þeim tilfellum skal þessi bogi vera aftaribogi. Í þeim tilfellum þar sem plasthúsum með skráðum farþegum í hefur verið bætt aftan á bifreiðar skal vera aftaribogi. Sjá kröfur til einstakra bíltegunda í töflu 2. (St3.7.5.1)


Tafla 2. Viðmiðunarlisti yfir breyttar bifreiðir sem ber að setja veltigrind í. 

TegundGerð styrkingar
  • Allir bílar með blæju (mælt með að ekki séu notuð efnisminnstu rörin)
  • Ford Bronco (1966-77)
  • Chevrolet Blazer og GMC (-1976)
  • International Scout (aðrir en Traveller m. boga í húsi)
  • Jeep Willy's allir
Aðalbogi
  • International Scout Traveller (m. boga í húsi)
  • Ford Bronco (ekki Bronco II) (1977-)
  • Chevrolet Blazer (ekki Blazer S-10) (1977-)
  • GMC (1977-)
  • Jeppar með plasthúsi fyrir aftan dyr en styrk í fremra húsi eða upphaflegum boga eða bita (t.d. Suzuki, Daihatsu, Toyota)
Aftaribogi
  • Sendibílar (van bílar) sem á hefur verið settur plasttoppur (skorið úr toppnum) og bitar teknir í burtu.
Þurfa að hafa toppinn styrktan til samræmis við það sem áður var


Áhrif breytinga á önnur atriði


Breytingar á ökutæki gætu haft áhrif á aðra hluta ökutækisins þótt engar breytingar hafi verið gerðar á þeim. Einnig gilda sérkröfur um breyttar bifreiðir.

  • Ljósabúnaður: Hafi hæð ökutækis verið breytt verulega frá upprunalegri hæð gilda sérreglur um stillingu aðalljóskera. Einnig gæti þurft að færa til ljósker svo að þau uppfylli skilyrði um fjarlægð frá ystu brún.
  • Árekstrarvörn eða undirvörn: Það gæti þurft að búa bifreiðina árekstrarvörn að framan- og/eða aftanverðu (eða undirvörn ef krafa er um slíkt).
  • Sjúkrakassi og slökkvitæki: Breytt bifreið á að hafa slökkvitæki og sjúkrakassa.
  • Hjólastöðubreytingar: Hafi breyting verið gerð á hjólabúnaði og/eða stýrisbúnaði, sem haft getur áhrif á hjólastöðu, skal hjólastöðuvottorð fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.
  • Öryggisbelti: Þegar bifreið er orðin breytt bifreið skal hún búin öryggisbeltum í framsætum (hafi hún verið undarskilin slíkum kröfum). 
  • Áhrif á burðargetu (St6.6.2.1): Ekki er heimilt að breyta ökutækjaskrá þannig að burðargeta ása og heildarþyngd ökutækja sé lækkuð. Í einstaka tilfellum getur Samgöngustofa þó tekið ákvörðun um lækkun ef til kemur vottorð frá verksmiðju um nýjan burð yfir einstök ökutæki.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 3.7.2.3-4, 3.7.5.1-2, 4.3.2.1-6, 4.3.5.1-2, 6.6.2.1, 7.3.2.1.



Var efnið hjálplegt? Nei