K6 Eldsneytiskerfi

Geymar, lagnir, kerfi

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til eldsneytiskerfa ökutækja, s.s. metan og þrýstigeyma, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um færanlegan þrýstibúnað nr. 218/2013.
  • ESB-reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 661/2009/ESB.
  • UN-ECE reglur um eldvarnir í ökutækjum nr. 34.
  • UN-ECE reglur um gerð CNG íhluta og ísetningu þeirra í ökutæki nr. 110.
  • Staðall ISO 11439 um háþrýstigeyma fyrir geymslu CNG í ökutækjum.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 6.1.3 Eldsneytisgeymar og leiðslur


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
  • Gaslekamælar: Til að greina leka. Gildir frá 01.01.2024.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Þrýstigeymar og lagnir - kröfur


Eldsneytisgeymar og eldsneytisleiðslur skulu vera úr seigu og endingargóðu efni sem stenst tæringu, áhrif hita og kulda og þolir það eldsneyti sem notað er.

Eldsneytisgeymir skal vera úr óeldfimu efni eða uppfylla ákvæði tilskipunar ESB nr. 661/2009/ESB og UN-ECE-reglna nr. 34.

Gasgeymar skulu uppfylla skilyrði reglna og merkinga um þrýstihylki sbr. reglugerð nr. 218/2013.

Metangeymir skal til viðbótar uppfylla skilyrði ECE110 eða ISO11439 og vera þannig merktur.

Við skráningu eða breytingu, og ef ástæða þykir til við almenna skoðun (s.s. vísbendingar um að skipt hafi verið um geymi), er viðurkenningarmerking skoðuð.


Festingar og lega þrýstigeyma


Lega þrýstigeyma

Geymir má ekki vera í vélar- eða fólksrými. Sé geymir í farmrými sem eru sambyggð fólksrými skal nota rafsegultankloka með öndun og helst fyrir neðan þverplan sætissetu.

Geymi skal þannig fyrir komið að sem minnst hætta sé á að hann verði fyrir hnjaski og að titringur eða vindu- og beygjuhreyfingar valdi ekki hættu á sliti eða skemmdum við eðlilega notkun ökutækis.

Sé geymir staðsettur inni í yfirbyggingu (í farmrými) skal honum komið þannig fyrir að hann verði ekki fyrir skemmdum af farangri eða farmi.

Sé geymir í lokuðu rými, hvort sem það er sérstakt lokað rými utan farmrýmis, eða inni í farmrými, skal það vera loftræst. Nægilegt er að hafa loftræstiop (óþvingaða ræstingu) með lágmarksrýmd 500 mm2. Loftræstiop skal vera a.m.k. 250 mm frá útblásturskerfi.

Ef geymir er nær útblásturskerfi en 100 mm skal vera vörn milli hans og útblásturskerfis. Vörnin felst í skilrúmi eða þili.

Ef við verður komið skulu liggjandi geymar, ef þeir eru í farþegahæð, snúa þvert á akstursstefnu (fyrir ofan þverplan setu neðsta sætis). Snúi þeir fram er æskilegt að halla þeim aðeins (þannig að þeir liggi ekki alveg láréttir).

Geymir má ekki skaga út fyrir útlínur ökutækisins.

Geymi ber að snúa þannig að auðvelt sé fyrir eftirlitsaðila að sjá viðurkenningarmerkingar og gildistíma eftir ísetningu.


Festing þrýstigeyma

Festa skal þrýstigeymi við burðarvirki eða berandi hluta ökutækis. Miða skal við að festingarnar þoli að lágmarki tífalda þyngd geymisins eða geymaknippisins í allar áttir (upp, niður, fram, aftur og til hliðar).


Staðsetning áfyllingarops fyrir þrýstigeyma


Áfyllingarop og öndun eldsneytisgeymis má ekki vera í fólks-, farangurs- eða hreyfilrými.

Áfyllingarop má ekki skaga út fyrir útlínur ökutækisins.


Gildistími þrýstigeyma fyrir eldsneyti


Eldsneytisgeymar sem innihalda gas undir þrýstingi hafa ákveðinn gildistíma sem skráður er á tankinn af framleiðanda. Upplýsingarnar eru oft stansaðar í yfirborð geyma eða komið fyrir á spjaldi sem fest er á þá með varanlegum hætti. Upplýsingarnar verður að vera hægt að lesa eftir að geymi hefur verið komið fyrir í ökutæknu (snúa ber geymum þannig að merkingar sjáist).

Gildistíma er hægt að endurnýja með þrýstiprófun og yfirferð viðurkenndra aðila og/eða Vinnueftirlitsins. Í öllum tilvikum verður Vinnueftirlitið að samþykkja verkið og merkja sér framlenginguna.


Viðbótarorkugjafi metan


Viðurkenndir aðilar sem ísetningaraðilar metanbúnaðar

Einstaklingar geta hlotið viðurkenningu Samgöngustofu sem ísetningaraðilar metanbúnaðar. Skilyrði til að hljóta slíka viðurkenningu eru þessi (nánar metið af Samgöngustofu hverju sinni):

  • Að hafa starfsréttindi sem bifvélavirki eða hafa sambærileg réttindi eða nám að baki.
  • Að hafa aflað þekkingar varðandi ísetningu metanbúnaðar, annað hvort hjá framleiðanda búnaðarins eða hjá viðurkenndum skóla eða fræðsluaðila.

Sjá viðurkennda aðila á heimasíðu Samgöngustofu: www.samgongustofa.is, umferð, ökutækjaskrá, verklagsreglur, listar, US.366, ísetningaraðilar metanbúnaðar.


Útgáfa viðurkennds aðila á vottorði um ísetningu metanbúnaðar

Einungis viðurkenndur ísetningaraðili metanbúnaðar má gefa út vottorð um ísetningu metanbúnaðar. Á vottorðinu skal eftirfarandi koma fram (sjá mynd 1):

  • Nafn og númer ísetningaraðila.
  • Fastnúmer og tegund ökutækis.
  • Nafn framleiðanda metanbúnaðar.
  • Staðfesting á að til staðar sé sjálfvirkur loki (v/þrýstingsfalls), einstreymisloki, yfirþrýstingsloki, hitastýrður yfirþrýstingsbúnaður, yfirflæðisloki, þrýstijafnari, og allt ECE110 vottað.
  • Staðfesting á að áfyllingarbúnaður, gasfæðibúnaður (til að fæða sprengirými) og stjórntölva sé ECE110 vottað.
  • Staðfesting á að metanbúnaðurinn sé notaður sem viðbótarorkugjafi.
  • Stærð sérhvers geymis í lítrum og staðfesting á að þeir séu ECE110 eða ISO11439 vottaðir.
  • Staðfesting á að kerfið hafi verið lekaprófað.
  • Dagsetning þegar ísetningu taldist lokið og vottorð gefið út.
  • Undirskrift ísetningaraðila.

Ef einhverjar þessara upplýsinga koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vottorðið ófullnægjandi.


Metanvottord1 Mynd 1. Sýnishorn af metanvottorði.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 2.1.2.1, 2.1.4.1-2, 2.1.5.1. 



Var efnið hjálplegt? Nei