K6 Farmskilrúm

Kröfur og nánari túlkun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum um farmskilrúm í sendi- og vörubifreiðum, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
6.1.1Almennt ástand grindar eða undirvagns og áfasts búnaðar


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Krafa um farmskilrúm


Frá 1. október 1990 er gerð krafa um milliþil á milli farmrýmis og fólksrýmis, svokallað farmskilrúm, í bifreið sem er með sérstöku farmrými til vöruflutninga. Farmskilrúm er veggur eða skilrúm úr traustu efni sem komið er fyrir aftan við sæti og á að verja ökumann og farþega bifreiðar gegn framskriði farms.


Stærð farmskilrúms


Hæð farmskilrúms

Í lokuðu farmrými bifreiðar skal farmskilrúm ná frá gólfi til lofts en í opnu farmrými skal það ná frá gólfi farmrýmis og í a.m.k. 100 cm hæð fyrir ofan setu þess sætis sem hæst stendur í fólksrými.


Breidd farmskilrúms

Um breidd farmskilrúms gildir:

  • Sendibifreið: Skal búin farmskilrúmi sem þekur a.m.k. rými ökumanns. Ef farþegasæti eru fyrir aftan sæti ökumanns skal farmskilrúmið ávallt ná a.m.k. frá vinstri hlið bifreiðar að hægri brún þess aftursætis sem er lengst til hægri í bifreiðinni.
  • Vörubifreið: Skal búin farmskilrúmi sem er í fullri breidd farmrýmis.
  • Hópbifreið: Milli farmrýmis og fólksrýmis hópbifreiðar sem einnig er gerð til vöruflutninga skal vera farmskilrúm sem þekur alla breidd fólksrýmisins.


Nánari útfærsla

Bil milli farmskilrúms og bifreiðar má mest vera 70 mm allan hringinn. Leyfilegt er að hafa opnanlega glugga eða lúgur á veggnum.


Styrkur farmskilrúms


Farmskilrúm á að þola framskrið farms sem svarar til 10 m/s2 hraðaminnkunar bifeiðar. Þetta samsvarar því að þilið þoli að á því liggi þyngd mesta leyfilega farms bifreiðarinnar. Mesta þyngd farms fæst með því að draga 75 kg (vegna ökumanns bifreiðarinnar) frá hlassþyngd bifreiðarinnar. Veggurinn má samanstanda af (a) fínriðnu vírneti í málmramma, (b) málm- eða tréplötu, eða (c) plasti eða öryggisgleri í málmramma.

(a) Farmskilrúm gert úr fínriðnu vírneti í málmramma

Mesta leyfileg möskvastærð er 70x70 mm. Netið þarf að vera heilt, þ.e. ekki samofið (vírnet, hænsnanet, net sem notuð eru í grjótgrindur og önnur álíka net eru ekki samþykkt). Netið þarf að vera tryggilega fest við málmramma og hann þarf að vera það stöðugur að netið svigni ekki verulega við álag.

(b) Farmskilrúm gert úr málm- eða tréplötu

Í minni bílum þurfa þessar málmplötur ekki að vera þykkari en 1-1,5mm ef þær eru stansaðar að einhverju leyti út og beygðar á köntum. Slíkar plötur þola mun meira álag en beinar plötur. Tréplöturnar þurfa að hafa töluvert meiri efnisþykkt.

(c) Farmskilrúm gert úr plasti eða öryggisgleri í málmramma

Til eru mismunandi gerðir af t.d. plexigleri. Fyrir venjulegt plexigler er krafist a.m.k. 8 mm efnisþykktar en fyrir óbrjótanlegt plexigler þá er 4 mm þykkt nægjanleg. Ef einhver lítill hluti þilsins er úr gleri er þess krafist að það sé úr öryggisgleri. Málmrammi þarf að vera utan um plastið eða glerið sem gerir það að verkum að það svigni ekki mikið undir álagi.


Festingar farmskilrúms við bifreiðina


Farmskilrúm þarf að vera tryggilega fest við bifreiðina hvort heldur það er málmramminn eða plöturnar sjálfar. Blanda má saman mismunandi útgáfum t.d. plötu neðantil en plexigleri ofantil. Ef veggurinn er ekki festur í hliðar bifreiðarinnar þá þarf hann að vera festur í traustar stoðir.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kafli 3.6.2.2.



Var efnið hjálplegt? Nei