K6 Gasbúnaður

Gashylki, gaslagnir, gastæki

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til gasbúnaðar í ökutækjum sem telst ekki til drifeldsneytis, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 6.1.3Eldsneytisgeymar og leiðslur


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Gaslekamælar: Mælitæki til að greina leka fljótandi jarðolíugass (LPG), þjappaðs jarðgass (CNG) og fljótandi jarðgass (LNG). Þessi krafa gildir frá 01.01.2024, sjá dæmi um búnað á mynd 1.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.

Gasprofun1

Mynd 1. Dæmi um búnað til að þrýstiprófa LPG gaskerfi.


Uppsetning gashylkja


Fjöldi og staðsetning gastækja

Hámarksþyngd gashylkis er 11 kg.

Gashylki í ökutæki mega ekki vera fleiri en tvö talsins, eitt í notkun og annað til vara.

Gashylki eiga að standa upprétt og svo tryggilega frá þeim gengið að þau færist ekki úr stað.

Gashylki, sem tekur meira en tvö kg af gasi, skal ásamt þrýstiminnkara vera staðsett utan á ökutækinu eða í þéttu einangruðu rými inni í ökutækinu. 

Gashylki sem tekur minna en tvö kg af gasi má koma fyrir inni í ökutæki án þess að það sé í lokuðu rými en sömu reglur gilda um tryggilegan frágang.


Gashylki komið fyrir í rými inni í ökutæki

Gashylki sem komið er fyrir inni í ökutækinu skal hafa í þéttu einangruðu rými. Í rýminu verður að vera op (a.m.k. 100 cm2) á botninum til loftræstingar og má rýmið aðeins vera aðgengilegt að utan.

Rými fyrir gashylki á að vera með læsingu. Þegar gas er notað á rýmið að vera ólæst til þess að hægt sé að skrúfa fyrir gashylkið í skyndingu.


Gashylki komið fyrir að utanverðu

Gashylki sem komið er fyrir að utanverðu skal vera í tryggilegri hæð frá akbraut og hafa læsanlega hlíf sem nær a.m.k. yfir loka og þrýstiminnkara.


Frágangur gaslagna


Gaslögn skal gerð úr kopar, koparblöndu eða stáli og vera fest með fóðruðum festingum á minna en 300 mm millibili. Gasleiðslu í gegnum vegg verður að leggja í hlífðarhulsu.


Uppsetning gastækja og loftræsting


Brennsluloft gastækja, sem eru í stöðugri notkun án eftirlits, skal taka inn í ökutæki í gegn um aðloftsrás. Rásarop á að vera á botni ökutækisins þar sem því verður við komið, annars á hlið. Fráloft frá gastækjum verður að leiða beint út úr ökutækinu um fráloftsrás. Rásarop á að vera í lofti þar sem því verður við komið, annars ofarlega á hliðinni.

Ofna og önnur sambærileg gastæki, sem eru í stöðugri notkun án eftirlits, verður að tengja við lokað loftrásarkerfi.

Gastæki og tilheyrandi fráloftsbúnaður skal valinn og þannig settur upp að ekki stafi af eldhætta. Ef ekki er annað tekið fram í leiðbeiningum skal fylgja eftirfarandi lágmarks málsetningu við uppsetningu: 

  • Fjarlægð frá hitunartæki að brennanlegu efni má ekki vera minni en 100 mm. 
  • Hitunartæki, sem snúa inn í ökutækið, verða að hafa grind eða net til þess að brennanlegir hlutir komist ekki nær hitafletinum en 100 mm.
  • Fráloftsrás verður að vera a.m.k. 75 mm frá brennanlegu efni.
  • Fjarlægð frá brennara í eldavélum að óvörðum vegg úr brennanlegu efni verður að vera a.m.k. 250 mm. 
  • Gaseldavélar í ökutækjum verða að hafa logavara.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 9.7.2.1-3. Aukið og endurbætt.



Var efnið hjálplegt? Nei