K8 Hávaðamengun (ÓÚTG)

Mælingar og viðmiðanir

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum til hljóðmengunar, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 8.1.1Hávaðamengun


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
  • Hávaðamælir: Mælingar á hávaða frá vélknúnum ökutækjum.
  • Snúningshraðamælir (valkvæður): Mat á snúningshraða hreyfils vegna mælinga á hávaðamengun.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Mæling á hljóðstyrk


Mælingar á hljóðstyrk (nálægðarmæliaðferð) (St2.2.3.3). Í vafatilvikum skal mæling á hljóðstyrk framkvæmd eins og hér er lýst.


A. Mælisvæði

Til að draga úr áhrifum umhverfis er nauðsynlegt að mælisvæði sé opið svæði með a.m.k. 3 m til allra átta frá jöðrum ökutækis. Ef á mælisvæðinu er einhvers konar upphækkun, t.d. tröppur, þá verður hún að vera í a.m.k. 1 m fjarlægð frá jaðri ökutækisins. Vegna hættu á truflunum skulu hvorki menn né hlutir vera á mælisvæðinu meðan á mælingu stendur fyrir utan skoðunarmann og umráðamann ökutækisins. Sjá mynd 1.


Havadamaeling1Mynd 1. Mælisvæði og mælistaður.


B. Umhverfishávaði og áhrif vinds

Til þess að mælingar séu marktækar þarf umhverfishávaði (þar með talinn vindur) að vera a.m.k. 10 dB lægri en mæld gildi á hvaða mælistað sem er. Mælingar skulu ekki gerðar í óhagstæðri veðráttu því vindur og þoka getur haft áhrif á mælingar.


C. Undirbúningur mælingar

Staðsetja skal ökutækið í miðju mælisvæðisins í hlutlausum gír og með stöðuhemil á. Ekki má stíga á tengslisfótstig meðan á mælingu stendur. Í þeim tilvikum þar sem bifhjól hefur engan hlutlausan gír skal mæling fara fram með afturhjólið í lausu lofti.

Áður en mæling á sér stað skal þess gætt að vél ökutækisins hafi náð eðlilegum vinnuhita. 

Hljóðnemi er staðsettur þannig að hæð hans frá jörðu skuli í öllu falli vera sú sama og hæð útblástursrörs ökutækisins en þó ekki minni en 0,2 m. Fjarlægð milli hljóðnemans og enda rörsins skal vera 0,5 m og mynda 45 ± 10° horn við lóðrétt plan frá endastefnu útblástursrörsins (sjá mynd 1). Í þeim tilvikum þar sem ökutæki hefur fleiri en eitt útblástursrör sem tengjast í einum hljóðdeyfi með fjarlægð minni en 0,3 m milli röranna skal eingöngu nota einn mælipunkt. Hljóðneminn skal staðsettur við það op sem næst er annarri hvorri hlið ökutækisins, en ef slíkt op er ekki fyrir hendi skal miða við það op sem hæst er yfir jörðu. Hins vegar ef fjarlægðin er meiri en 0,3 m skal taka mælingu á öllum útblástursrörum og hæsta gildi lagt til grundvallar. Í ökutækjum með lóðrétt útblástursrör skal hljóðneminn staðsettur í hæð þess í 0,5 m fjarlægð frá rörinu fjærst ökutækinu.


D. Framkvæmd mælinga

Snúningur vélar ökutækisins við mælingu skal vera 75% af þeim snúningshraða vélar sem framkallar hámarksafköst samkvæmt upplýsingum framleiðanda. Fyrir bifhjól gildir sú regla að mælt skal við helming þess snúnings sem gefur hámarksafköst ef sá snúningur er meiri en 5000 sn/mín, en á sama hátt og fyrir bifreið ef snúningur við hámarksafköst er minni en 5000 sn/mín. Strax eftir að þessum snúningshraða er náð er eldsneytisgjöfinni sleppt snögglega og hæsta gildi mælingar alls ferlisins lagt til grundvallar.

Á hverjum mælistað skal taka a.m.k. þrjú mæligildi hvert á eftir öðru. Mæling er marktæk ef mismunur milli mæligilda er minni en 2 dB. Meðaltal þessara þriggja mæligilda gefur niðurstöðu mælingarinnar.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 2.2.3.3.



Var efnið hjálplegt? Nei