K1 Stöðu-, ýti- og neyðarhemill

Virkni og hemlun stöðu-, ýti- og neyðarhemlakerfa

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum varðandi  stöðu-, ýti- og neyðarhemlakerfi, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
1.1.20Sjálfvirkt neyðarhemlakerfi eftirvagns 
1.1.23Ýtihemill fyrir eftirvagn 
1.3.1Virkni sérstaks neyðarhemils
1.3.2 Geta sérstaks neyðarhemils 
1.4.1Virkni stöðuhemils 
1.4.2 Geta aksturshemils 

Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Hemlaprófari, stór (og fylgibúnaður): Fyrir bifreið og eftirvagn með lofthemlakerfi sem eru minna en 75% hlaðin við prófun.
  • Hemlaprófari, vökva: Fyrir bifreið, eftirvagn og afturdrifsdráttarvél (með annað en lofthemlakerfi).
  • Hemlaklukka: Fyrir ökutæki sem komast ekki (passa ekki) í hemlaprófara eða sýna enga mælingu í hemlaprófara, s.s. aldrifsdráttarvél, bifhjól og minni þríhjóla og fjórhjóla ökutæki, undanþáguökutæki.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Stöðuhemill


Stöðuhemill - skilgreining (St8.4.2.0)

Stöðuhemill: Hemlakerfi sem haldið getur ökutækinu kyrrstæðu í halla þótt ökumaður yfirgefi það.


Varðar stöðuhemil á eftirvögnum (St8.4.2.1)

Í núgildandi reglugerð um gerð og búnað ökutækja er kveðið á um að stöðuhemill skuli vera á skráningarskyldum eftirvagni. Í eldri reglugerð nr. 51/1964 var kveðið á um að „Hemlar skulu geta staðið í hemlunarstöðu, þótt vagn hafi verið leystur úr tengslum við dráttartæki” (36 gr.).

Samkvæmt túlkun er með þessu átt við að eftirvagnar með 1.500 kg heildarþyngd eða meiri skuli skv. þessari eldri reglugerð einnig hafa stöðuhemil.

Hins vegar var ekki byrjað að skrá eftirvagna fyrr en á árunum 1975 eða 1976, þannig að ekki er hægt að gera kröfu um stöðuhemil á eftirvögnum fluttum inn fyrir þann tíma. Því skal miða við að ofangreind krafa um stöðuhemil taki ekki til eftirvagna sem skráðir voru fyrir 1977, þ.e. kröfu um stöðuhemil skal einungis gera fyrir viðeigandi eftirvagna sem hafa verið skráðir 1977 eða síðar.

Stöðuhemill skal virka á hjólhemla á vélrænan hátt. Til upplýsingar fyrir þá vagnaeigendur sem ekki hafa vagna sína í lagi hvað þetta snertir þá er algengasta útfærsla á stöðuhemli sveif með barka eða sambyggðir hemlastrokkar (gormastrokkar). Ef notuð er sveif eða annar handaflsvirkur búnaður skal gæta þess að við 600 N hámarksátak á búnaðinn verður tilskilin lágmarks hemlunargeta að nást. Ef notaðir eru sambyggðir hemlastrokkar skal gæta þess að lofttengingin inn á gormhlutann sé tekin beint út af þrýstiloftsgeyminum eða tilheyrandi tengi á vagnventli.


Varðar stöðuhemil á bifreiðum (St8.4.2.2)

Vegna þeirra bifreiða sem búnar eru stöðuhemli, knúnum með rofa, þá virkar búnaðurinn á sama hátt og þegar bifreiðar eru búnar handfangi. Í báðum tilvikum er um beinan vélrænan búnað að ræða.


Prófun á virkni stöðuhemils - bifreið (St8.4.3.1)

Ekið er á rúllur rúlluhemlaprófara með þann ás sem á að prófa og þegar rúllurnar eru farnar að snúast er tekið í stöðuhemilshandfang eða stigið á stöðuhemilsfótstig til að athuga hvort stöðuhemill virkar á bæði hjól. Ef stöðuhemill nær ekki tilskilinni hemlun eða hann er óvirkur öðru megin skal prófa annað hjólið í einu.

Á hemlaprófara af plötugerð skal ekið á hraðanum 5-8 km/klst og hemlað með stöðuhemli þar til ökutækið stöðvast á plötunum. Hemlun er lesin af skjá.


Prófun á virkni stöðuhemils - eftirvagn (St8.4.3.1)

Eftirvagn sé tengdur við bifreið og standi á jöfnum fleti. Stöðuhemill settur á með einhverri af neðangreindri aðferð eftir því sem við á:

  • Stöðuhemill með sveif/armi (vírar, stangir): Takið í sveif og setið í hemlunarstöðu.
  • Stöðuhemill með snúinni sveif: Snúið sveif þannig að stöðuhemill fari á og fylgist með að armar færist til út við hjól.
  • Stöðuhemill með tvöfalda hemlakúta (gormakúta): Tappið lofti af loftgeymi þannig að loftkútar tæmist og fylgist með að armar færist til út við hjól.
  • Stöðuhemill með sérstökum rofa: Takið í eða ýtið á rofa, eftir því sem við á, sem setur stöðuhemil á og fylgist með að armar færist til út við hjól.

Takið í eftirvagn með því að keyra bifreið áfram og gangið úr skugga um að öll hjól sem tengd eru stöðuhemli, hemli. Vagn taki verulega í öll hjól.

Mæling á hemlun stöðuhemils (St8.4.3.2)

Hemlun er metin á sambærilegan hátt og aksturshemlar.

Á ökutækjum með lofthemlakerfi eru það gormastrokkarnir sem gefa hemlunina. Ef vafi leikur á að hemlun stöðuhemils sé nægjanleg þarf að reikna hana út með því að deila eiginþyngd alls ökutækisins (nema á festivagni þar sem notuð er vigt á ása) upp í hemlunarkrafta stöðuhemils í hemlaprófaranum. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að lesta ökutækið til að fá fram mestu mögulegu hemlunarkrafta stöðuhemils.

Á ökutækjum með vökvahemlum er stöðuhemill venjulega tengdur með beinu átaki, þ.e. vír sem oft leikur í barka. Ef vafi leikur á hemlun ökutækis með stöðuhemli sem verður virkur með börkum eða vírum er notaður átaksmælir á handfangið.


Útiskoðun - prófun á virkni stöðuhemils (St8.4.3.3)

Ekið er með 15-20 km hraða á vegi og stöðuhemill virkjaður þar til hjólin dragast. Hemlaförin eru síðan skoðuð og athugað hvort stöðuhemill virkar á bæði hjól.


Útiskoðun - mæling á hemlun stöðuhemils (St8.4.3.4)

Hemlun mæld með hemlaklukku. Framkvæmdin skal fara fram á láréttum vegi með föstu yfirborði. Festa skal hemlaklukkuna í framrúðu bifreiðarinnar bifreiðarinnar eða leggja hana á gólf bifreiðarinnar og núllstilla hana, síðan skal ekið á 30 km hraða og tekið í stöðuhemilshandfangið þar til bifreiðin stöðvast. Lesið er af hemlaklukkunni.


Ýtihemill fyrir eftirvagn


Ýtihemill - skilgreining

Hemlakerfi fyrir eftirvagn sem verður virkt við skriðþunga eftirvagnsins gagnvart dráttartækinu. Þetta getur verið búnaður í beisli eftirvagns sem gengur saman og virkjar hemla eða rafræn eða vélræn skynjun á hraðaminnkun sem virkjar hemla.


Ýtihemill fyrir eftirvagn - virkni (St8.1.3.18)

Bakklosun er athuguð með því að aka bifreið með eftirvagni afturábak til að ganga úr skugga um að það sé hægt. Ýtihemill er metinn að öllu leyti eins og hemlakerfi yfirleitt. Skoðað er í hemlaprófara hvort hemlunarkraftar séu nægir. Það er gert með sérstöku spenniverkfæri fyrir ýtihemilinn.

  1. Setjið fasta krók verkfærisins á háls dráttarkúlunnar. Haldið verkfærinu lárétt og ýtið því aftur á bak 30° - 45° frá bifreiðinni. Festið keðju í dráttarbeisli hengivagnsins (kerru), annaðhvort með því að krækja beint í beislið eða slá keðjunni utan um heppilegan hluta beislisins og krækja henni saman.
  2. Stillið lengd keðjunnar með því að láta lausa endann „renna” gegnum hólkinn. Kippið laust í skaftið til þess að ganga úr skugga um að hlekkur hafi festst í sporinu.
  3. Haldið tækinu með báðum höndum lárétt og togið (ath. ýtið ekki) að bifreiðinni með hóflegu átaki meðan hjól vagns snúast í hemlaprófaranum. Athugið að ekki má hemla dráttarbifreið við prófunina.
  4. Athugið útslátt á mælitæki. Ef vafi leikur á niðurstöðu er prófað aftur, e.t.v. með lestaðan vagn.

Við athugun á raftengdum hemli verður að láta kvikna hemlaljós á bifreiðinni. Stígið létt á hemlafetil svo að ljósin kvikni án þess að hemlar taki við sér.

Ef tilskilinn hemlunarkraftur (sjá verklagsbók) fæst aðeins þegar mjög miklum/litlum ýtikrafti hefur verið beitt er hemlun ófullnægjandi og skal gera athugasemd við hemlavirknina. Nauðsynlegur ýtikraftur er talinn mjög mikill þegar átak á handfang prófunarverkfærisins er meira en 2,0-2,5% af heildarþyngd eftirvagns. Um eftirvagn sem er 1.000 kg að heildarþyngd væri þannig um að ræða 200-250 N (20-25 kg) átak. Nauðsynlegur ýtikraftur er talinn mjög lítill þegar átak á handfang prófunarverkfærisins er minni en 0,5-1,0% af heildarþyngd eftirvagns. Um eftirvagn sem er 1.000 kg að heildarþyngd væri þannig um að ræða 50-100 N (5-10 kg) átak.


Neyðarhemill


Neyðarhemill - skilgreining (St8.3.2)

Neyðarhemill: Hemlakerfi sem skal geta stöðvað ökutæki innan ákveðinnar vegalengdar ef virkni aksturshemils er skert. Neyðarhemill getur verið sjálfstætt hemlakerfi, sambyggður aksturshemli eða sambyggður stöðuhemli.


Sjálfvirkt hemlakerfi eftirvagns (St8.3.3.1)

Fæðiloft lofthemla er aftengt og reynt að draga vagninn áfram með dráttarbifreiðinni og athugað hvort hemlar vagnsins eru virkir. Á vélrænum neyðarhemli er aðeins athugað ásigkomulag vírs og möguleiki á að hann virki (stýring og annað). Á rafrænum neyðarhemli er raftengi aftengt og reynt að draga vagninn áfram með dráttarbifreiðinni og athugað hvort hemlar vagnsins eru virkir.

Allir vagnar eiga að vera búnir hemlum sem hemla sjálfkrafa ef vagninn dettur aftanúr - þó mega hengivagnar undir 1.500 kg að leyfðri heildarþyngd nota trausta öryggistengingu (keðju) í stað neyðarhemils (tengingin á að koma í veg fyrir að beislið nemi við jörð ef tenging milli ökutækjanna rofnar). 

Fyrir rafmagnshemla getur þetta líka verið einhverskonar skynjun, t.d. vír sem fer úr sambandi og þá virkjast rafmagnshemlarnir, eða vélrænn búnaður sem virkjast þegar herðist á einhverjum vír, t.d. stöðuhemilsvír. Ef neyðarhemillinn er rafmagnshemill þá verður rafmagnið að koma frá rafgeymi í vagninum sjálfum. Rafmagn geymisins á að duga til að halda 20% hemlun á vagninum í a.m.k. 15 mínútur eftir að hann dettur aftanúr (evrópsk krafa, ekki prófað í skoðun). 

Við skoðun þessa búnaðar er athugað hvort neyðarhemillinn virkar með því að toga/virkja viðeigandi víra/lagnir sem liggja milli bifreiðar og vagns og eiga að virkja hemilinn ef vagninn slitnar frá. Vír sem virkjar neyðarhemil skal einnig skoða með tilliti til skemmda á vír eða kápu og dæma skal á ryðskemmdir og aðrar skemmdir sem hafa áhrif á hemlun.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 8.1.3.18, 8.3.3.1, 8.4.2.1-2, 8.4.3.1-4.


Var efnið hjálplegt? Nei