K4 Ljós ökutækja og glit I

Ljósker, lýsing, glitaugu, glitmerki

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum til ljóskera, glitauga og glitmerkinga, ásamt leiðbeiningum við skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
4.1.1, 4.1.2, 4.1.3, 4.1.4Aðalljósker: Ljósker og lýsing / Stilling / Tenging / Röng gerð
4.2.1, 4.2.2, 4.2.3Stöðu-, hliðar-, breiddar- og dagljósker: Ljósker og lýsing / Tenging / Röng gerð
4.3.1, 4.3.2, 4.3.3Hemlaljósker: Ljósker og lýsing / Tenging / Röng gerð
4.4.1, 4.4.2, 4.4.3Stefnu- og hættuljósker: Ljósker og lýsing / Tenging / Röng gerð
4.5.1, 4.5.2, 4.5.3, 4.5.4Þokuljósker: Ljósker og lýsing / Stilling / Tenging / Röng gerð
4.6.1, 4.6.2, 4.6.3Bakkljósker: Ljósker og lýsing / Röng gerð / Tenging
4.7.1, 4.7.2Númersljósker: Ljósker og lýsing / Röng gerð
4.8.1, 4.8.2Glitaugu og glitmerkingar: Ástand / Röng gerð
4.12Ástand og virkni annarra ljóskera og glitaugna


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri: Ýmsar lengdarmælingar (málband, skífmál o.þ.h.).
  • Ljósaskoðunartæki: Fyrir bifreiðir, bifhjól og dráttarvélar.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Aðalljós - mæling á stillingu


Ökutækjaflokkar

Mæling á stillingu ljósa á við um eftirfarandi ökutækjaflokka:


Undirbúningur mælingar

Athugað hvort los er að finna í ljóskeri. Hreyfill ætti að vera í hægagangi og allar dyr lokaðar. Ökumaður má sitja í bifreið.


Evrópsk aðalljósker - mæld við lágan geisla

Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir lágljós tendruð.

Stilling skal að öllu jöfnu vera í samræmi við stilligildi framleiðanda (oft merkt með miða í vélarrúmi). Ef slíkar merkingar eru ekki til staðar eða hæð bifreiðarinnar hefur verið breytt þarf að taka tillit til efri og neðri marka ljósgeisla.

Mæling (óháð ljósaskoðunartæki) er gerð þannig:

  • Efri mörk: Lágljósgeisli skal ekki lýsa lengra en 80 m fram á akbrautina og ekki hafa minni niðurvísun en 1%. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það og má geislinn ekki lýsa ofan við hana. Ef hæð ljóskers (ljósmiðju) er meiri en 80 cm verður niðurvísunin að vera meiri (80 m og 80 cm þýðir 80/80=1% niðurvísun, 80 m og 90 cm hæð þýðir 90/80=1,1% o.s.frv.).
  • Neðri mörk: Lágljósgeisli skal lýsa að lágmarki 40 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 40 m = niðurvísun í %) og þá má ljósgeislinn ekki lýsa fyrir neðan hana.


Sérstök háljósker / amerísk aðalljósker - mæld við háljósgeisla

Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir háljós tendruð.

Háljósgeisli skal lýsa veginn a.m.k. 100 m fram fyrir ökutækið og ekki hærra en beint fram (lárétt).

Mæling (óháð ljósaskoðunartæki) er gerð þannig:

  • Efri mörk: Miðja háljósgeisla skal ekki lýsa ofar en beint fram. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (á enga niðurvísun) og má miðja geislans ekki lýsa ofan við hana.
  • Neðri mörk: Miðja háljósgeisla skal lýsa að lágmarki 100 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 100 m = niðurvísun í %) og þá má miðja ljósgeislans ekki lýsa fyrir neðan hana.


Hliðarstefna geislans

Hliðarstefna athuguð á spjaldi ljósaskoðunartækisins um leið og athugun á stillingu fer fram. Evrópskur lágljósgeisli skal fylgja viðmiðunarlínum á spjaldinu og miðja háljósgeisla skal lýsa á mitt spjaldið.


Lögun geislans

Skoðun með ljósaskoðunartækjum. Ljósaskoðunartækið er sett upp að ljóskerum ökutækisins. Athugað hvort evrópskur lágljósgeisli sé eðlilega lagaður og háljósgeisli myndi hringlaga geisla sem er þéttastur í miðjunni.


Ljós og glit


Upplýsingar um ljós, glitaugu og glitmerkingar er að finna í sérstöku pdf-skjali, sjá Ljós ökutækja og glit II (áskilin og leyfð) á forsíðu skoðunarhandbókar.

Í skjalinu eru teknar saman gildandi kröfur um áskilinn og leyfðan ljósabúnað og kemur skjalið í staðinn fyrir annan texta hér þessum kafla skjalsins. Skjalið tók formlega gildi 1. mars 2024.

Vakin er athygli á því að í skjalinu sjást bæði ljósker og glitmerkingar sem ekki hafa verið tilgreind í reglugerð um gerð og búnað ökutækja áður og nöfnum einhverra hefur verið breytt. Upplýsingar í skjalinu eru í samræmi við gildandi Evrópureglur en einhvers ósamræmis hefur gætt milli þeirra reglna og reglugerðar um gerð og búnað ökutækja síðustu ár. Af þeim sökum skulu skoðunarstofur ekki gera athugasemd á vottorð við fyrirkomulag eða notkun (nú) óheimils ljósabúnaðar (ljóskera, glitaugna eða glitmerkinga) á atvinnubifreiðum, sem vafi hefur leikið á heimildum fyrir til þessa, fyrr en eftir 01.01.2025. Áríðandi er þó að eigendum (umráðendum) sé bent á ósamræmið og þeir hvattir til að bæta úr fyrir lok árs 2024.


Bannákvæði


Litur og litun ljósflata

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja eru settar fram kröfur um lit ljósa. Það túlkast þannig að viðkomandi litur skuli vera á ljósinu þegar það logar, ekki endilega á ljósfletinum (glerinu) þegar slökkt er á ljósinu. Síðustu ár hefur það færst í vöxt að ljósflötur hefur annan lit en hið lýsandi ljós (þannig útbúið af framleiðendum ökutækja). Sem dæmi má nefna gler stefnuljósa, sem gjarnan eru nú hvítmött eða rauðmött, en ljósið er gult vegna þess að undir er gul himna (sem sést ekki í gegnum matta glerið) eða gul pera er í ljóskerinu (sem sést ekki heldur). Slíkur frágangur framleiðenda túlkast í lagi.


Óheimilt að hylja ljós

Óheimilt er að hylja ljós þannig að ljósstyrkur skerðist, þó má grjótgrind skerða ljósstyrk óverulega samkvæmt reglugerð. Að öðru leyti er óheimilt að hylja ljós, svo sem með litun ljósflata eða með lituðum hlífum. Hið sama á við um glitaugu.


Óleyfilegur ljósabúnaður og glit

Í reglugerð um gerð og búnað segir að óheimilt sé að nota önnur ljósker eða glitaugu en þau sem boðin eru eða heimiluð í henni eða öðrum reglum sem ráðuneytið setur. Undantekning er þó á að ökutæki framleidd fyrir Norður Ameríku markað ásamt ökutæki sem er breytt úr öðrum notkunarflokki í húsbifreiðar mega hafa aðgreiningarljós.

Sem dæmi um ljósabúnað sem ekki er heimilaður skv. reglugerð er stigbrettaljós (sílsaljós) sem ekki uppfylla ákvæði um hliðarljós, aðgreiningarljós á fólksbifreiðum (á þó ekki við um ökutæki frá norður Ameríku og einungis heimiluð á aðrar bifreiðir en fólksbifreiðir) og breiddarljós á bifreiðum sem ná ekki breidd yfir 1,80 metra.

Benda skal eigendum bifreiðanna og bifhjólanna á að þennan ljósabúnað á að fjarlægja, ekki nægir að aftengja hann því allur ljósa og merkjabúnaður sem er til staðar í ökutækjum á að vera í lagi og virkni fullnægjandi.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.03.2024Skjal um ljósabúnað (Ljós og glit II - áskilin og leyfð) tekur gildi, texti uppfærður miðað við það (ekki lengur drög). Um leið tekinn út sá texti sem áður hafði verið hér að finna um sama efni og er nú kominn í nýja skjalið.
01.02.2024Nýtt pdf-skjal um ljósabúnað (Ljós og glit II - áskilin og leyfð) gefið út í drögum (dags 01.02.2024). Verður svo gefið út í fyrstu útgáfu 01.03.2024 með þeim lagfæringum og leiðréttingum sem koma fram í febrúar (og kemur þá í stað texta þessa skjals hér sem fjallar um sama efni). Í skjalinu eru upplýsingar um ljós og glit sem ekki hafa verið í íslenskri reglugerð áður, auk nokkurra nafnabreytinga. Eitthvert ósamræmi hefur verið milli Evrópureglna og reglugerðar um gerð og búnað ökutækja síðustu ár, því skulu skoðunarstofur ekki gera athugasemd á vottorð við fyrirkomulag eða notkun (nú) óheimils ljósabúnaðar (ljóskera, glitaugna eða glitmerkinga) á atvinnubifreiðum, sem vafi hefur leikið á heimildum fyrir til þessa, fyrr en eftir 01.01.2025. Áríðandi er þó að eigendum (umráðendum) sé bent á ósamræmið og þeir hvattir til að bæta úr fyrir lok ársins. 
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 1.4.2.1-2, 1.4.3.1-4, 1.5.2.1-2, 1.6.2.1. Uppfært.



Var efnið hjálplegt? Nei