K2 Stýrisbúnaður

Stýrisvél, aflstýri, stýrisendar o.fl.

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum til stýrisbúnaðar, ásamt leiðbeiningum við skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
2.1.1 Ástand stýrisvélar
2.1.2 Festing stýrisvélar
2.1.3 Ástand stýrisliða (stýrisenda, -arma og -stanga)
2.1.4 Beygjuhreyfing og stýrisstopp
2.1.5 Aflstýrisbúnaður


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
  • Handverkfæri - mátar: Spindilmáti MB 201 589102300.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Almenn atriði og varúð


Varúð - hætta á skemmdum

Til þess að forðast skemmdir við skoðun á stýrisbúnaði skal fara varlega þegar notað er spennijárn. Sérstaklega verður að gæta að því að skemma ekki hlífðargúmmí. Hætta er á að framlengingarverkfæri gleymist í tjakk lyftunnar þegar slakað er og gætu þau valdið miklum skemmdum á undirvagni bifreiðar þegar ekið er af lyftunni. Því er mjög mikilvægt að ýta tjakknum inn undir bifreiðina til að athuga hvort hann er laus frá bifreiðinni. Ekki skal nota eingöngu fellistykki tjakksins ef hætta er á að bifreiðin skriki á því eða of mikið átak lendi á einum stað.


Spindlar og stýrisendar við aflestun og aksturslegu

Við skoðun á stýrisbúnaði er æskilegt að hjól séu í aksturslegu, þ.e.a.s. í sömu legu miðað við undirvagn og í venjulegum akstri. Það er þó ekki alltaf gerlegt að ná hjólum samtímis í aksturslegu og létta af þeim álagi. Hér skiptir meira máli að ná þeim álagslausum. Aksturslegan skiptir oftast meira máli við athugun á stýrisendum en við athugun á spindlum.


Stýrisliðir - stýrisendar


Skoðun á splittun

Skoðun fer fram á lyftu eða í gryfju.


Skoðun á festingum og slagi

Á bifreiðum minni en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd fer athugun á festingum og mat á slagi fram á skakara með því að beita tog- og þrýstikröftum á stýrisenda. Einnig er togað í stýrisenda fram og til baka með því að taka á hjólum þegar þau eru á lofti. Ef líkur eru á slagi utan leyfilegra marka skal það mælt. Einnig er athugað hvort lega kúlu bendi til þess að stýrisendi sé að fara úr sambandi. Ef líkur eru á endaslagi er stýrisendi klemmdur saman með með stýrisendatöng. Skemmd á hlífðargúmmíi er metin með sjónskoðun.

Ökutæki sem eru meira en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd eru látin vera í akstursstöðu og slag í stýrisendum athugað þegar stýrishjóli er snúið til hvorrar handar. Endaslag er athugað með því að taka á liðum með stýrisendatöng.


Stýrisliðir - stýrisupphengja


Mat á slagi

Við mat á slagi í stýrisupphengju bifreiða undir 3500 kg af leyfðri heildarþyngd er notaður skakari. Að öðrum kosti er slagið athugað um leið og tekið er á hjólum og þau færð á milli stýrisstoppa. Athugun fer fram með hjól í akstursstöðu. Ef líkur eru á slagi utan leyfilegra marka skal það mælt.


Stýrisliðir - stýrisvél og aflstýri


Hlaup eða slag í stýrisvél

Í vafatilvikum er hlaup eða slag í stýrisvél metið með gráðuboga I. Athugun fer fram með hjól í beinni stöðu. Stýrishjól er snúið fram og tilbaka til að finna slag í stýrisvél. Bifreið skal vera í gangi við þessa skoðun.


Hrjúfleiki eða skemmd í stýrisvél

Framhjól bifreiðarinnar lyft upp með tjakki. Hjólum er snúið milli fulls stýrisútslags og skemmdir fundnar með höndum eða hlustað eftir hnökri. Í vafatilvikum er stýrishjóli einnig snúið.


Los eða slit í festingum stýrisvélar

Ef grunur leikur á losi er athugað hvort færsla verður á stýrisvél þegar stýrið er hreyft fram og til baka.


Virkni aflstýris

Hreyfill er hafður í gangi þegar hlaup, festur og virkni eru athuguð. Athuga þarf sérstaklega festingar á stýristjakk og ef líkur eru á að hann sé laus þarf að fylgjast með hvort festur hreyfist þegar stýri er snúið. Athugað er hvort stýri leitar til hliðar þegar bifreið er ekið. Ef líkur eru á að stýri sé þungt er stýriskraftur metinn við akstur bifreiðar inn í hring með 12.5 m radíus.


Skemmdir í vökvaleiðslum aflstýris

Tekið er á leiðslum ef líkur eru á að þær séu skemmdar.


Skemmdir á hlífðargúmmíi tannstangarstýris

Tekið er á gúmmíi ef líkur eru á skemmdum.


Viðtengt orkuforðabúr

Ganga skal úr skugga um að orkuforðabúr sé fullhlaðið. Stöðvið hreyfil bifreiðarinnar, snúið stýrishjólinu þannig að hjól bifreiðarinnar fari til beggja hliða í fullt stýrisútslag og aftur í beina stefnu. Hjól skulu vera á jörðu þegar stýrishjólinu er snúið.


Upplýsingar um leyfilegt slag í stýrisendum


Ekkert slag er leyfilegt nema fyrir liggi upplýsingar frá framleiðanda um leyfileg mörk, sjá töflu 1.


Tafla 1. Upplýsingar um leyfilegt slag í stýrisendum. (St4.1.5.1)

Gerð bifreiðar Lengdarslag (endaslag) Þverslag

Audi A8, VW Passat 1997-

2 mm í legg

 Audi A4, A6 1998-   (ekki í kúlunni sjálfri)
Citroen 2,5 mm 0 mm
(nýir ca 1,8 mm við 200 N átak)
Mercedes Benz vöru- og hópbifreiðir 2 mm 0 mm
Hyundai H100 1,5 mm 0 mm
MAN 2 mm 0,25 mm
MMC L200 97> 1,5 mm 0 mm
MMC Pajero, L200, L300 1,5 mm 0 mm
MMC Space Runner 1,5 mm 0 mm
MMC Space Wagon 1,5 mm 0 mm
Peugeot 2,5 mm
Saab 900/9000 2 mm 1 mm
Scania 2 mm 0 mm
Volvo vörubifreiðir 2 mm 0 mm
Toyota Hilux Stillanlegir stýrisendar eru stilltir með því að snúa ró 1 og 1/3 úr hring til baka en gormur heldur á móti. Því getur verið um nokkurt slag að ræða þó ekki sé slit í liðnum.


Upplýsingar um leyfilegt slag í stýrisupphengjum


Ekkert slag er leyfilegt nema fyrir liggi upplýsingar frá framleiðanda um leyfileg mörk, sjá töflu 2.


Tafla 2. Upplýsingar um leyfilegt slag í stýrisupphengjum. (St4.1.5.4)

Gerð bifreiðar Leyfilegt slag
Blazer 6 mm færsla upp og niður miðað við 110 N átak á arm

Upplýsingar um leyfilegt slag í stýrisvélum


Slag í festingum stýrisvéla í Toyota LandCruiser (St4.2.5.1)

Þessar upplýsingar eiga við um Toyota LandCruiser 90.

Til að finna slag í fóðringu í hægri festingu sem er baula með fóðringu utan um stýrisvél, tekið er á stýrisvél hægra megin upp og niður með höndum, dæmt ef los er meira en 3 mm.

Slag í festiboltum vinstra megin dæmt er ef slag er meira en 8 mm, mælt á skakara.



Slag í stýrisvél Mercedes Benz (St4.2.5.2)

Þessar upplýsingar eiga við um Mercedes Benz 168, 203, 209, 210, 211, 215, 220, 230 og 414.

Eftirfarandi atriði þarf að hafa í huga þegar slag í tannstangarstýrisvél upptaldra gerða er athugað:

  • Hreyfillinn þarf að vera í gangi.
  • Hjólin þurfa að snúa beint fram.

Þessi atriði gilda einnig þegar slag í innri stýrisenda er kannað.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 4.1.3.1-2, 4.1.3.5-6, 4.2.3.1-7, 4.1.5.1, 4.1.5.4, 4.2.5.1-2.



Var efnið hjálplegt? Nei