K6 Undirvörn

Kröfur og leiðbeiningar um skoðun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til undirvarnar og árekstrarvarnar, auk leiðbeininga um úttekt og skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 6.1.4Undirvörn


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
  • Handverkfæri - mátar: Spindilmáti MB 201 589102300.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Undirvörn - skilgreining


Undirvörn flötur á ökutæki eða sérstakir bitar sem koma eiga í veg fyrir, eins og unnt er, að ekið verði inn undir ökutæki. Ekki er krafist sérstakra bita ef grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er þannig hannaður að hann nálgast að veita sömu vörn og þeir. Sé ökutækið ekki að uppfylla kröfur til slíkra flata, eða hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu, þarf að koma fyrir samþykktum bitum til að uppfylla kröfuna. 

Orðið undirvörn er samheiti yfir fjórar mismunandi staðsetningar varna á ökutækjum:

  • Afturvörn: Þverbiti eða flötur aftan á ökutæki sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að ekið verði aftan frá inn undir ökutæki.
  • Árekstrarvörn: Þverbiti sem minnkar hættu á að ekið verði framan eða aftan frá inn undir breytta bifreið.
  • Hliðarvörn: Stangir eða flötur á hlið ökutækis sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að óvarðir vegfarendur lendi undir ökutæki framan við afturhjól þess.
  • Framvörn: Þverbiti eða flötur framan á ökutæki sem á að koma eins og unnt er í veg fyrir að ekið verði inn undir ökutæki að framan.


Eins og áður segir er í tilteknum ökutækjum krafist sérstakrar undirvarnar ef grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er EKKI þannig hannaður að hann nálgist að veita sömu vörn og krafist er. Skilyrði um staðsetningu undirvarna eru tiltekin í næstu köflum og séu þau ekki uppfyllt þurfa tiltekin ökutæki að vera búin viðeigandi undirvörn.


Undirvörn - mælingaraðferðir


Við mælingar á hæð undirvarna frá akbraut er gengið út frá því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

  • Mælt er frá akbraut að neðri brún undirvarnar.
  • Miðað er við að ökutækið sé óhlaðið.
  • Miðað er við að ökutæki með lyftiási sé með ásinn niðri.
  • Miðað er við að ökutæki með með stillanlega aksturshæð sé rétt stillt, sjá kafla um aksturshæð hér neðst.

Við mælingar á fjarlægð undirvarna innundir ökutæki eru eftirfarandi mæliaðferðir notaðar:

  • Mælt er frá fremstu/öftustu brún ökutækis inn að fremstu/öftustu brún framvarnar, afturvarnar eða árekstrarvarnar. Við mælingu frá öftustu brún er ekki talinn með varahjólbarði eða annar aukabúnaður sem nær aðeins yfir hluta af breidd ökutækis. Kant eða brún sem er í meiri hæð en 3 metrar skal heldur ekki telja með.
  • Mælt er frá ystu brún ökutækis og inn að ystu brún hliðarvarnar. Við mælingu frá ystu brún ökutækis eru ekki taldir með útstandandi hlutir eins og speglar eða ljós.

Á ökutækjum með stillanlega aksturshæð, t.d. á ökutækjum með loftpúðafjöðrun, skal aksturshæð vera skilgreind sem 1/3 af fjöðrunarsviðinu, þ.e. fjöðrunarbúnaður undir ökutækinu skal vera útdregin um 1/3 af fjöðrunarsviðinu. Aksturshæðin skal fundin á eftirfarandi hátt:

  • Hámarkshæð er fundin með því að dæla hámarksþrýstingi í loftpúðana og mæla fjarlægð frá jörðu í fastan punkt á yfirbyggingu.
  • Lágmarkshæð skal fundin með því að hleypa öllu lofti úr loftpúðunum og mæla fjarlægð frá jörðu í sama fasta punkt á yfirbyggingu.
  • Dæla skal svo í loftpúðana þannig að fjarlægð í fasta punktinn á yfirbyggingu frá jörðu sé þriðjungur af hæðstu og lægstu stöðu.


Undirvörn af gerðinni afturvörn


Afturvörn þarf að uppfylla neðangreind skilyrði:

  • Hæð frá akbraut: Má hvergi vera meira en 550 mm. 
  • Innundir: Má mest vera 400 mm (þó allt að 550 mm fyrir ökutæki skráð fyrir 01.07.90 en ekki meira en þörf krefur).
  • Breidd - ef afturás er breiðari en yfirbygging: Vörnin skal hvergi vera breiðari en afturás mælt á ystu brúnir hjólbarða í hjólmiðjuhæð og ekki meira en 100 mm styttri hvorum megin. Séu afturásar fleiri en
    einn skal miða við þann breiðasta.
  • Breidd - ef yfirbygging er breiðari en afturás: Endi varnarinnar skal vera 100 til 200 mm innan við ystu brún ökutækisins. Komi aðrir fastir hlutir á ökutækinu í stað varnarinnar að nokkru eða öllu leyti gilda áfram tilgreind mál um afturvörn.
  • Útfærsla: Hæð afturvarnar (bita/flatar) skal að lágmarki vera 100 mm. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali). Athuga að gerð er krafa um undirvörn og árekstrarvörn á milli hjóla ökutækja þótt hjólin sjálf séu það aftarlega að þau uppfylli kröfur um staðsetningu undirvarnar (má ekki vera gat á milli hjólanna).

Afturvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

  • Fólksbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skal búin afturvörn.
  • Hópbifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd skal búin afturvörn.
  • Vörubifreið skal búin afturvörn. Ef bifreiðin er búin lyftanlegum palli skal vörnin þannig gerð að sem minnst hætta sé á að laus efni sitji á henni.
  • Eftirvagn III og IV skal búinn afturvörn.


Undirvörn af gerðinni árekstrarvörn


Árekstrarvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Hæð frá akbraut: Má mest vera 800 mm.
  • Innundir: Má mest vera 400 mm.
  • Breidd: Breidd árekstrarvarnar skal vera a.m.k. jöfn breidd utanverðrar grindar eða sambærilegs burðarvirkis bifreiðar.
  • Útfærsla: Hæð árekstrarvarnar (bita/flatar) skal að lágmarki vera 80 mm. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).

Árekstrarvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

  • Breytt torfærubifreið skal búin árekstrarvörn að framan- og aftanverðu. Ekki er þó krafist árekstrarvarnar að aftanverðu á breyttri bifreið sem skal búin afturvörn.


Undirvörn af gerðinni hliðarvörn


Hliðarvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Hæð frá akbraut: Má mest vera 550 mm.
  • Innundir: Hún má ekki auka breidd ökutækis. Má ekki vera innar en 120 mm frá ystu brún ökutækis. Öftustu 250 mm varnarinnar mega ekki vera meira en 30 mm innan við ystu brún afturhjóla. 
  • Breidd (fram/aftur): Ef frambrún hliðarvarnar er ekki beint aftan við aðra fasta hluti ökutækis skal hún gerð úr samfelldum lóðréttum hluta sem er jafn langur hæð varnarinnar. Þessi hluti skal sveigja 100 mm inn á við a.m.k. 50 mm frá frambrún varnarinnar. Á vörubifreið II og eftirvagni II sem er meira en 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd skal hlutinn þó sveigja inn á við a.m.k 100 mm frá frambrún varnarinnar. Afturbrún varnarinnar má ekki vera framar en 300 mm framan við afturhjól.
  • Útfærsla: Hæð hliðarvarnar (stanga/bita/flatar) að lágmarki 100 mm (þó að lágmarki 50 mm háar á vörubifreið I og eftirvagni II sem er 10.000 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd). Bil milli efri brúnar hliðarvarnar og yfirbyggingar þar fyrir ofan má mest vera 350 mm og ef engin yfirbygging er ofan við vörnina skal efri brún vera a.m.k. 950 mm yfir akbraut (raða má saman stöngum með 300 mm lóðréttu hámarks millibili til að uppfylla þetta skilyrði). Efri brún varnarinnar þarf ekki að vera hærri en pallgólf. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).

Hliðarvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

  • Vörubifreið skal búin hliðarvörn. Auk grunnkrafna skal frambrún varnarinnar vera að hámarki 300 mm aftan við framhjólið eða sveigja að ökumannshúsi undir horni sem má mest vera 45°.
  • Eftirvagn III og IV skal búin hliðarvörn. Auk grunnkrafna má frambrún hennar ekki vera aftar en sem nemur:
    • 250 mm aftar en framhlið yfirbyggingar á hengivagni.
    • 500 mm aftan við framhjól á tengivagni.
    • 2.700 mm aftan við tengipinna festivagns, en þó ekki lengra en 250 mm aftan við þverplan miðra stoðfóta (ath. ef slíkur vagn er lengjanlegur skulu ákvæði um staðsetningu fram- eða afturbrúnar vera uppfyllt í fullri lengd vagnsins).


Undirvörn af gerðinni framvörn


Framvörn þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Hæð frá akbraut: Mest 445 mm fyrir vörubifreið sem er meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd og 400 mm fyrir vörubifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.
  • Innundir: Ekki tilgreint.
  • Breidd: Má ekki vera breiðari en hjólhlífar framhjóla og ekki mjórri en 100 mm hvorum megin en gangbretti við ökumannshús eða 100 mm mjórri hvorum megin en ytri brún hjólbarða.
  • Útfærsla: Hæð framvarnar (bita/flatar) að lágmarki 100 mm fyrir vörubifreið I og 120 mm fyrir vörubifreið II. Skal uppfylla kröfur um styrk og festur (sjá nánari lýsingu í þessu skjali).

Framvörn er áskilin fyrir eftirtalin ökutæki:

  • Vörubifreið skal búin framvörn. Hæð framvarnar frá akbraut má ekki vera meiri en 445 mm fyrir vörubifreið sem er meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd og 400 mm fyrir vörubifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.


Undirvörn - undanþágur


Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um afturvörn:

  • Bifreið sem skráð er til neyðaraksturs.
  • Vörubifreið sem ætluð er til að draga festivagn.
  • Ökutæki sem verið er að flytja til umboðsaðila eða frá honum til yfirbyggingar.
  • Ökutæki þar sem grind, yfirbygging eða einhver annar hluti ökutækisins er þannig hannaður að hann nálgast að veita sömu vörn við árekstur aftan á og afturvörnin.
  • Ökutæki sem ætlað er til notkunar utan alfaraleiða
  • Ökutæki sem eru í þannig notkun að afturvörn verði ekki komið við meðan á þeirri notkun stendur
  • Hópbifreiðir skráðar fyrir 1. júlí 1990.
  • Ökutæki af framleiðsluári 1967 eða eldri.

Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um hliðarvörn:

  • Ákvæði um hliðarvörn gilda ekki um bifreið og eftirvagn sem skráð(ur) var fyrir 05.05.1989.

Eftirtalin ökutæki eru undanþegin kröfum um framvörn:

  • Vörubifreið sem telst torfærubifreið er undanþegin framvörn.
  • Ákvæði um framvörn gilda ekki um vörubifreið sem skráð var til og með 31.12.2004.


Kröfur til festinga undirvarna


Viðmið um þol á festum

Festingar á bifreið skulu vera í samræmi við styrk bita og heildarþyngd bifreiðar. Hvor festa skal þola, án þess að aflagast, láréttan kraft þvert á bitann sem samsvarar hálfri heildarþyngd bifreiðarinnar. Ekki er þó gerð krafa um að hvor festing þoli meiri kraft en 100 kN (10 tonn). 

Á eftirvagni skulu festingar afturvarnar þola a.m.k. 100 kN kraft (10 tonn) án tillits til heildarþyngdar eftirvagnsins. 

Afturvörn og árekstrarvörn má útbúa þannig að hægt sé að lyfta henni eða láta hana síga, en hún verður samt sem áður að uppfylla kröfur um styrk í þeirri staðsetningu sem henni er ætlað.


Útfærsla festinga

Leyfilegt er að festa afturvörn við pallbita ökutækis ef nægilegur styrkur er fyrir hendi. Festur skulu koma í framanverðan bita afturvarnar. Eðlilegt er að styrkur festa aukist er nær dregur grind ökutækis eða sé a.m.k ekki minni þar en annarsstaðar. Séu notaðar plötur skal að jafnaði ekki nota þynnri plötur en 6 mm. Á þeim skulu einnig vera kantar, a.m.k. 2 cm, á hvorri brún.

Suður skulu vera góðar og í samræmi við efnisþykktir sem verið er að sjóða saman. 

Boltar í festum eiga að vera vel dreifðir en þó ekki of nálægt brún festu, t.d. ekki nær en sem nemur hálfu þvermáli boltahauss. Þurfi bolti að ganga í gegnum t.d. prófíl skulu vera rör sem boltinn gengur í gegnum sem komi í veg fyrir að prófíllinn falli saman við herslu. Að jafnaði skal miða við að notaðir séu a.m.k. þrír boltar í hvorn grindarbita. Miða skal við lágmarksþvermál 10 mm og lágmarksstyrk efnis 8.8. Eftir því sem heildarþyngd bifreiðar eykst og á eftirvögnum er eðlilegt að boltar séu fleiri og/eða sterkari. Þar sem festur með boltum byggja að mestu leyti á þeim viðnámskröftum sem myndast á milli festunnar og grindar er mjög mikilvægt að boltar séu vel og rétt hertir.

Í töflu 1 er gefin til viðmiðunar hersla á 8.8 boltum miðað við breytileg þvermál. Gert er ráð fyrir herslu stál í stál og boltar séu án smurnings.


Tafla 1. Hersla á 8.8 boltum eftir þvermáli þeirra. Gert er ráð fyrir herslu stál í stál og boltar séu án smurnings.

Þvermál boltaHersla
10 mm48 Nm
12 mm 81 Nm
14 mm129 Nm
16 mm197 Nm
18 mm276 Nm
20 mm386 Nm


Kröfur til bita í undirvörnum


Krafa til bita í undirvörn

Biti í afturvörn bifreiðar skal þola, án þess að aflagast, láréttan kraft 150 mm frá enda afturvarnar sem nemur 1/8 af heildarþyngd bifreiðar án þess að bitinn bogni. Þannig skal beygjumótstaða bita (Wb), í einingunni cm3, vera a.m.k. jöfn leyfðri heildarþyngd bifreiðar í kg deilt með 370. Þessu sambandi er lýst með jöfnunni: Wb = heildarþyngd / 370 [cm3]

Biti í afturvörn eftirvagns skal þola 25 kN (2,5 tonn) láréttan kraft 150 mm frá enda afturvarnar. Beygjumótstaða bita á eftirvagni skal því vera a.m.k. 54 cm3 óháð heildarþyngd eftirvagns. Bora skal 5 mm gat við enda bita til að hægt sé að mæla efnisþykkt hans.

Á ökutæki með lyftubúnaði þarf gjarnan að þrískipta bitanum eins og sést á mynd 1 og telst það samþykkt.

UndirvornLyfta1Mynd 1. Undirvörn á bifreið með lyftubúnaði.

Biti í árekstrarvörn skal samsvara efnisstyrk holprófíls úr stáli (St 37) að stærð 80×40×3 mm. Beygjumótstaða slíks bita (Wb), í einingunni cm3, skal vera a.m.k. 9,2 cm3.

Í töflum 2-4 er að finna upplýsingar um samþykkta bita í undirvörn miðað við ýmsar forsendur.


Tafla 2. Samþykktir bitar í undirvörn fyrir bifreiðir og eftirvagna (takmörk eiga við leyfða heildarþyngd).

Lýsing bitaBifreiðEftirvagn
 Sexstrendur biti á lyftum, 105×3 mm AllarAllir 
 Álbiti með rifflum að ofan, 132×90 mm AllarAllir 
 Álbiti með rifflum að ofan, 130×90 mm AllarAllir 
 Álbiti, sléttur, 100×40×2,8 mm Max 4.000 kgEkki leyft 
 Beygð plata 190×85×2,6 mm Max 10.000 kgEkki leyft 

Tafla 3. Dæmi um bita sem hafa nægjanlega beygjumótstöðu miðað við leyfðar heildarþyngdir ökutækja. Miðað er við að láréttur kantur a.m.k. 100 mm á hæð snúi aftur.

Heildarþyngd ca.Lágmarks beygjumótstaðaPrófíllRör

3.500 kg

9,5 cm3

100×40×2,5

 

5.000 kg

13,5 cm3

100×50×3,6

 

10.000 kg

27,0 cm3

120×60×5,0

114,3×3,6

15.000 kg

40,5 cm3

140×80×4,0
100×100×4,0

114,7×4,5

17.000 kg

40,5 cm3

100×60×8,0

 

20.000 kg

54,0 cm3

140×80×5,0
100×100×5,0

139,7×4,0

Eftirvagn

54,0 cm3

140×80×5,0
100×100×5,0

139,7×4,0

Tafla 4. Ef biti snýr upp á kant þá eru þessir bitar samþykktir miðað við leyfðar heildarþyngdir.

 Heildarþyngd ca. Lágmarks beygjumótstaða Prófíll
3.500 kg9,5 cm3prófílar upp á kant
5.000 kg13,5 cm380×80×3,6
10.000 kg27,0 cm390×90×5,6
100×100×4,0
100×100×5,0
15.000 kg40,5 cm3120×120×4,5
20.000 kg54,0 cm3120×120×6,3
Eftirvagn54,0 cm3120×120×6,3


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 3.5.2.1, 3.5.5.1. Uppfærsla texta.



Var efnið hjálplegt? Nei