K8 Útblástursmengun (ÓÚTG)

Frá bensín- og díselvélum

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum til útblástursmengunar, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Tilskipun um skoðun ökutækja nr. 2014/45/EU.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 8.2.1.1
Losun frá hreyfli með rafkveikju - mengunarvarnarbúnaður
 8.2.1.2Losun frá hreyfli með rafkveikju - útblástursmengun
 8.2.2.1Losun frá þjöppukveikjuhreyfli - mengunarvarnarbúnaður
 8.2.2.2Losun frá þjöppukveikjuhreyfli - útblástursmengun


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Útblástursmengun bensínhreyfils - fjórgasmælir: Mælingar á útblæstri bensínvéla.
  • Útblástursmengun díselhreyfils - reykþykknimælir: Mælingar á útblæstri díselvéla.

  • Snúningshraðamælir (valkvæður): Mat á snúningshraða hreyfils vegna mælinga á útblástursmengun.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Mæling á CO- og λ-gildi í útblæstri


(St2.3.3.1)

A. Notkunarsvið

Þessi mæling er til þess að athuga magn mengandi efna í útblástri bensínökutækja og annarra ökutækja sem eru með hreyfli búnum rafkveikju. Útblástur ökutækja með tvígengisvél skal ekki mældur.

Mælt er kolsýrlingsmagn (CO) allra ökutækja í hægagangi og kolsýrlingsmagn (CO) og λ-gildi bifreiða með bensínvél sem eru búnar þrívirkum hvarfakúti og lambdanema við >2000 sn/mín. 

Hafi ökutæki verið breytt til þess að brenna einnig metan gas skal vera rofi í mælaborði til að aftengja búnaðinn á meðan afgasmæling fer fram.


B. Undirbúningur fyrir CO- og λ-gildis mælingu

  1. Fyrir mælingu skal gengið úr skugga um að útblásturskerfi leki ekki verulega en það getur breytt niðurstöðu mælingarinnar. Ef um mikinn leka er að ræða skal ekki mæla og skrá frávik á skoðunarvottorð. Þegar bifreið eða bifhjól er fært til endurskoðunar vegna slíks leka á útblásturskerfi skal í öllum tilfellum mæla og skrá CO-innihald (óháð niðurstöðu þeirrar mælingar í undangengnum skoðunum). (St2.2.2.2)
  2. Hreyfill ökutækja skal ganga við eðlilegan vinnuhita. Ef þörf er á skal búa hreyfil undir mælingu með því að láta hann ganga hraðar nokkrar sekúndur fyrir mælingu. Reynist hreyfill ekki kominn upp í eðlilegan vinnuhita verður að láta hann ganga lengur til þess að hita sig. Ekki skal mæla ökutæki þar sem innsogs- eða kaldræsibúnaður hefur enn áhrif eftir að hreyfill er orðinn heitur. Sjá einnig sértækar upplýsingar um of háan hita í blöndungi.
  3. Hreyfill ökutækis skal ganga annars vegar á eðlilegum hægagangshraða og hinsvegar við >2000 sn/mín þegar mælt er. Ekki skal mæla hreyfil sem gengur óeðlilega hratt í hægagangi.
  4. Beinskipt ökutæki skulu vera í hlutlausum gír með tengslisfetil uppi. Ökutæki með sjálfskiptingu skulu settar í stöðugír.


C. Mæling

  1. Áður en mæling er framkvæmd skal tengja sogbarka þétt við útblástursrör. Hafa skal sogbarka í beinni stöðu, þ.e.a.s. úttak fyrir afgasmæli skal vísa upp.
  2. Ef mörg útblástursrör eru á sömu bifreið skal mæla útblástur frá hverju röri. Mæliniðurstaða verður þá hæsta gildið.
  3. Að uppfylltum skilyrðum í kafla B: „Undirbúningur fyrir CO-og λ- gildis mælingu” er mæling á CO-gildi framkvæmd á öllum bifreiðum í hægagangi og CO- og λ-gildi við >2000 sn/mín. á bifreiðum sem eru með þrívirkan hvarfakút og lambdastýringu. Lesa skal af mæli eftir að hann er kominn í jafnvægi.
  4. Þegar mæling hefur farið fram skal mælir aftengdur.


Tilskipun: Mæling/aflestur (OBD) á CO- og λ-gildi í útblæstri


Neðangreindar upplýsingar eru teknar beint upp úr tilskipun um skoðun og eru bara til fróðleiks (óyfirfarin íslensk þýðing).


Ökutæki í losunarflokkum til og með Euro 5 og Euro V (7)

  • Mælingar með því að nota greiningartæki fyrir útblástursloft í samræmi við kröfur1 eða með aflestri af innbyggðu greiningarkerfi (OBD). 
  • Prófun við útblástursrörið skal fara fram með algengustu aðferðinni við mat á losun með útblæstri. 
  • Á grundvelli mats á jafngildi og með tilliti til viðeigandi löggjafar um gerðarviðurkenningu geta aðildarríkin heimilað notkun á innbyggðu greiningarkerfi (OBD) í samræmi við tilmæli framleiðanda og aðrar kröfur.


Ökutæki í losunarflokkum frá og með Euro 6 og Euro VI (8)

  • Mælingar með því að nota greiningartæki fyrir útblástursloft í samræmi við kröfur1 eða með aflestri af innbyggðu greiningarkerfi (OBD) í samræmi við tilmæli framleiðandans og aðrar kröfur1
  • Mælingar eiga ekki við um tvígengishreyfla.


Skýringar

  • 1 Mælt er fyrir um „kröfur“ með gerðarviðurkenningu við samþykki, fyrstu skráningu eða þegar fyrst er tekið í notkun og jafnframt með skuldbindingum um ísetningu endurbótarhluta eða löggjöf skráningarlands. Þessar ástæður fyrir því að ekki sé mögulegt að viðurkenna ökutækið gilda aðeins þegar gengið hefur verið úr skugga um hvort kröfur hafi verið uppfylltar.
  • (7) Gerðarviðurkennd í samræmi við tilskipun 70/220/EBE, töflu 1 í I. viðauka (Euro 5) við reglugerð (EB) nr. 715/2007, tilskipun 88/77/EBE og tilskipun 2005/55/EB.
  • (8) Gerðarviðurkennd í samræmi við töflu 2 í I. viðauka (Euro 6) við reglugerð (EB) nr. 715/2007 og reglugerð (EB) nr. 595/2009 (Euro VI).


Sértækar upplýsingar vegna mælingar á CO- og λ-gildum


SU- og Stromberg CD blöndungar o.fl. - möguleg skekkja í mælingu

Við langan hægagang getur hitinn í blöndungnum, einkum í SU- og Stromberg CD-blöndungum, hækkað CO-innihald. Varðandi einstakar bifreiðir er gerð sú krafa að CO-mæling sé gerð innan 3 mínútna eftir að hægagangur hófst. Ökumenn láta oft hreyfilinn ganga í hægagangi á meðan þeir bíða skoðunar og kann þá að vera að hiti í blöndungi sé of hár þegar ekið er inn til skoðunar. Reynist of hátt CO-innihald hjá ökutækjum með SU- og Stromberg CD-blöndunga ber að endurtaka mælingu en láta hreyfilinn snúast stutta stund með auknum snúningshraða, eða um 2000 sn/mín svo að blöndungurinn kólni.


Toyota Prius tvíorku - gangsetning bensínhreyfils

Toyota Prius tvíorkubifreið drepur á bensínhreyflinum að uppfylltum tveim skilyrðum:

  1. kælivatnshitinn er 76° C eða yfir,
  2. bifreiðin er kyrrstæð eða ekið er undir litlu álagi.

Til þess að hægt sé að mæla útblástursmengunina frá bensínhreyflinum í skoðun þarf að fara framhjá tölvukerfinu í bifreiðinni til að gangsetja hreyfilinn þegar hann er heitur eða bifreiðin í kyrrstöðu.

Eftirfarandi atriði þarf að framkvæma og atriði 2 til 4 á innan við 60 sek:

  1. Snúa kveikjulásnum á on.
  2. Með skiptistöngina stillta á P er stigið á eldsneytisgjöfina í botn tvisvar sinnum.
  3. Stillið skiptistöngina á N og stigið eldsneytisgjöfina í botn tvisvar sinnum.
  4. Stillið skiptistöngina aftur á P og stigið eldsneytisgjöfina í botn tvisvar sinnum. Ef lausagangskerfið er virkt blikkar ljós í mælaborði (rauður þrýhyrningur með upphrópunarmerki). Hreyfillinn fer í gang þegar kveikjulásnum er snúið á Start. Lausagangurinn er 1000±50 sn/mín, ef eldsneytisgjöfin er stigin niður á allt að 60% af færslu hennar eykst snúningahraðinn í 1500±50 sn/mín, ef eldsneytisgjöfin er stigin niður fyrir 60% af færslu hennar eykst snúningahraðinn í 2500±50 sn/mín.


Lexus RX400h, GS450h og LS600h tvíorku - gangsetning bensínhreyfils

Til að ræsa bensínhreyfil þessara bifreiða:

  1. Svissa á (ýta tvisvar á starthnapp án þess að stíga á bremsur).
  2. Stíga tvisvar á inngjöf alveg í botn með gírstöng í Park stöðu.
  3. Stíga tvisvar á inngjöf alveg í botn með gírstöng í N stöðu.
  4. Stíga tvisvar á inngjöf alveg í botn með gírstöng í Park stöðu.
  5. (FWD) (AWD) MAINTENANCE MODE birtist á upplýsingaskjá í mælaborði (Í RX400h stendur FWD MAINTENANCE MODE. í GS450h stendur bara MAINTENANCE MODE og í LS600h stendur AWD MAINTENANCE MODE).
  6. Ræsa vélina (ýta einu sinni á starthnappinn).


Mæling á reykþykkni


(St2.3.3.2)

A. Notkunarsvið

Við mælingu er dæmt um reykþykkni frá díselhreyflum. Mældur er svonefndur K-stuðull (m-1) í útblæstri hreyfils.


B. Undirbúningur fyrir mælingu reykþykktar

Fyrir mælingu skal þess gætt að hreyfill ökutækis hafi náð u.þ.b. 80°C vinnuhita. Þetta er mælt með skynjara í röri fyrir olíukvarða eða með innrauðum geislamæli á hreyfilblokkinni. Ef ekki er hægt að mæla hitastigið með þessum aðferðum vegna byggingar ökutækisins verður að meta hitastig hreyfilsins á annan hátt, t.d. með því að láta hreyfilinn ganga þar til kælivifta fer í gang eða vatnslás opnar. Auk þess skal þess gætt að útblásturskerfi leki ekki verulega en það gæti þynnt reykinn.


C. Mæling

  1. Mæliskynjara skal stungið inn í útblástursrörið svo djúpt að samsvari a.m.k. þreföldu þvermáli þess. Jafnframt skal þess gætt eftir föngum að skynjarinn liggi samhliða straumstefnu útblástursins og jafnframt þannig að op skynjarans sé í miðju rörinu. Aldrei skal þó stinga skynjaranum grynnra en 20 cm inn. Ef ekki er unnt að stinga skynjara nægilega djúpt skal bæta framlengingu við útblástursrörið af hæfilegri stærð og skal hún falla þétt að stútnum.
  2. Bifreiðin skal höfð í hlutlausum gír. Með hreyfilinn í lausagangi skal auka inngjöf snögglega, en þó ekki harkalega í fulla gjöf á innan við einni sekúndu, til að ná hámarksskammti frá eldsneytisdælu. Þessari stöðu skal haldið þar til hámarkssnúningshraða (2/3 af snúningshraða ef ökutækið er sjálfskipt) er náð og gangráðurinn slær af. Þá skal sleppa eldsneytisgjöfinni. Eftir þetta skal K-gildið lesið af reykþykknismæli.
  3. Aðferðin sem lýst er í b. lið hér að framan skal framkvæmd a.m.k. sex sinnum með a.m.k. 10 sek. millibili. Fyrstu þrjár mælingarnar er ekki lögð til grundvallar niðurstöðu mælingarinnar, heldur notuð til að hreinsa útblásturskerfið. Niðurstaðan er meðaltal þriggja síðustu mælinga, nema mæligildi annarrar mælingar sé K<1,8 m-1 fyrir hreyfil án forþjöppu og K<2,1 m-1 fyrir hreyfil með forþjöppu. Þá telst mæligildi vera innan viðmiðunarmarka.


Tilskipun: Mæling/aflestur (OBD) á reykþykkni 


Neðangreindar upplýsingar eru teknar beint upp úr tilskipun um skoðun og eru bara til fróðleiks (óyfirfarin íslensk þýðing).


Ökutæki í losunarflokkum til og með Euro 5 og Euro V (9)

  • Mæla skal reykþéttni útblásturslofts við hröðun (frá lausagangi og upp í marksnúningshraða, án álags) í hlutlausum gír og með tengslin virk eða með aflestri af innbyggðu greiningarkerfi (OBD). 
  • Prófun við útblástursrörið skal fara fram með algengustu aðferðinni við mat á losun með útblæstri. 
  • Á grundvelli mats á jafngildi geta aðildarríkin heimilað notkun á innbyggðu greiningarkerfi (OBD) í samræmi við tilmæli framleiðanda og aðrar kröfur. 


Ökutæki í losunarflokkum frá og með Euro 6 og Euro VI (10)

  • Mæla skal reykþéttni útblásturslofts við hröðun (frá lausagangi og upp í marksnúningshraða, án álags) í hlutlausum gír og með tengslin virk eða með aflestri af innbyggðu greiningarkerfi (OBD) í samræmi við tilmæli framleiðanda og aðrar kröfur1.


Formeðhöndlun ökutækis

Prófa má ökutæki án formeðhöndlunar jafnvel þótt rétt sé, af öryggisástæðum, að ganga úr skugga um að hreyfillinn sé heitur og í viðunandi ásigkomulagi.

Formeðhöndlunarkröfur:

  1. Hreyfillinn skal vera orðinn heitur, t.d. skal hiti smurolíunnar vera a.m.k. 80°C þegar hann er mældur með nema í olíukvarðarörinu eða vera við eðlilegan ganghita ef hann er lægri eða vélarblokkin skal vera a.m.k. jafnheit þegar hiti hennar er mældur, miðað við stig innrauðrar geislunar. Ef þessi mæling er óhagkvæm vegna lögunar ökutækis má komast að því eftir öðrum leiðum hver eðlilegur ganghiti hreyfilsins er, t.d. með því að setja kæliviftu hreyfilsins í gang.
  2. Útblásturskerfi skal hreinsa með a.m.k. þremur hröðunarferlum eða annarri samsvarandi aðferð.


Prófunaraðferð

  1. Hreyfill og hverfiþjappa, ef hún er tengd, eiga að vera í lausagangi áður en hvert hröðunarferli hefst. Þegar um er að ræða þung, dísilknúin ökutæki þýðir þetta að bíða þarf í a.m.k. 10 sekúndur eftir að eldsneytisgjöfinni er sleppt.
  2. Við upphaf hvers hröðunarferlis verður að gefa eldsneytið alveg í botn tafarlaust og óslitið (á innan við einni sekúndu), en ekki harkalega, til að ná fram hámarksafköstum eldsneytisdælunnar.
  3. Á meðan hröðunarferlið stendur yfir skal hreyfillinn ná markhraða eða, þegar um er að ræða ökutæki með sjálfskiptingu, þeim hraða sem framleiðandinn tiltekur eða, ef þær upplýsingar liggja ekki fyrir, tveimur þriðju af markhraðanum áður en eldsneytisgjöfinni er sleppt. Hægt er að hafa eftirlit með þessu, t.d. með því að vakta snúningshraðann eða með því að láta nægan tíma líða frá því að eldsneytisgjöfinni er fyrst gefið inn og þar til henni er sleppt, en það ættu að vera a.m.k. tvær sekúndur ef um er að ræða ökutæki sem tilheyra flokkum M2, M3, N2 og N3. 
  4. Einungis má dæma ökutæki ónothæf ef meðaltal þriggja síðustu hröðunarferla hið minnsta er hærra en viðmiðunarmörkin. Þetta má reikna út með því að taka ekki með í reikninginn þær mælingar sem víkja verulega frá mælda meðaltalinu eða með því að nota niðurstöður annarra tölfræðiútreikninga þar sem ekki er tekið tillit til dreifingar í mælingum. Aðildarríkin mega takmarka hámarksfjölda prófunarferla. 
  5. Til að forðast óþarfar prófanir geta aðildarríkin dæmt ökutæki ónothæf ef mæligildi þeirra eru verulega hærri en viðmiðunarmörkin segja til um eftir færri en þrjú hröðunarferli eða eftir hreinsunarferlin. Til að forðast óþarfar prófanir geta aðildarríkin að sama skapi samþykkt ökutæki sem eru með verulega lægri mæligildi en viðmiðunargildin segja til um eftir færri en þrjú hröðunarferli eða eftir hreinsunarferlin.


Skýringar

  • 1 Mælt er fyrir um „kröfur“ með gerðarviðurkenningu við samþykki, fyrstu skráningu eða þegar fyrst er tekið í notkun og jafnframt með skuldbindingum um ísetningu endurbótarhluta eða löggjöf skráningarlands. Þessar ástæður fyrir því að ekki sé mögulegt að viðurkenna ökutækið gilda aðeins þegar gengið hefur verið úr skugga um hvort kröfur hafi verið uppfylltar.
  • (9) Gerðarviðurkennd í samræmi við tilskipun 70/220/EBE, töflu 1 í I. viðauka (Euro 5) við reglugerð (EB) nr. 715/2007, tilskipun 88/77/EBE og tilskipun 2005/55/EB.
  • (10) Gerðarviðurkennd í samræmi við töflu 2 í I. viðauka (Euro 6) við reglugerð (EB) nr. 715/2007 og reglugerð (EB) nr. 595/2009 (Euro VI).


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 2.2.2.2, 2.3.3.1, 2.3.5.1, auk efnis úr tilskipuninni.


Var efnið hjálplegt? Nei