Verklagsbók: ADR-viðurk.sk.

Atriði til skoðunar og sérkröfur

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna skoðunaratriði og sértækar kröfur um framkvæmd ADR-viðurkenningarskoðunar.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
  • Reglugerð um flutning á hættulegum farmi nr. 1077/2010.
  • Evrópusamningur um flutninga á hættulegum farmi á vegum, sem undirritaður var í Genf 1957 / ADR-samþykktir, kafli 9.
  • Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.
  • Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017.
  • Reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 474/2017.


ADR-viðurk.skoðun: Kröfur til skoðunarmanna


Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2024):

  • G-, V- og S-viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja.


ADR-viðurk.skoðun: Umfang og ferli


Umfang

ADR-viðurkenningarskoðun er framkvæmd vegna eftirfarandi:

  • Óskað er eftir að skrá ökutæki til flutnings á hættulegum farm en ekki er hægt að framvísa ADR-viðurkenningu framleiðanda eða erlendri ADR-viðurkenningu.
  • Óskað er eftir að fá ökutækið viðurkennt fyrir aðra flokka en viðurkenning framleiðanda eða erlend ADR-viðurkenning segir til um. 

Við ADR-viðurkenningarskoðun fer fram athugun á því hvort ökutæki uppfyllir kröfur sem til þess eru gerðar eins og lýst er í leiðbeiningaskjali stoðrits um ökutæki sem flytja hættulegan farm. Samantekt á þeim atriðum eru í þessu skjali.


Auðkenning ökutækis

Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.


ADR-viðurk.skoðun: Skoðunaratriði


Við ADR-viðurkenningarskoðun skal tryggja að ökutækið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til samsvarandi ADR flokka sem sótt er um auk þess að taka út búnað þess í samræmi við framkvæmd á reglulegri ADR-skoðun .

Sé verið að framkvæma viðurkenningarskoðun þar sem óskað er eftir að bæta við ADR flokkum umfram viðurkenningu framleiðanda skal aðeins skoða umfram kröfur í samræmi við flokka.

Í töflum hér fyrir neðan eru talin upp þau atriði sem skoðuð eru í ADR-viðurkenningarskoðun. Aðeins er hægt að dæma atriðin í flokk 2 sem þýðir að athugasemd hafi verið gerð við atriðið.


Tafla 1. Skoðunaratriði fyrir ADR-viðurkenningarskoðun (sjá töflu 2 til skýringar).

Nr AtriðiSkýring

V05

Rafbúnaður

Sjá töflu 2

V10

Hemlabúnaður

Sjá töflu 2

V15

Eldvarnir

Sjá töflu 2

V20

Hraðatakmarkari

Sjá töflu 2

V25

Tengibúnaður

Sjá töflu 2

V30

Aðrar forvarnir v/eldsneytis

Sjá töflu 2

V35

Sérkröfur EX/II og EX/III

Sjá töflu 2


ADR-viðurk.skoðun: Kröfur um tæknilega eiginleika


Kröfur um tæknilega eiginleika ADR-ökutækja eru mismunandi eftir þeim flokkum sem ökutækið óskast viðurkennt fyrir. Kröfurnar eru samkvæmt 9. kafla ADR reglna og eru þær taldar upp hér í einfaldaðri mynd vegna viðurkenningarskoðunar:

  • Tafla 2: Tæknilegir eiginleikar ADR-ökutækja eftir flokkum.
  • Tafla 3: Athugasemdir vegna atriða í töflu 2.
  • Tafla 4: Nánari útskýringar á atriðum í töflu 2 og leiðbeiningar um skoðun.


Tafla 2. Tæknilegir eiginleikar ADR-ökutækja. Númerin í sviga fyrir aftan breiðletruðu atriðin eru skoðunarnúmerin úr töflu 1. Í töflu 3 eru skýringar á bókstöfunum í dálkunum (X a-k).

Tæknilegir eiginleikar / ADR-flokkar EX/II EX/III AT FL
9.2.2 RAFBÚNAÐUR (V05)
9.2.2.1 Almenn ákvæði X X X X
9.2.2.2.1 Leiðslur Xa X X X
9.2.2.2.2 Auka vörn Xa X Xb X
9.2.2.3 Bræði-/útsláttarvör Xb X X X
9.2.2.4 Rafgeymir X X X X
9.2.2.5 Ljós X X X X
9.2.2.6 Rafleiðslur milli vélknúins ökutækis og eftirvagns Xc X Xb X
9.2.2.7 Spenna X X
9.2.2.8 Höfuðrofi X X
9.2.2.9 Rásir með stöðugum straum
9.2.2.9.1 Rásir með stöðugum straum X
9.2.2.9.2 Rásir með stöðugum straum X
9.2.3 HEMLABÚNAÐUR (V10)
9.2.3.1 Almenn ákvæði X X X X
ABS - kerfi Xc Xd,e Xd,e Xd,e
Hamlari Xf Xg Xg Xg
9.2.4 ELDVARNIR (V15)
9.2.4.3 Eldsneytistankar og -flöskur X X X
9.2.4.4 Hreyfill X X X
9.2.4.5 Útblásturskerfi X X X
9.2.4.6 Hamlarakerfi Xf X X X
9.2.4.7 Brunahólfs-miðstöð/hitari
9.2.4.7.1 Brunahólfshitari - kröfur Xh Xh Xh Xh
9.2.4.7.2 Brunahólfshitari – útblásturskerfi Xh Xh Xh Xh
9.2.4.7.5 Brunahólfshitari - gangsetning Xh Xh Xh Xh
9.2.4.7.3 Brunahólfshitari – ádrepari Xh
9.2.4.7.4 Brunahólfshitari – keyrslutími Xh
9.2.4.7.6 Brunahólfshitari – eldsneyti X X
9.2.5 HRAÐATAKMARKARI (V20) Xi Xi Xi Xi
9.2.6 TENGIBÚNAÐUR (V25) X X Xj Xj
9.2.7 AÐRAR FORVARNIR V/ELDSNEYTIS (V30) X X
9.3 SÉRKRÖFUR EX/II OG EX/III (V35)
9.3.1 Almennt Xk Xk
9.3.2 Brunahólfshitari Xk Xk
9.3.3 Farmrými EX/II ökutæki Xk
9.3.4 Farmrými EX/III ökutæki Xk
9.3.5 Hreyfill Xk Xk
9.3.6 Útblásturskerfi Xk Xk
9.3.7 Rafbúnaður Xk Xk


Tafla 3. Athugasemdir vegna atriða í töflu 2.

a. Á við um ökutæki með leyfða heildarþyngd yfir 3,5 tonn sem skráð voru í fyrsta sinn (eða tekin í notkun ef ekki þurfti að skrá þau) eftir 31.mars 2018.
b. Á við um ökutæki sem skráð voru í fyrsta sinn (eða tekin í notkun ef ekki þurfti að skrá þau) eftir 31.mars 2018.
c. Á við um vélknúin ökutæki sem ætluð eru til dráttar á eftirvögnum með leyfða heildarþyngd yfir 3,5 tonn og eftirvögnum með leyfða heildarþyngd yfir 3,5 tonn, sem skráð voru í fyrsta sinn (eða tekin í notkun ef ekki þurfti að skrá þau) eftir 31.mars 2018.
d. Á við um vélknúin ökutæki (dráttarbíla og vörubíla) með leyfða heildarþyngd yfir 16 tonn og vélknúin ökutæki ætluð til dráttar á eftirvögnum með leyfða heildarþyngd yfir 10 tonn. Vélknúnu ökutækin eiga að vera útbúin ABS í flokki 1. Á við um eftirvagna með leyfða heildarþyngd yfir 10 tonn. Eftirvagnar eiga að vera útbúnir ABS hemlum í flokki A.
e. Á við um vélknúin ökutæki og eftirvagna með leyfða heildarþyngd yfir 3,5 tonn sem skráð voru í fyrsta sinn (eða tekin í notkun ef ekki þurfti að skrá þau) eftir 31.mars 2018.
f. Á við um vélknúin ökutæki með leyfða heildarþyngd yfir 16 tonn eða sem er ætlað til dráttar á eftirvögnum með leyfða heildarþyngd yfir 10 tonn, sem skráð voru í fyrsta sinn (eða tekin í notkun ef ekki þurfti að skrá þau) eftir 31.mars 2018.
g. Á við um vélknúin ökutæki með leyfða heildarþyngd yfir 16 tonn eða sem er ætlað til dráttar á eftirvögnum með leyfða heildarþyngd yfir 10 tonn. Hamlari skal væra af gerðinni IIA.
h. Á við um vélknúin ökutæki útbúin eftir 30. júní 1999. Skal vera til staðar eftir janúar 2010 á ökutækjum sem útbúin voru fyrir 1. júlí 1999.
i. Á við um vélknúin ökutæki með leyfða heildarþyngd yfir 12 tonn sem skráð voru í fyrsta sinn eftir 31. desember 1987 og fyrir öll ökutæki með leyfða heildarþyngd yfir 3,5 tonn en undir 12 tonnum, skráð í fyrsta sinn eftir 31.desember 2007.
j. Á við um tengibúnað á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum sem skráð voru í fyrsta sinn (eða tekin í notkun ef ekki þurfti að skrá þau) eftir 31.mars 2018
k. Á við um tilbúið/fullsmíðað EX/II eða EX/III ökutæki sem ætlað er til flutnings á sprengifimu efni og hlutum (flokki 1) í pakkningum, samkvæmt kafla 9.3 í ADR.


Tafla 4. Nánari útskýringar á atriðum í töflu 2 (útdráttur úr kafla 9 í ADR-reglunum) og leiðbeiningar um skoðun.

Tæknilegir eiginleikar
9.2.2 RAFBÚNAÐUR (V05) Rafkerfi / rafbúnaður
9.2.2.1 Almenn ákvæði

Almennt gildir að rafkerfið skal vera hannað, útfært og þannig varið að ekki sé hætta á neista eða skammhlaupi við eðlilega notkun á ökutækinu.

9.2.2.2.1

Leiðslur

Hér er átt við rafmagnsvíra og kapla eftir því sem við á.

  • Leiðslur mega ekki flytja meiri straum en þær eru hannaðar fyrir
  • Leiðslur með rafspennu skulu vera nægjanlega einangraðar
  • Leiðslur skulu henta umhverfi sínu í ökutækinu með tilliti til hitastigs og þurfa þola þann vökva sem er í umhverfinu.
  • Leiðslurnar eiga að vera í samræmi við staðlana ISO 6722-1:2011 + Cor 01:2012 eða ISO 6722-2:2013
  • Frágangur og festingar á leiðslunum skal væra slíkur að þær séu varðar hnjaski og hitaálagi.

9.2.2.2.2 Aukin vörn

  • Leiðslur fyrir aftan ökumannshús og á eftirvögnum skulu varðar sérstaklega til að lágmarka möguleika á íkveikju eða útleiðslu við árekstur.
  • Auka vörnin á að henta aðstæðum við venjulega notkun á ökutækinu.
  • Kröfurnar um auka vörn teljast uppfylltar ef notaðar eru margþátta leiðslur í samræmi við ISO 14572:2011 eða eins og dæmin á myndunum hér að neðan eða sambærilegt.

Mynd 9.2.2.2.2.1 9.2.2.2.2.1
Mynd 9.2.2.2.2.2 9.2.2.2.2.2
Mynd 9.2.2.2.2.3 9.2.2.2.2.3
Mynd 9.2.2.2.2.4 9.2.2.2.2.4

Leiðslur í snúningshraðaskynjara (ABS skynjara) út í hjól þurfa ekki aukna vörn.

EX/II-ökutæki, sem eru lokaðir sendibílar frá verksmiðju og þar sem leiðslurnar fyrir aftan ökumannshús eru varðar af yfirbyggingunni (boddýinu) uppfylla þessa kröfu

9.2.2.3 Öryggi og útsláttarrofar

Allar straumrásir eiga að vera varðar með öryggi eða útsláttarrofa fyrir utan eftirfarandi:

  • Frá ræsi til hreyfils
  • Frá ræsi til rafals
  • Frá rafli til bræðivars / útsláttarvars / höfuðrofa
  • Frá rafgeymi til ræsis
  • Frá rafgeymi til stýribúnaðar (kraftstýribox) fyrir hamlarakerfi ef það er rafdrifið eða notar rafsegul

Ofangreindar óvarðar leiðslur eiga að vera eins stuttar og komið verður við.

9.2.2.4 Rafgeymir

  • Rafgeymatengingarnar (pólar og pólskór) eiga að vera einangraðar eða rafgeymirinn með einangrandi loki
  • Rafgeymar sem geta gefið frá sér eldfima gufu og eru ekki undir vélarhlíf, eiga að vera í loftræstu hólfi

9.2.2.5 Ljós Perur með sökkulskrúfgangi má ekki nota
9.2.2.6 Rafleiðslur milli vélknúins ökutækis og eftirvagns

Raftengingar skulu þannig hannaðar að þær hindri:

  • að raki og óhreinindi komist í þær. Tengingarnar þurfa að lágmarki að uppfylla IP54 í samræmi við IEC 60529
  • óviljandi aftengingu eða aftengingu fyrir slysni. Tengi skulu vera í samræmi við punkt 5.6 í ISO 4091:2003

9.2.2.7 Spenna

  • Spenna í rafkerfinu má ekki yfirstíga 25V riðstraum eða 60V jafnstraum
  • Hærri spennur eru leyfðar í hluta rafkerfisins ef það er galvaníst einangrað og ekki nær farmrými eða tanki en 0,5 m.
  • Önnur kerfi sem vinna á spennu yfir 1000V riðstraumi eða 1500V jafnstraumi skulu vera innbyggð í lokaðan kassa.
  • Ef notuð eru Xenon ljós má aðeins nota ljós með innbyggðum startara

9.2.2.8 Höfuðrofi

  • Rofi (höfuðrofi) sem rýfur strauminn í rafkerfinu á að vera staðsettur eins nálægt rafgeymi og unnt (hentugt) er. Ef notaður er eins póls rofi á hann að vera á straumleiðslunni (+) en ekki jarðsambandinu.
  • Stjórntæki (rofi) til að rjúfa og tengja höfuðrofann skal vera staðsett í ökumannshúsinu. Það skal vera auðveldlega aðgengilegt fyrir ökumann og merkt greinilega á viðeigandi hátt. Stjórntækið skal útfært þannig að á því sé lok eða tvíþætt hreyfing til að varna ótilætlaðri notkun. Aðrar útfærslur eru leyfðar með þeim skilyrðum sem greind eru að ofan.

9.2.2.9 Rásir með stöðugum straumi

Þeir hlutar rafkerfisins þ.m.t. leiðslur sem eru með stöðugan straum þegar höfuðrofinn er opinn eiga að vera viðeigandi til notkunar í hættulegu umhverfi. Slíkur búnaður skal uppfylla almennar kröfur í IEC 60079 hluta 0 og 14, sjá nánar í ADR- reglum: 9.2.2.9.1 og 9.2.2.9.2

9.2.2.9.1 Rásir með stöðugum straumi

a) Þeir hlutar rafkerfisins þ.m.t. leiðslur sem eru með stöðugan straum þegar höfuðrofinn er opinn eiga að vera viðeigandi til notkunar í hættulegu umhverfi. Slíkur búnaður skal uppfylla almennar kröfur skv. IEC 60079, hluta 0 og 14.

b) Við notkun á staðli IEC 60079, hluta 14 skal fylgja eftirfarandi flokkun:
Rafbúnaður með stöðugum straumi þ.m.t. leiðslur sem tilheyra ekki 9.2.2.4 og 9.2.2.8 skal almennt uppfylla kröfur skv. 1 svæði (e. Zone 1) fyrir rafbúnað og kröfur skv. 2 svæði (e. Zone 2) fyrir rafbúnað í ökumannshúsi. Kröfur vegna sprengiefnaflokk IIC skulu uppfylla hitaflokk T6.

c) Hinsvegar, fyrir búnað með stöðugum straumi sem er komið fyrir í umhverfi þar sem utankomandi hiti (hiti sem stafar ekki frá rafbúnaði) fer yfir hitaflokk T6, skal búnaðurinn uppfylla að minnsta kosti hitaflokk T4.

9.2.2.9.2 Rásir með stöðugum straumi

Hliðartengingar við höfuðrofa fyrir rafbúnað sem þurfa að hafa stöðugan straum þegar höfuðrofinn er opinn, skulu vera varnar því að ofhitna með viðeigandi hætti, svo sem með öryggi, aflrofa eða öryggisvörn (straumtakmarkara).

Sjá nánar í ADR 9.2.2.9

9.2.3 HEMLABÚNAÐUR (V10) Hemlar og hamlarakerfi
9.2.3.1 Almenn ákvæði

  • Vélknúin ökutæki og eftirvagnar sem teljast flutningseiningum fyrir hættulegan farm eiga að uppfylla viðhlítandi kröfur í UN reglugerð nr. 13 með breytingum, í samræmi við dagsetningar á gildistöku sem þar koma fram. UN reglugerð nr. 13 innheldur kröfur til hemla fyrir ökutæki í ökutækjaflokkunum M, N og O.
  • EX/II-, EX/III-, FL-, og AT-ökutæki eiga að uppfylla kröfurnar í UN reglugerð nr. 13, viðhengi 5. Viðhengi 5 inniheldur sérreglur um hemla ADR ökutækja.

ABS-kerfi Skal vera til staðar.
Hamlari Skal vera til staðar ef hámarksþyngd vélknúins ökutækis er meiri en 16 tonn eða má draga eftirvagn í ökutækjaflokknum O4.
9.2.4 ELDVARNIR (V15) Í samræmi við töflu um skráningarskoðun
9.2.4.3 Eldsneytistankar og -gashylki

Útfærslan skal vera þannig að ef leki á sér stað þá lekur beint til jarðar án snertingar við farminn eða heita hluta ökutækisins. Nánari upplýsingar í ADR-reglum.

9.2.4.4

Hreyfill

  • Hreyfillinn sem drífur ökutækið skal vera útbúinn og staðsettur þannig að farminum stafi ekki hætta af vegna hita eða íkveikju.
  • Sérákvæði eru í ADR reglugerðinni ef notað er CNG- eða LNG- eldsneyti. Sama gildir um LPG eldneyti. EX/II og EX/III ökutæki skulu búinn hreyfli með þrýstikveikju sem notar einungis eldsneyti með blossamarki yfir 55°C. Ekki er heimilt að nota gas.

9.2.4.5 Útblásturskerfi Útblásturskerfið (þ.m.t. púströr) skal þannig útfært og staðsett eða varið að ekki stafi farminum hætta af vegna íkveikju eða hita.
9.2.4.6 Hamlarakerfi

  • Ökutæki útbúin hamlarakerfi sem gefur frá sér mikinn hita og sem er staðsett aftan við ökumannshúsið eiga að vera útbúin hitahlíf.
  • Hitahlífin skal vera staðsett á milli kerfisins og tanksins eða farmsins og tryggilega fest þannig að ekki verði upphitun á farmi eða tanki jafnvel í litlum mæli.
  • Að auki skal hitahlífin verja hamlarakerfið gegn hverskyns leka eða yfirfalli frá farminum, jafnvel þó slys/óhapp eigi sér stað. T.d. er vörn sem er tvöföld (tvíveggja eða tvö þil) talin nægjanleg.

9.2.4.7 Brunahólfs-miðstöð/hitari Miðstöð eða hitari sem brennir eldsneyti, t.d. olíumiðstöð.
9.2.4.7.1 Brunahólfshitari - kröfur Brunahólfhitari þar að uppfylla viðeigandi tæknilegar kröfur samkvæmt UN-reglugerð nr. 122 með breytingum.
9.2.4.7.2 Brunahólfshitari - útblásturskerfi Brunahólfshitarinn og tilheyrandi útblásturskerfi skal hannað, staðsett og varið þannig að komið sé í veg fyrir óæskilegri hitamyndun eða íkveikju á farminum. Þessi krafa telst uppfyllt ef kröfurnar í 9.2.4.3. og 9.2.4.5 eru uppfylltar á tilsvarandi máta
9.2.4.7.3 Brunahólfshitari - ádrepari

Brunahólfshitarann þarf að vera hægt að stöðva með eftirfarandi aðferðum:

  • Handstýrður rofi í ökumannshúsi
  • Þegar hreyfill ökutækisins er stöðvaður, í slíku tilfelli er hægt að gangsetja hitarann handvirkt hjá bílstjóra
  • Þegar dæla til að dæla farmi er ræst

9.2.4.7.4 Brunahólfshitari – keyrslutími

  • Eftir að hitarinn hefur verið stöðvaður má hann ganga í 40 sek. Að þeim tíma loknum skal á viðeigandi hátt lokast fyrir loftflæði til hitarans.
  • Einungis má nota hitara sem eru gerðir til að þola styttan skolunartíma (40 sek) við venjulega notkun.

9.2.4.7.5 Brunahólfshitari - gangsetning Brunahólfshitarinn skal hafa handvirkan búnað til gangsetningar. Forritaður ræsibúnaður er bannaður.
9.2.4.7.6 Brunahólfshitari - eldsneyti Brunahólfshitarar sem nota gas sem eldsneyti má ekki nota
9.2.5 HRAÐATAKMARKARI (V20) Vélknúin ökutæki yfir 3,5 tonn að heildarþyngd eiga að vera útbúin með hraðatakmarkara þar sem hraðinn er ekki stilltur hærra en 90 km/klst.
9.2.6 TENGIBÚNAÐUR (V25)

Tengibúnaður á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum eiga að vera í samræmi við UN-reglugerð nr. 55 með breytingum og dagsetningum á gildistöku.

9.2.7 AÐRAR FORVARNIR V/ELDSNEYTIS (V30) Eldneytiskerfi fyrir hreyfla sem nýta LNG á að vera útbúið og útfært þannig að farmi stafi ekki hætta af þegar gas er kælt.
 9.3 SÉRKRÖFUR EX/II OG EX/III (V35) Á við um tilbúið/fullsmíðað EX/II eða EX/III ökutæki sem ætlað er til flutnings á sprengifimu efni og hlutum (flokki 1) í pakkningum, samkvæmt kafla 9.3 í ADR.
 9.3.1 Almennt Ökutækið skal ekki smíðað úr efni sem getur hvarfast hættulega við farminn.
 9.3.2 Brunahólfshitari
  • Brunahólfshitara má einungis koma þannig fyrir að þeir hiti aðeins ökumannshús og vélarými.
  • Brunahólfshitarar skulu uppfylla lágmarkskröfur samkvæmt 9.2.4.7.1, 9.2.4.7.2, 9.2.4.7.5 og 9.2.4.7.6.
  • Rofi til stjórnunar á brunahólfshitara má vera utan ökumannshúss.
  • Engir hlutar brunahólfshitara, þar með talið eldsneytisgeymar, inntak eða útblásturskerfi hitunartækis skal vera komið fyrir í farmrými ökutækis.
 9.3.3 Farmrými EX/II
  • Ökutæki skal vera hannað, framleitt og þannig útbúið að sprengifimur farmur sé varinn gegn ytri hættum og veðri.
  • Farmrýmið skal annaðhvort vera full lokað eða með hlífðartjaldi.
    • Hlífðartjald skal ekki rifna auðveldlega, vera vatnsþétt og úr lítt eldfimu efni.
    • Hlífðartjald skal vera strekkt þannig að það nái yfir allar hliðar framrýmis.
  • Öll op skulu vera með þéttri hurð eða strekktri/stífri hlíf sem hægt er að læsa
  • Ökumannsrýmið skal vera vera aðskilið frá farmrými með heilum vegg.
 9.3.4 Farmrými EX/III

  • Ökutæki skal vera hannað, framleitt og þannig útbúið að sprengifimur farmur sé varinn gegn ytri hættum og veðri.
  • Ökutækið skal vera lokað.
  • Ökumannsrýmið skal vera vera aðskilið frá farmrými með heilum vegg.
  • Hleðsluflötur skal vera samfelldur (heimilt er að hafa festingar fyrir farm)
  • Öll samskeyti skulu vera þétt.
  • Hægt verður að vera að læsa öllum opnanlegum hurðum og hlerum.
  • Hurðir og hlerar skulu vera þannig útbúnar og komið fyrir að öll liðamót séu hulin utanfrá.
  • Yfirbygging ökutækis skal vera úr hita- og eldþolnu efni sem er að minnsta kosti 10mm að þykkt. Efni sem fall í flokk B-s3-d2 samkvæmt staðlinum EN 13501-1:2007 + A1:2009 teljast uppfylla þessi ákvæði.
    • Ef yfirbygging er úr málmi skulu allar innhliðar hennar vera klæddar með efni sem uppfyllir sömu kröfur.

 9.3.5  Hreyfill Hreyfillinn sem drífur ökutækið skal vera staðsettur fyrir framan vegginn sem aðskilur farmrýmið. Þó er heimilt að hreyfill sé staðsettur undir farmrými, sé það útfært þannig að hiti frá hreyfli (vélarrými) skapi ekki hættu á farminn með því að innra lag farmrýmis fari yfir 80°C.
 9.3.6

Útblásturskerfi

Útblásturskerfi skal vera útfært og staðsett þannig að farmi stafi ekki hætta af vegna hita, þannig að innra lag farmrýmis fari ekki yfir 80°C.

 9.3.7

Rafbúnaður

  • Rafbúnaður (þ.m.t. rafkerfi) skal uppfylla kröfur samkvæmt 9.2.2.1, 9.2.2.2, 9.2.2.3, 9.2.2.4, 9.2.2.5, 9.2.2.6, 9.2.2.7, 9.2.2.8 og 9.2.2.9.2.
  • Rafbúnaður í farmrými skal vera rykvarið og uppfylla að lágmarki IP54 samkæmt IEC60529 eða sambærilegu. Sé ætlað að flytja efni í aðskilnaðarflokk J, skal rafbúnaður varinn þannig að hann uppfylli IP65 samkvæmt IEC 60529 eða sambærilegu.
  • Engar rafleiðslur skulu vera staðsettar innan farmrýmis. Rafbúnaður sem er aðgengilegur innan farmrýmis skal vera nægilega vel varinn þannig að hann þoli högg frá farmi að innanverðu.


ADR-viðurk.skoðun: Frávik og niðurstaða


Frávik við ADR-skoðun og niðurstaða

Sé gerð athugasemd við eitthvert skoðunaratriði verður niðurstaða skoðunar „Endurskoðun“ og ökutækið telst ekki hafa staðist skoðunina. Eigi að skrá ökutækið í viðkomandi rekstur í framhaldi af skoðun er þeirri skráningu hafnað. Annars er heimilt er að klára umsóknarferil og/eða staðfesta áframhaldandi leyfi fyrir viðkomandi ökutæki.


Númer skoðunaratriða

Númer skoðunaratriða á skoðunarvottorði eru ADR.xxx.2, þar sem ADR er fast forskeyti, xxx er númer atriðis hér að ofan, og 2 er fasti sem þýðir að athugasemd hafi verið gerð við atriðið. Dæmi: ADR.V05.2 merkir að athugasemd hafi verið gerð við rafbúnað.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
23.02.2023Nýtt skjal. Efni tekið unnið upp úr kröfum í lögum og reglugerðum um ADR flutninga.



Var efnið hjálplegt? Nei