K6 Yfirbyggingar vörubifreiða

Yfirbyggingar og áfestur búnaður vörubifreiða

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til yfirbygginga vörubifreiða og áfests búnaðar af ýmsu tagi, auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
6.1.1Almennt ástand grindar eða undirvagns og áfasts búnaðar

Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Yfirbyggingar og áfestur búnaður vörubifreiða


Varðar yfirbyggingar og áfestan búnað vörubifreiða (St3.7.2.7)

Grind vörubifreiða er almennt samsett úr skúffubitum. Annars vegar eru það tveir langbitar (á hlið og snúa inn sitt hvoru megin), hins vegar nokkrir þverbitar (einnig á hlið). Algengt er að langbitarnir séu gataðir frá verksmiðju, hópur gata með reglulegu millibili, annars þarf að búa til ný göt skv. fyrirmælum framleiðanda. Í þau er ætlast til að yfirbygging sé boltuð eða hnoðuð. 

Óheimilt er að eiga við efra og neðra flau skúffubitans, einnig er bannað að sjóða í eða á grindina nokkurn hlut.

Það sem tengir saman yfirbyggingu og bílgrind er oftast s.k. yfirgrind. Það er grind sem kemur ofan á bílgrindina og dreifir álagi yfirbyggingarinnar á hana. Þrenns konar álag á bílgrindur er aðallega um að ræða af völdum yfirbygginga; jafndreift álag (t.d. opinn pallur), dreifing á marga festipunkta (t.d. tankur), eða punktálag (t.d. krani). 

Auðveldast er fyrir bílgrindina að bera jafndreifða álagið. Yfirgrind getur verið hluti sturtupalls, plata undir stól, rammi undir tank eða álagsdreifigrind undir krana. Hún er byggð með svipuðum hætti og bílgrindin, en er yfirleitt úr talsvert veigaminna efni. Á hana má sjóða festingar og sjálfa yfirbygginguna. Fremri endar langbitanna skulu vera fleyglaga til að minnka spennuhækkun í bílgrindinni við endann.

Festingar milli bílgrindarinnar og yfirgrindarinnar eru af fjórum megin gerðum:

  1. Festiplata: Hún er annað hvort soðin eða boltuð í yfirgrindina og boltuð í bílgrindina. Þessi festing myndar færslulausa festingu milli grindanna.
  2. Punktfesting, en hún leyfir snúning og ofurlitla færslu í láréttu plani.
  3. Einása færslufesting sem leyfir færslu upp og niður, þ.e. yfirgrind og bílgrind geta færst hvor frá annarri í lóðréttu plani. Þessi festing vinnur gegn færslunni með gormi eða gúmmípúðum.
  4. Tvíása færslufesting: Hún vinnur eins og einása, en leyfir að auki færslur fram og aftur.

Ljóst er að yfirbyggingin má ekki hindra eðlilegar hreyfingar bílgrindarinnar og því verður að velja réttar festingar m.v. sveigjanleika yfirbyggingarinnar. Því eru yfirleitt notaðar fleiri en ein tegund festingar fyrir sérhverja yfirbyggingu. Almennt má segja að notaðar séu festiplötur fyrir öftustu festingar yfirbyggingar. Mið- og fremstu festingar eru háðar því um hvers konar yfirbyggingu er að ræða:

  1. Mjög sveigjanlegar: Miðjufestingar eru festiplötur. Fremstu festingar eru festiplötur eða punktfestingar.
  2. Sveigjanlegar: Miðjufestingar eru festiplötur. Fremstu festingar eru einása færslufestingar.
  3. Stífar: Tvíása færslufestingar eru bæði í miðjunni og fremst.

Þegar kranar, vörulyftur og svipuð tæki eru fest á bílgrindur verður í nær öllum tilfellum að styrkja þær. Það er gert annað hvort með vinkilbitum ofan á grindarbitana fyrir smærri tækin, eða með hjálpargrind fyrir stærri tækin. Hjálpargrind er eins og yfirgrind og gegnir sama hlutverki, en er alltaf fest með festiplötum.

Þegar yfirbygging vörubifreiðar er tekin út verða að fylgja gögn frá framleiðanda bifreiðarinnar um festur viðkomandi yfirbyggingar eða búnaðar við grind bifreiðarinnar. Gögnin skulu samþykkt af skoðunarstofu og gengið skal úr skugga um að festingar við grindina séu í samræmi við gögn viðkomandi yfirbyggingu. Þess þarf þó ekki þegar um eftirvagn eða aðra ökutækjaflokka er að ræða. 

Yfirbygging sú sem skráð er á ökutæki er alltaf fest með varanlegum hætti á grind þess. Með varanlegum hætti er átt við að festingin sé boltuð með nokkrum boltum sem yfirleitt er búið að mála yfir. Skrá skal allar yfirbyggingar ökutækis eftir úttekt, að auki skal fyrir sérhverja yfirbyggingu skrá lengd, breidd og eiginþyngd ökutækisins með þeirri yfirbyggingu.


Lyftubúnaður


Varðandi lyftubúnað á ökutækjum (St3.7.2.2)

Lyftubúnað er að finna á mörgum ökutækjum og er til fjölbreytta nota. Lyftubúnaður er hluti af skoðun og þarf að sýna fram á að virkni hans sé eðlileg, ekki stafi hætta af honum við notkun eða í umferð og haldi stöðu sinni. Óheimilt er að nota nokkurskonar hjálparbúnað til að halda búnaðinum í réttri stöðu svo sem spennibönd til farmflutninga.


Gámafestingar


Varðar gámafestingar (St3.6.2.1)

Gámur er festur með s.k. gámagrind sem ætluð er fyrir flutning sjálfberandi gáma af stöðluðum stærðum. Á hornum og jafnvel hliðum grindarinnar eru gámalásar sem læsast í stöðluð eyru gámanna. Staðsetning lásanna er samhverf um lengdarás bílsins. Lágmarksfjöldi þeirra er 4, einn fyrir hvert horn gámsins. Breiddarbil milli lása (miðja í miðju) er 2260 mm (± 20 mm) og lengdarbil fyrir 20 feta gám er 5860 mm (± 20 mm). Stundum bætast fjórir lásar við á mitt lengdarbilið til flutninga á tveimur eða fleiri gámum í einu.

Inn í mat á virkni gámalása skal koma mat á virkni gámalása út frá skemmdum á hleðslufleti gámagrindar eða palls. Ef hleðsluflötur er sveigður eða skemmdur þannig að ætla má að gámalás(ar) komi ekki að notum dæmist það í samræmi við Skoðunarhandbók.

Varðandi gámafestingar/lása fyrir krókheysis gáma. Það þarf að skoða virkni þeirra og stuðningsfleti.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kafli 3.6.2.1, (3.7.2.2), 3.7.2.7



Var efnið hjálplegt? Nei