K1 Aksturshemill vökva

Virkni og hemlun vökvahemlakerfa

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum varðandi vökvahemlakerfi (og kerfi sem eru ekki með loftyfirfærslu), auk leiðbeininga um skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

Skoðunaratriði Skýring
1.1.11Hemlarör (vökva og loft)
1.2.1Virkni aksturshemlis
1.2.2Geta aksturshemils


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Hemlaprófari, vökva: Fyrir bifreið, eftirvagn og afturdrifsdráttarvél (með annað en lofthemlakerfi).
  • Hemlaklukka: Fyrir ökutæki sem komast ekki (passa ekki) í hemlaprófara eða sýna enga mælingu í hemlaprófara, s.s. aldrifsdráttarvél, bifhjól og minni þríhjóla og fjórhjóla ökutæki.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Hemlunarkraftar og hemlun


Hemlunarkraftar

Þeir kraftar sem hjól gefa við notkun hemla og lesa má beint af skjá hemlaprófara fyrir hvern ás eða koma fram í útprentunum. Séu hemlunarkraftar sem fást fyrir hvern ás ökutækis lagðir saman fást heildarhemlunarkraftar sem ökutækið hefur gefið við prófun.

Hemlunarkraftar sem nást við hemlaprófun eru háðir því hversu mikið er stigið á hemlafetilinn. Eftir því sem þyngd ássins sem hvílir í prófaranum er meiri og eftir því sem viðnámið á milli hjólbarða og rúllanna í prófaranum er hærra því hærri hemlunarkraftar nást fyrir ásinn.

Hemlunarkraftar eru mældir í einingunni Newton (N), oft með forskeytin daN (dekaNewton sem eru tíu Newton) eða kN (kílóNewton sem eru þúsund Newton), þ.e. 1 kN er sama og 100 daN sem er sama og 1.000 N.

Hemlunarkraftar milli hjóla á sama ási teljast ójafnir um meira en 50% í akstursprófi með hemlaklukku ef annað hjólið dregst á undan hinu.


Hemlun

Hemlun er hlutfall hemlunarkrafta og þyngdar ökutækis, að hluta eða í heild. Hemlun fyrir hvern ás er t.d. þeir hemlunarkraftar sem mælast deilt með þyngd viðkomandi áss, en hemlun ökutækisins miðað við eigin þyngd eru samanlagðir hemlunarkraftar allra ása deilt með eigin þyngdinni.

Hemlun er mæld í m/s2 eða prósentum. Þessar einingar eru oft notaðar jöfnum höndum en prósentan er þó aðeins hærri. Hemlun í prósentum fæst með því að deila með 9,81 í hemlun í m/s2 og margfalda með 100.

  • Dæmi 1: Við hemlaprófun á ás sem vegur 1.000 kg í prófaranum nást samanlagðir hemlunarkraftar á báðum hjólum upp á 6 kN. Hemlunin er því 6 kN / 1.000 kg = 6,0 m/s2 sem þýðir 6,0 / 9,81 = 0,612 = 61%.
  • Dæmi 2: Við hemlaprófun á ás sem vegur 5.000 kg í prófaranum nást samanlagðir hemlunarkraftar á báðum hjólum upp á 30 kN. Hemlunin er því 30 kN / 5.000 kg = 6,0 m/s2 sem þýðir 6,0 / 9,81 = 0,612 = 61%.


Ójafnir hemlunarkraftar (St8.2.3.1)

Mismunur hemlunarkrafta milli hjóla á sama ási. Hlutfallslegur mismunur reiknast sem hlutfall af hemlunarkrafti þess hjóls sem gefur meiri hemlunarkraft. 

  • Dæmi: Við hemlaprófun mælist mestur mismunur þegar annað hjólið sýnir hemlunarkraftinn 2.000 N og hitt hjólið 1.800 N. Mismunurinn er því (2.000 N - 1.800 N) / 2.000 N = 200 N / 2.000 N = 10%. 

Hemlaprófari sýnir á sérstökum mæli hver þessi mismunur er á meðan hemlapróf fer fram og endar yfirleitt á að læsa mælinum í hæsta gildinu. Stigið er jafnt og með vaxandi krafti á hemlafetilinn í prófa og má mismunurinn hvergi á hemlaferlinum fara yfir tilskilin mörk.


Hemlaprófun bifreiða


Hemlaprófun bifreiðar í rúlluhemlaprófara

Ekið í hemlaprófara. Stigið á hemlafetil og gengið úr skugga um að hemlun ökutækis nái tilskildum mörkum með því að láta prófara reikna hemlun miðað við fengna krafta og vigtaða þyngd eða reikna hemlun út frá fengnum kröftum og skráðri eiginþyngd að viðbættum 100 kg.


Hemlaprófun bifreiðar í plötuhemlaprófara

Á hemlaprófara af plötugerð skal ekið á hraðanum 5-8 km/klst og hemlað þar til ökutækið stöðvast á plötunum. Hemlun er lesin af skjá.


Hemlaprófun sídrifsbifreiða

Hemlapróf fyrir sídrifsbifreiðir skal framkvæmt skv. leiðbeiningum framleiðanda bifreiðarinnar, þ.e. með aftengingu seigjutengslis, prófun eins hjóls í einu eða með sérstökum hemlamælitækjum (hemlaklukku).

Algengt er að á gírkassa bifreiðar sé skiptiarmur sem getur aftengt seigjutengsli. Honum er haldið í læstri stöðu með stýrisbolta. Til að aftengja seigjutengslið á að losa boltann nokkra hringi og færa arminn niður. Að aflokinni hemlaprófun verður að færa arminn aftur á sinn stað og herða stýrisboltann. Sjá fleiri aðferðir í töflu 1.


Tafla 1. Aðferðir við hemlaprófun einstakra gerða ökutækja með sídrif.

Tegund Undirtegund Árgerð frá Aðferð
Ford Galaxy 2001Straumlás ótengdur
Mercedes Benz124 4-matic 1987-1991 Rauður rofi hægramegin í vélarhúsi stilltur á Test
""124 4-matic1992-1993Rauður rofi hægra megin í vélarhúsi stilltur á Test og straumlás ótengdur
""210 4-matic1994- Straumlás ótengdur
""163 ML, 203, 211, 220 Straumlás ótengdur
""GL (á ekki við um W124) Straumlás ótengdur
""Geländewagen 460, 461, 463-1993Gírstöng stillt á S
OpelAntara  Fjarlægja þarf öryggi merkt AWD úr öryggisboxi sem staðsett er undir vélarhlíf
Porsche911 Carrera 41989-1993Straumlás ótengdur
SeatAllamra, Leon TT42001-Straumlás ótengdur
SkodaOctavia 4x4 2001-Straumlás ótengdur

""

Octavia Combi 4x41999-Straumlás ótengdur

""

Octavia Superb2001-Straumlás ótengdur
""Yeti2010-Straumlás ótengdur
VolkswagenPassat 2005-Straumlás ótengdur

""

Bora, Golf, Jetta, Tiguan1999-Straumlás ótengdur

""

 Sharan2001-Straumlás ótengdur
VolvoSV40, V50, S60, S80, XC90 Straumlás ótengdur. Gírstöng stillt á N.


Hemlaprófun eftirvagna bifreiða


Hemlaprófun eftirvagna með rafhemla

Stjórnbúnaður rafhemla, sem verður að vera í vagninum sjálfum, skynjar hraðaminnkun bílsins og eykur hemlunina eftir því sem hraðaminnkunin er meiri. Þetta þýðir að þegar vagninn er stopp þá hemlar vagninn ekkert (jafnvel þótt ýtt sé á hemlafetil). Skynjun búnaðarins er stundum tengd hemlafetli (eða hemlaljósi) sem veldur því að rafhemlarnir hemla ekkert nema ýtt sé á hemlafetil þótt verið sé að hægja á.

Til að prófa rafhemla er nær undantekningarlaust sérstakur prófunartakki, stundum sleði (sem rennur alltaf sjálfkrafa í núllstöðu), eða snúningstakki (sem verður að handsnúa til baka í núllstöðu). Til viðbótar er stillitakki sem háður er þyngd vagnsins og á bara að stilla einu sinni (í upphafi) m.v. þyngd vagnsins. Ef skylda er að hafa hleðslustýribúnað er þessi stilling sjálfkrafa breytileg eftir hleðslu vagnsins (sjálfvirkur búnaður). Við prófun hemlanna er prófunartakkinn notaður og hemlarnir þannig virkjaðir.


Hemlaprófun bifhjóla/tví-fjórhjóla


Sjá sérstakt skjal fyrir bifhjól, þar eru m.a. lýsingar á hemlaprófun.


Hemlaprófun dráttarvéla og eftirvagna þeirra


Sjá sérstakt skjal fyrir dráttarvélar og eftirvagna þeirra, þar eru m.a. lýsingar á hemlaprófun.


Sértækar upplýsingar: Samsetning hemlaröra


Samsetning hemlaröra

Á markaðinum eru til samsetningar fyrir bremsurör bæði með lausum kónum og fyrir kónuð rör. Samsetning bremsuröra með lausum kónum eru ekki leyfðar, sjá dæmi á myndum 1 og 2, þar sem svona samsetningar þola ekki 1.000 N ástigskraft á hemlafetil. Samsetningar þar sem rörin eru kónuð, sbr. myndir 3 og 4, eru leyfðar.

Hemlun-mynd13

Mynd 1. Samsetning með lausum kónum sem klemmast utan um rörið þegar samsetningin er hert. EKKI LEYFT.


Hemlun-mynd14

Mynd 2. Sundurtekin samsetning með lausum kónum, þar sem sést hvernig kónninn klemmist utan um hemlarörið. EKKI LEYFT.


Hemlun-mynd15

Mynd 3. Samsetningar fyrir kónuð rör. LEYFT.


Hemlun-mynd16

Mynd 4. Til eru nokkrar útfærslur af því hvernig kónarnir eru formaðir, og eru þá samsetningarstykkin einnig formuð á sama veg. LEYFT.


Sértækar upplýsingar: Ýmsar


Varðar framhemladælur á Chevrolet Blazer (framl. á 8. og 9. áratugnum) (St8.2.2.2)

Til að koma 15” felgum á 8 bolta nafir á Dana 44 ásum þarf í öllum tilfellum að eiga eitthvað við hemlabúnaðinn að framan, misjafnlega mikið eftir því undan hvaða tegundum ásarnir eru. Á ásum undan Chervolet Blazer þarf það lítið til, ef notaðar eru ákveðnar felgur, að það er einungis hið hrjúfa yfirborð hemladælunnar, „appelsínuhúðin”, sem þarf að slípa niður. Þar sem sú aðgerð rýrir ekki styrk dæluhússins að neinu leyti hefur hún verið leyfð á Chevrolet ásum.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

 Dagsetning Efnislegar breytingar
 01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 8.1.5.2, 8.2.3.1, 8.2.3.5, 8.2.3.6, 8.2.4.1-2, 8.2.5.3.



Var efnið hjálplegt? Nei