K6 Farþegafjöldi og sæti

Sæti, farþegafjöldi, dyr

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur til sæta og skráningu farþegafjölda í bifreiðum, auk leiðbeininga um skoðun og breytingar.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
6.2.5Ökumannssæti
6.2.6Önnur sæti
9.4.1Hópbifreið: Farþegasæti (þ.m.t. sæti fyrir fylgdarfólk)
9.4.2Hópbifreið: Ökumannssæti (viðbótarkröfur)


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Krafa um breytingaskoðun


Eftirfarandi breytingar á ökutækjum valda því að framvísa þarf teikningum um skipan fólks- og farmrýmis. Teikningum þarf að framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram, sjá kröfur til teikninga hér neðar:

  • Ökutækjaflokksbreyting yfir í hópbifreið.
  • Breytingar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett).
  • Farþegafjöldabreytingar í hópbifreið.


Sæti og sætafjöldi - hópbifreið


Mæling bils á milli sæta (St3.7.2.5)

Til að mæla bil á milli sæta í hópbifreið skal lárétta fjarlægðin frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan, frá hæsta punkti setu upp í 620 mm yfir gólfi ekki vera minni en 650 mm í hópbifreið I og IIA en 680 í hópbifreið IIB. Þetta á eingöngu við um hópbifreiðir sem skráðar eru 01.03.1993 og síðar. Á hópbifreiðum sem skráðar eru fyrir 01.03.1993 má breidd milli sætaraða ekki vera minni en 750 mm mælt frá sama punkti í hverri sætaröð, þ.e. bak í bak eða setu í setu.


Sérsmíði sæta

Um sérsmíðuð sæti og öryggisbelti í þau, sjá skjal um öryggisbelti og öryggispúða.


Kröfur til teikninga af skipan fólks- og farmrýmis

Teikning af nýrri eða breyttri skipan fólks- og farmrýmis í hópbifreiðum þarf að uppfylla eftirtaldar kröfur og ber að skila teikningu inn til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram.

Teikningin skal vera málsett í SI-einingarkerfinu (m, kg, W, °C) og mælikvarðanum 1:20 eða 1:25 bæði í hliðar- og ofanvarpi. Ekki er skilyrði að hún komi frá framleiðanda.

Teikningin skal sýna eftirfarandi:

  • Teikningin skal sýna lengd, breidd og hjólhaf bifreiðarinnar.
  • Teikningin skal sýna málsetta skipan farþegasvæðis:
    • staðsetningu sæta,
    • breidd, dýpt og mestu hæð setu yfir gólfi,
    • minnsta bil á milli sæta frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan á miðju,
    • sæti í hæðinni frá hæsta punkti setu upp í 620 mm hæð yfir gólfi,
    • frjálsa hæð yfir hæsta punkti álagslausrar setu / breidd og hæð gangs, og
    • staðsetningu og flatarmál stæða, ef einhver eru, í m²).
  • Teikningin skal sýna stærð og staðsetningu farangursgeymslna (ef geymslur eru til staðar):
    • stærð hverrar geymslu í rúmmetrum (m³),
    • staðsetningu / flatarmál hverrar geymslu í fermetrum (m²), og
    • staðsetningu fyrir farangur á þaki ef gert er ráð fyrir því.
  • Teikningin skal sýna (málsett) fyrirkomulag og stærð útganga:
    • fjölda dyra,
    • staðsetningu og mál dyra, og
    • staðsetningu og mál annarra útganga t.d. neyðarglugga og neyðarlúga.


Sæti og sætafjöldi - fólks-, sendi- og vörubifreið


Fjöldi sæta (St3.7.2.6)

Fjöldi sæta fer eftir burðargetu bifreiðarinnar (miðað við 75 kg á ökumann, 68 kg á farþega og 160 kg á sérhvert hjólastólapláss). 

Ekki er leyfilegt að skrá farþega nema fullur burður sé fyrir hann. Fram til 31.12.2023 var heimilt að skrá farþega náði bifreið 40 kg burði upp í næsta farþega og standa þær skráningar óbreyttar svo fremi sé bifreið verði ekki breytt. Verði henn hinsvegar breytt á einhvern hátt svo vigta þurfi hana upp á nýtt þá þarf hún að uppfylla núgildandi kröfur.

Þegar bifreið er færð til breytingaskoðunar vegna breytinga eða fjölgunar á sætum þarf hún að uppfylla öll ákvæði um viðkomandi sæti sem þá eru í gildi í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.


Sérsmíði sæta

Um sérsmíðuð sæti og öryggisbelti í þau, sjá skjal um öryggisbelti og öryggispúða.


Dyrabúnaður


Hurðaropnun (St3.1.2.1)

Á fólksbifreið skal vera hægt að opna a.m.k. tvennar dyr að utanverðu, séu þær ekki læstar að innanverðu, án sérstaks utan að komandi búnaðar, t.d. fjarstýringu eða lausum hurðarhúnum.

Dyrabúnaður fólksbifreiðar sendibifreiðar, vörubifreiðar og eftirvagns telst vera fullnægjandi ef hann uppfyllir ákvæði EB-reglugerðar nr. 661/2009 og ESB-reglugerðar nr. 130/2012, með síðari breytingum. Dyrabúnaður dráttarvélar telst vera fullnægjandi ef ákvæði ESB-tilskipunar nr. 80/720 með síðari breytingum eru uppfyllt


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
27.12.2023
  • Krafa um breytingaskoðun: Leiðrétting, ekki þarf að framvísa teikningum hjá Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram við farþegafjöldabreytingar á öðrum ökutækjum en hópbifreiðum (og hefur aldrei verið, villa slæddist í textann).
  • Sæti og sætafjöldi - fólks-, sendi- og vörubifreið / Fjöldi sæta: Bætt við að miðað sé við 160 kg fyrir sérhvert hjólastólapláss (var ekkert um hjólastólapláss áður). Jafnframt að fullur burður verði að nást fyrir alla farþega (eldri regla um að aðeins 40 kg þurfi nást upp í næsta farþega féll út við útgáfu bókarinnar 01.03.2023 en gleymdist að tilkynna um þá efnislegu breytingu - skráningar sem gerðar hafa verið á þeim forsendum til 31.12.2023 standa því á meðan bifreið er ekki breytt).
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kafli 3.1.2.1, 3.7.2.5-6.




Var efnið hjálplegt? Nei