K5 Stærð ökutækja

Kröfur og mæliaðferðir

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á leyfilegri stærð ökutækja og mælingu þeirra.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
--- Verklagsbók fyrir skráningarskoðanir
--- Breyttar bifreiðir (leiðbeiningaskjal)

Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Mæling á lengd, breidd og hæð ökutækja


Mæling lengdar

Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta sem standa lengst fram og lengst aftur. 

Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengihluta hans að aftasta hluta eftirvagnsins.


Mæling breiddar

Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. 

Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra. Belgur neðst á dekkjum dráttarvéla er ekki talin til breiddar hennar.


Mæling hæðar

Hæð skal mæld hornrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta ökutækisins sem hæst stendur.


Mæling á hjólhafi, ásabili og sporvídd ökutækja


Hjólhaf (e. wheelbase)

Hjólhaf er bilið frá hjólmiðju fremsta áss að hjólmiðju aftasta áss ökutækis, sjá mynd 1. 

Wheelbase Motorcycle-wheelbase Mynd 1. Mæling á hjólhafi.


Ásabil

Ásabil er bilið á milli hjólmiðju tveggja ása, sjá mynd 2.


The-three-axle-vehicle-dimensional-parameters-The-three-axle-vehicle-parameters-m-856 Mynd 2. Ásabilið milli fram- og afturáss er 2,48 m og ásabilið á milli afturása er 1,32 m.


Sporvídd (e. track width)

Sporvídd er bilið milli miðju hjóla á sama ási (eða milli miðju tvöfaldra hjóla).

Bæði er hægt að mæla frá miðjum sóla eða að utanverðu öðru megin að innanverðum sóla hinum megin, sbr. mynd 3.

Wheel-track-width Mynd 3. Sporvídd.


Leyfileg lengd ökutækja


Mesta lengd

  1. hópbifreið með fleiri en tvo ása, 15,00 m,
  2. hópbifreið með tvo ása, 13,50 m,
  3. hópbifreið sem er liðvagn, 18,75 m,
  4. bifreið, önnur en hópbifreið, 12,00 m,
  5. festivagn, 12,00 m,
  6. vagnlest, hópbifreið með eftirvagn eða tengitæki, 18,75 m,
  7. vagnlest, bifreið, önnur en hópbifreið, með festi- eða hengivagni eða samsvarandi tengitæki, 18,75 m,
  8. vagnlest, bifreið önnur en hópbifreið, með tengivagni eða samsvarandi tengitæki, 22,00 m.

Til fróðleiks: Þrátt fyrir ákvæði h-liðar er heimilt að hafa vagnlest bifreiðar með tengivagni þannig að lengdin megi vera allt að 25,25 m þegar (a) lengd farmrýmis tengivagns fer ekki yfir 13,60 m og (b) bifreið og tengivagn eru búin hemlum með læsivörn. Heimild þessi er þó bundin nánari skilyrðum um vegi og tíma, sjá reglugerð um stærð og þyngd.


Að auki gildir

Til fróðleiks: Bifreið, svo og vagnlest, skal vera hægt að aka innan snúningsboga með 12,50 m radíus í ytri hring og 5,30 m radíus í innri hring. Ákvæði þetta telst vera uppfyllt fyrir vagnlest með festivagni ef fjarlægð frá tengipinna vagnsins til miðju fræðilegs afturáss er ekki meiri en 9,20 m.


Sérstakar takmarkanir á lengd

Vagnlest bifreiðar og tengivagns (til fróðleiks):

  • Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar sem er bifreið með tengivagni, frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, að frádreginni fjarlægðinni milli afturenda dráttartækisins og framenda vagnsins, má mest vera 18,90 m.
  • Fjarlægð, mæld samhliða lengdarási vagnlestar með tengivagni frá fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að aftasta hluta tengivagnsins, má mest vera 19,65 m.
  • Fjarlægð milli aftasta áss bifreiðar og fremsta áss tengivagns má ekki vera minni en 3,00 m.

Festivagn:

  • Lárétt fjarlægð frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengipinna að hvaða hluta sem er fremst á festivagninum má mest vera 2,04 m.


Leyfileg breidd ökutækja


Mesta breidd

Leyfileg breidd bifreiðar og eftirvagns er 2,55 m með þeirri undantekningu að yfirbygging jafnhitavagns má vera 2,60 m.

Leyfileg breidd vinnuvélar, eftirvagns hennar eða tengitækis til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m. Lögreglan getur bannað akstur slíkra ökutækja þegar sérstaklega stendur á.

Breidd eftirvagns eða tengitækis, sem bifreið dregur, má ekki vera meiri en sem nemur 30 cm út fyrir hvora hlið bifreiðar.


Leyfileg hæð ökutækja


Leyfileg hæð ökutækis er 4,20 m.


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 3.8.2.2 (uppf). Úr reglugerð um stærð og þyngd.


Var efnið hjálplegt? Nei