K6 Tengibúnaður

Tengibúnaður bifreiða og eftirvagna þeirra

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna kröfur tengibúnaðar bifreiða og eftirvagna þeirra, auk leiðbeininga við skoðun.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Tilskipun ESB um vélrænan tengibúnað vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og festing þeirra við þau ökutæki nr. 94/20/ESB.
  • UN ECE regla um samræmd ákvæði um viðurkenningu á vélrænum tengihlutum samsettra ökutækja nr. 55.
  • Staðall ISO 1103 Ökutæki - Kúlur kúlutengja fyrir létta eftirvagna - Stærðir.
  • Staðall ISO 337 Ökutæki - 50 tengipinni festivagna - Grunnstærðir og festingar á eftirvagn (50,8 mm / 2”).
  • Staðall ISO 4086 Ökutæki - 90 tengipinni festivagna - Festingar á eftirvagn (88,9 mm / 3 ½”).
  • Staðall ISO 3842 Ökutæki - Stóltengi - Festingar á bifreið.
  • Staðall ISO 8755 Atvinnuökutæki - 40 mm auga boltatengis - Festingar á eftirvagn.
  • Staðall ISO 1102 Atvinnuökutæki - 50 mm auga boltatengis - Festingar á eftirvagn.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

 SkoðunaratriðiSkýring
 6.1.6Tengibúnaður


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).
  • Handverkfæri - mátar: Fyrir mælingu á sliti og skemmdum á tengibúnaði (valkvæður búnaður).

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Almennt um tengibúnað á bifreiðum


Skráning tengibúnaðar í ökutækjaskrá (St9.1.2.1)

Tengibúnaður vélknúins ökutækis skal skráður í ökutækjaskrá að undangenginni úttekt skoðunarstofu (skráð að tengibúnaður sé á ökutækinu).

Þyngdir hemlaðs- og óhemlaðs eftirvagns eða tengitækis sem heimilt er að tengja við ökutækið skulu jafnframt skráðar í ökutækjaskrá (ef þær vantar) skv. fyrirmælum framleiðanda ökutækisins eða tengibúnaðarins. Á tengibúnaði bifreiða skal vera merking um framleiðanda og mestu leyfðu heildarþyngd sem tengja má við tengibúnaðinn. Ef fyrirmæli framleiðanda ökutækisins um þyngdir hemlaðs eftirvagns eru ekki þekkt, skal sú þyngd sem framleiðandi tengibúnaðarins gefur upp skráð í reitinn fyrir heimila þyngd hemlaðs eftirvagns.

Undanþága: Heimilt var að leyfa tengibúnað sem var án merkinga, sem festur hafði verið við bifreið fyrir 01.07.1991, en sá tengibúnaður skal samt sem áður að öðru leyti vera háður samþykki skoðunarstofu og skráður í ökutækjaskrá (ekki þarf að skrá heimila þyngd eftirvagns).


Merkingar um mestu leyfðu heildarþyngd (St9.1.2.1)

Á sumum gerðum tengibúnaðar eru ekki merkingar um mestu leyfða þyngd sem tengja má við tengibúnaðinn, heldur gefið upp D-gildi. D-gildi er reiknað út frá leyfðum heildarþyngdum bíls og eftirvagns. Til að finna leyfða þyngd eftirvagnsins út frá D-gildi þarf að reikna það út frá eftirfarandi formúlu.

V=(B*D)/(B-D)

þar sem

  • = Leyfð þyngd eftirvagns (í kg).
  • = Heildarþyngd bifreiðar (í kg).
  • D = D-gildi í DaN (sem er kNx100 eða N/10).


Útfærsla merkinga á tengibúnaði (St9.1.2.3)

Á tengibúnaði bifreiðar skal vera greinileg og varanleg merking um framleiðanda og mestu leyfða heildarþyngd eftirvagns sem tengja má við tengibúnaðinn.

Framleiðandi tengibúnaðar skal merkja framleiðslu sína í samræmi við þol búnaðarins og geta einstakir hlutar tengibúnaðar haft mismunandi álagsþol. Þegar um slíka samsetningu er að ræða skulu allar einingarnar merktar. Bolta- og stóltengi eru gjarnan skrúfuð eða boltuð saman og mynda þannig eina heild. Ef ein merking er á búnaðinum túlkast hún fyrir allt tengið.

Þær upplýsingar sem skulu koma fram á merkingu hlutar samanstanda af eftirfarandi þremur liðum:

  1. Nafni framleiðanda (vörumerki, framleiðslumerki eða samsvarandi).
  2. Gerð (og útfærslu ef við á).
  3. Burðarþolstölum (a.m.k. mesta leyfða heildarþyngd eftirvagns).

Merkinguna má útfæra á tvennan hátt:

  1. Með notkun spjalds og stansaðra stafa á hlut. Allar upplýsingarnar þurfa að koma fram á spjaldinu, en nægilegt er að aðeins gerðin sé stönsuð í hlutinn. Spjaldið skal vel fest (hnoðað, skrúfað eða límt).
  2. Eingöngu stansaðir stafir á hlut. Nauðsynlegt að allar upplýsingarnar séu stansaðar á hlutinn.

Allar merkingar skulu vera varanlegar og vel læsilegar. Æskilegt er að hæð stansaðra stafa sé ekki minni en 8 mm, þó aldrei minni en 6 mm.


Tengibúnaði breytt í dráttarbúnað

Ef bíleigandi óskar þess að fá að nota dráttarkúlu sem dráttarbúnað en ekki tengibúnað er ekkert því til fyrirstöðu svo framarlega sem kúlunni er breytt þannig að ekki sé hægt að setja hanska á hana.


Leyfilegar tegundir tengibúnaðar eftir ökutækjaflokkum (St9.1.2.4)

Við bifreið, bifhjól og dráttarvél má aðeins tengja einn eftirvagn í einu. Ökutæki mega hafa eftirfarandi gerðir tengibúnaðar (og aðrar ekki):

Kúlutengi:

  • Dráttartæki: Bifreið, bifhjól og dráttarvél (bifreið og dráttarvél má hafa önnur tengi að auki). 
  • Eftirvagn: Eftirvagn I og II með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna. Eftirvagn dráttarvélar óháð leyfðri heildarþyngd.

Boltatengi:

  • Dráttartæki: Bifreið sem gerð er til þess að draga tengi- eða hengivagn sem er yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, önnur en fólksbifreið sem er að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna. Dráttarvél (óháð þyngd eftirvagns).
  • Eftirvagn: Eftirvagn III og IV sem er af undirflokki tengi- eða hengivagn yfir 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd. Eftirvagn dráttarvélar óháð leyfðri heildarþyngd.

Stóltengi:

  • Dráttartæki: Bifreið, önnur en fólksbifreið að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna. 
  • Eftirvagn: Festivagn.

Sjá nánar í köflunum um sérhverja gerð tengis.


Kúlutengi


Leyfilegar gerðir kúlutengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)

Leyfilegar gerðir kúlutengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.

Leyfileg gerð kúlutengis fyrir bifreið:

  1. Kúla með 50 mm þvermáli og skv. ISO 1103 (sjá mynd 1).

TengibunKula1 Mynd 1. Kúlutengi á bifreið.


Leyfileg gerð kúlutengis á bifhjóli:

  • Kúla með 50 mm þvermáli og samkvæmt ISO 1103.


Leyfileg gerð kúlutengis á dráttarvél:


Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)

Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:

  1. Fjarlægð að yfirbyggingu bifreiðar - fjarlægðin frá ytri brún kúlu að nálægasta hluta yfirbyggingar er mæld.
  2. Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðri kúlu að ytri brúnum afturljósa borin saman, á eftirvagni/tengitæki er fjarlægðin frá miðlínu hanska að ytri brúnum ökutækisins borin saman.

Staðsetning skal vera sem hér segir:

  1. Fjarlægð að yfirbyggingu bifreiðar - dæmt ef fjarlægðin er < 30 mm eða > 100 mm að kúlu.
  2. Lárétt miðlína - dæmt ef kúla er > 20 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef hanski er > 30 mm frá miðlínu eftirvagns/tengitækis.


Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)

Almennt eru prófílar (rör, skúffur, vinklar, ferkantar) sterkara heldur en flatjárn, stangir, plötur og annað álíka. Prófíla skal því nota í þá hluta festigrindarinnar sem verða fyrir mestu álagi, s.s. þver- og langbita. Plötur eða flatjárn eru notuð í styrkingar við samskeyti bita, einnig sem festiplötur með boltagötum sem soðnar eru við bitaendana. Festigrind sem byggð er upp af þunnu flatjárni sem kúlan festist í er ekki samþykkt.

Skyndilegar formbreytingar eru hættulegar gagnvart sprungumyndunum. Þetta geta verið breytingar í efnisþykktum, raufar, skörð o.fl. Biti í festigrind sem búið er að veikja með því að brenna hluta hans í burtu (t.d. fyrir púströrið eða annað álíka) er ekki samþykkt.

Festigrind skal bolta við bifreið með boltum með lágmarks styrk 8.8. Rær á boltum skulu ekki geta losnað af sjálfu sér. Boltagöt á festigrind skulu vera hringlaga og henta boltunum sem notuð eru. Þó er leyfilegt að þverstæð aflöng göt séu fyrir bolta sem skrúfast lóðrétt upp eða niður í bifreiðina og er mesta leyfilega lengd slíkra gata 20 mm.

Ekki er leyfilegt að sjóða festigrind við bifreið nema með samþykki framleiðanda bifreiðarinnar. Suður eru mismunandi góðar og sérstaklega varasamar þegar mismunandi efnismiklir hlutar eru soðnir saman, þá hentar oft ekki sama suðuaðferðin báðum hlutunum.


Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)

a) Kúla

Lágmarksþvermál kúlu er 49 mm.

Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eftir hnjask af völdum vagns

b) Tengihanski

Hámarksþvermál tengihanska er 50 mm.


Stóltengi


Leyfilegar gerðir stóltengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)

Leyfilegar gerðir stóltengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.

Leyfilegar gerðir stóltengja fyrir bifreið (sjá mynd 2):

  1. Stóll með læsingu fyrir 50,8 mm (2”) tengipinna. Tengipinninn skal vera skv. 94/20/ESB eða ISO 337, en stóllinn má vera framleiddur í samræmi við 94/20/ESB og festur með festingum sem eru skv. ISO 3842.
  2. Stóll með læsingu fyrir 88,9 mm (3 ½”) tengipinna. Tengipinninn skal vera skv. ISO 4086, en stóllinn má vera framleiddur í samræmi við 94/20/ESB og festur með festingum sem eru skv. ISO 3842.


TengibunStoll1 Mynd 2. Stóltengi - stóllinn á dráttarbifreiðinni.


Leyfilegar gerðir stóltengja á bifhjól og dráttarvél:

  • Ekki leyfð.


Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)

Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:

  1. Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðlínu stóls að ytri brún grindar borin saman, á festivagni er fjarlægðin frá miðlínu tengipinna að ytri brúnum festivagnsins borin saman.

Staðsetning skal vera sem hér segir:

  1. Lárétt miðlína - dæmt ef stóll er > 30 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef pinni er > 30 mm frá miðlínu festivagns.


Ljós og rofi fyrir færanlegan tengistól (St9.1.3.6)

Rofi prófaður með því að ýta á hann. Rofinn á að ganga til baka þegar honum er sleppt. Ljós prófað um leið og læsing er prófuð (á að gefa til kynna í hvaða stöðu læsingin er. þ.e. læst eða ólæst). Læsing stóls prófuð með því að halda rofanum inni, færa stólinn úr læsingu (sé engin vagn í stólnum er hann færður til með handafli, sé vagn í stólnum er honum hemlað með stöðuhemli og bílinn færður aðeins til), rofanum er þá sleppt og stólnum aftur ýtt í læsinguna. Stóllinn ætti þá að læsast aftur og ljósið að sýna viðeigandi stöðu.


Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)

Stóllinn skal hafa a.m.k. 8 göt með 17 mm þvermáli (eða stærri) sem eru samhverf um lengdar- og þverás stólsins. Þó er leyfilegt að hafa aflöng þverstæð göt. Boltar sem festa stólinn skulu vera a.m.k. af stærðinni M16, af lágmarks styrk 8.8 og skulu þeir henta götunum. Boltunum skal ætíð komið fyrir samhverft um lengdar- og þverás stólsins. Stólinn skal bolta við festiplötu eða -grind með a.m.k. 8 boltum ef stóllinn er fyrir 50,8 mm (2”) tengipinna, en a.m.k. 12 boltum ef stóllinn er fyrir 88,9 mm (3½”) tengipinna.

Stól má ekki festa á grind vörubifreiðar nema samkvæmt fyrirmælum framleiðanda.


Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)

a) Stóll LS

Heildarhlaup milli tengipinna og tengiklóar má ekki vera meira en 5 mm (sjónskoðun). Að öllu jöfnu má ekki koma fram neitt hlaup í dráttarstólum sem hafa sjálfvirka stillingu til þess að vega upp á móti sliti.

b) Tengipinni

Lágmarksþvermál tengipinna: Brjóst Mitti

  • 50,8 mm (2”) 71 mm 49 mm
  • 88,9 mm (3 ½”) 112 mm 86 mm

Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eða plötu eftir hnjask af völdum vagns.

Lengd tengipinna:

  • 50,8 mm (2”) 82,5 – 84 mm
  • 88,9 mm (31/2”) 70 – 71,5 mm


Boltatengi


Leyfilegar gerðir boltatengja (St9.1.5.1 St9.1.2.4)

Leyfilegar gerðir boltatengja fyrir dráttartæki og samsvarandi mótstykki á þá við um eftirvagninn sem það dregur.

Leyfilegar gerðir boltatengja fyrir bifreið (sjá mynd 3):

  1. 40 mm bolti og skv. ISO 8755.
  2. 50 mm bolti og skv. ISO 1102 eða ECE reg. nr. 55.
  3. 57 mm bolti skv. eldri reglum.


TengibunBolti1 Mynd 3. Boltatengi - á bifreiðinni.


Leyfileg gerð boltatengis á bifhjóli:

  • Ekki leyft.


Leyfileg gerð boltatengis á dráttarvél:


Tengibúnaður ranglega staðsettur (St9.1.3.3 St9.1.4.3)

Ekki staðsettur skv. fyrirmælum framleiðanda. Mæling með málbandi. Að auki gildir eftirfarandi:

  1. Fjarlægð að yfirbyggingu/grind bifreiðar - fjarlægð frá ytri brúnum tengis að nálægasta hluta yfirbyggingar/grindar mæld.
  2. Fjarlægð handfangs að yfirbyggingu/grind bifreiðar - tengið sjálft og handfang þess sett í óhagstæðustu stöðu og lóðrétta fjarlægðin frá handfanginu mæld í þann hluta yfirbyggingar/ grindar sem næst er, endurtekið fyrir mælingu á láréttri fjarlægð.
  3. Lárétt miðlína - á bifreið er fjarlægðin frá miðlínu bolta að ytri brún grindar borin saman, á eftirvagni/tengitæki er fjarlægðin frá miðlínu dráttarauga að ytri brúnum ökutækisins borin saman (stýrður ás skal stefna beint fram).
  4. Lóðrétt hæð - við eiginþyngd bifreiðar er hæð frá jörðu upp í miðjan bolta mæld, við eiginþyngd eftirvagns/tengitækis er hæð frá jörðu upp í mitt dráttarauga mæld þegar eftirvagn stendur láréttur.
  5. Lárétt fjarlægð að öftustu brún - fjarlægð milli miðju boltans og öftustu brúnar ökutækisins mæld.

Staðsetning skal vera sem hér segir:

  1. Fjarlægð að yfirbyggingu/grind bifreiðar - dæmt ef fjarlægðin er < 10 mm (hvernig sem því er snúið og staða þess er).
  2. Fjarlægð handfangs frá yfirbyggingu/grind bifreiðar - dæmt ef lóðrétta fjarlægðin er < 60 mm og ef lárétta fjarlægðin er < 100 mm.
  3. Lárétt miðlína - dæmt ef bolti er > 30 mm frá miðlínu bifreiðar, dæmt ef dráttarauga er > 30 mm frá miðlínu eftirvagns/tengitækis.
  4. Lóðrétt hæð - dæmt ef hæðin er utan 900 ± 100 mm markanna.
  5. Lárétt fjarlægð að öftustu brún - dæmt ef fjarlægðin er > 420 mm, þó er leyfilegt að fjarlægðin sé meiri ef eitthvert eftirfarandi tilfella kemur upp (að því gefnu að auðveld og örugg notkun boltatengisins sé enn til staðar):
    1. fjarlægð allt að 650 mm er leyfileg ef yfirbygging er hallandi að aftan eða búnaður er festur aftan á ökutækið,
    2. fjarlægð allt að 1320 mm er leyfileg ef hindrunarlaus hæð frá jörðu er a.m.k. 1150 mm,


Festing tengibúnaðar við ökutæki (St9.1.4.1)

Boltatengi skal festa á ökutæki á þann hátt að notkun þess sé auðveld og örugg. Til viðbótar við þær aðgerðir að opna (og loka ef slíkt er notað) er einnig átt við athugun á stöðu boltans í tenginu (með sjónskoðun og átaki).

Stjórnandi tengisins má ekki vera í hættu við stjórnun tengisins, t.d. vegna skarpra brúna, horna o.fl., og skal hönnun á umhverfi tengisins taka mið af því. Ekkert má hindra stjórnanda tengisins í að víkja sér snögglega frá til beggja hliða. Hverskonar undirvörn má ekki hindra stjórnanda tengisins í að koma sér hæfilega fyrir við vinnu sína.


Slit utan leyfilegra marka (St9.1.4.2)

a) Bolti

Lágmarksþvermál brjóstsins á bolta boltatengis er eftirfarandi:

  • 36,5 mm fyrir 40 mm bolta
  • 46,0 mm fyrir 50 mm bolta
  • 55,0 mm fyrir 57 mm bolta

Yfirleitt slitnar kúla boltatengis niður fyrir lágmark áður en neðri fóðring boltatengisins slitnar meira en leyfilegt er.

Áslægt hámarksslag dráttarauga í boltatengi (upp og niður) er 6 mm.

Ekki þarf að gera athugasemdir við rispur og spor í tengibúnaði eftir hnjask af völdum vagns.

b) Dráttarauga

Hámarksþvermál auga:

  • 41,5 mm fyrir 40 mm dráttarauga
  • 52,5 mm fyrir 50 mm dráttarauga
  • 59,5 mm fyrir 57 mm dráttarauga

Festing slithrings: Slithringur skal sitja fastur og vera vel festur, þ.e. valsaður, pressaður eða soðinn. Um suðu gildir eftirfarandi sem viðmiðun:

  • Heill slithringur: Suða á afturbrún 10 15 mm
  • Raufaður hringur: Suða á fram og afturbrún 8 10 mm


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kafli 9.1.2.1, 9.1.2.3-4, 9.1.3.3, 9.1.3.6, 9.1.4.1-3, 9.1.5.2.



Var efnið hjálplegt? Nei