K6 Þyngd ökutækja

Skráning og vigtun

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum er varða mælingu á eiginþyngd ökutækis, auk leiðbeininga um skoðun og skráningu hennar.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Dæmingar á annmarka er að finna í skoðunaratriðahluta handbókarinnar. Samantekt skoðunaratriða sem koma fyrir í skjalinu:

SkoðunaratriðiSkýring
--- Verklagsbók fyrir skráningarskoðanir
--- Breyttar bifreiðir (leiðbeiningaskjal)


Kröfur til mælitækja


Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

  • Þyngdarmælibúnaður: Vog í hemlaprófara til að meta eiginþyngd út frá mældum ásþyngdum vegna mögulegs samanburðar við upplýsingar á vigtarseðli. Þetta mat má ekki nota í öðrum tilgangi.
  • Vigtarseðill frá löggiltri vog: Mæling er framkvæmd af löggiltum vigtarmanni á löggiltri vog, sjá kaflann um mælingu á eigin þyngd ökutækis.

Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


Eigin þyngd ökutækis - skilgreining


Eigin þyngd ökutækis er sú “þyngd ökutækis, sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði, sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum o.þ.h.”, án ökumanns. 

Frá 01.06.2022 var farið að skrá eigin þyngd með ökumanni. Fastri tölu, 75 kg, var því bætt við ofangreinda skilgreiningu frá þeim tíma.

Skoðunarstofa sendir alltaf til Samgöngustofu á US.111 þær þyngdartölur sem fram koma á vigtarseðli (Samgöngustofa sér um að vinna úr þeim upplýsingum og bæta við 75 kg eftir því sem við á).


Mæling á eigin þyngd - vigtarseðill


Vigtarseðill er skjal sem löggiltur vigtarmaður gefur út að lokinni vigtun á löggiltri vog til staðfestingar á þyngd þess sem vegið er.

Við vigtun ökutækja skal miðað við þær séu í því ástandi að gefa raunsannar upplýsingar um eiginþyngd miðað við skilgreiningu á eiginþyngd (fyrri kafli). Að auki gildir:

  • Heimilt er að vigta vöru- og hópbifreið (ekki fólks- eða sendibifreið) þótt eldsneytisgeymir hennar sé ekki fullur, enda leggi vigtarmaður þá mat á magn í geymi (út frá eldsneytismæli, 25%, 50% eða 75%). Til að skoðunarstofa geti móttekið vigtarseðilinn skulu fylgja með upplýsingar um stærð eldsneytisgeymanna og ber eigandi (umráðandi) ábyrgð á að útvega þær upplýsingar frá umboði ökutækis, framleiðanda, tækniþjónustu eða frá sambærilegum aðila.
  • Hafi eldsneytisgeymar bifreiða verið stækkaðir eða þeim fjölgað skal við vigtun og skráningu eiginþyngdar einungis miða við eldsneytismagn sem samsvarar upphaflegri geymastærð bifreiðarinnar.
  • Við móttöku vigtarseðils í skoðunarstofu (í tengslum við skoðun ökutækis) má hann ekki vera eldri en 7 daga gamall.

Við vigtun á ökutækjum tekur Samgöngustofa eingöngu gilda vigtarseðla sem uppfylla eftirtalin skilyrði um innihald (mælt er með að nota form US.114, sem finna má á heimasíðu Samgöngustofu):

  • Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækis sem vigtað var.
  • Nafn vigtar.
  • Nafn löggilts vigtarmanns og fyrstu sex tölurnar í kennitölu hans. Skilyrði er að vigtarmaður sé skráður á lista HMS yfir löggilta vigtarmenn á vigtunardegi.
  • Dagsetning vigtunar.
  • Staða akstursmælis ökutækisins (sé það búið akstursmæli).
  • Staðfesting vigtarmanns á magn eldsneytis í geymum (samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda, frekari upplýsingar á vigtarseðli).
  • Eigin þyngd ökutækisins í kílóum.
  • Vegna vigtunar á hópbifreið og breyttri bifreið: Ásþyngdir í kílóum (eða nægar upplýsingar til að hægt sé að reikna þær).
  • Undirskrift og/eða stimpill löggilts vigtarmanns. 
  • Nafn og undirskrift þess sem fór með ökutækið í vigtun.

Ef einhverjar þessara upplýsinga koma ekki fram eða eru ófullnægjandi, er vigtarseðillinn ógildur. 

Ef tilefni er til að ætla að vigtarseðillinn sýni ekki raunverulega eiginþyngd ökutækisins, er hann ógildur. Þetta á t.d. við ef hemlaprófari sýnir 20% frávik frá vigtarseðli, þyngd ökutækisins er frábrugðin skráðri þyngd annarra sambærilegra ökutækja, eða magni í eldsneytistanki ber ekki saman við dagsetningu vigtarseðils og akstursmæli bifreiðar (ný bifreið).


Breyting eigin þyngdar - krafa um breytingaskoðun


Í eftirfarandi tilvikum skal framvísa vigtarseðli sem sýnir nýja eigin þyngd ökutækisins þegar það er fært til breytingaskoðunar. Eigin þyngd skal breytt í samræmi við vigtarseðil ef munur á vigtarseðli og skráðri eigin þyngd er meiri en 50 kg:

  • Breytingar eru gerðar á fjölda og/eða gerð ása vörubifreiða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda.
  • Breytingar eru gerðar á grind og yfirbyggingum vöru- og hópbifreiða samkvæmt fyrirmælum framleiðanda.
  • Breytingar eru gerðar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett).
  • Gerðar eru breytingar á farþegafjölda (bæði í hópbifreið og öðrum ökutækjum).
  • Breytingar eru gerðar á gerð eða stærð hreyfils eða viðbótarorkugjafa.
  • Við úttekt á sérbúnaði fyrir hreyfihamlaða ökumenn.
  • Þegar veigamiklum atriðum bifreiðar hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda (verður breytt bifreið).
  • Notkunarflokki er breytt í húsbifreið eða rallbifreið, og líka ef breytt er til baka í almenna notkun úr þessum notkunarflokkum.
  • Ökutækið er fært milli ökutækjaflokka (þarf þó ekki ef fólksbifreið eða sendibifreið er færð til baka í upprunalegt horf því þá má nota fyrra gildi).

Að auki skal vigtarseðli framvísað í skráningarskoðun hafi eigin þyngd ekki verið skráð á ökutækið (sjá verklagsbók fyrir skráningarskoðanir).


Breytingasaga skjalsins


Hér sjást efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra. Breytinga er ekki getið nema þær hafi efnisleg áhrif (ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins).

DagsetningEfnislegar breytingar
01.02.2024
  • Aðeins verður nú heimilt að vigta vöru- og hópbifreiðir með eldsneytisgeyma sem eru ekki fullir (mátti áður fyrir alla ökutækisflokka). Að auki bætt við þeirri kröfu, að í þeim tilvikum skuli umráðandi skila með vigtarseðlinum til skoðunarstofu staðfestingu á stærð geymanna (frekari upplýsingar að finna á vigtarseðlinum).
  • Ekki þarf að skrá nema fyrstu sex tölustafina í kt vigtarmanns.
  • Sá sem undirritar getur nú verið annar en eigandi (eða umráðandi), enda sá sem færir ökutækið til vigtunar. Reit fyrir nafni hans bætt við (ritar bæði nafn sitt og undirritar).
13.02.2023Framvísun vigtarseðils er ekki krafist ef fólksbifreið eða sendibifreið er færð til baka í upprunalegt horf (átti við um alla ökutækjaflokka áður). 
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 3.8.2.1, 3.8.4.1, 3.8.4.2, 3.8.5.1. Uppfært.


Var efnið hjálplegt? Nei