Notkunarflokkur

Húsbifreiðir

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum til húsbifreiða og leiðbeiningar um skoðun og skráningu á þeim.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
  • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.
  • Reglugerð ESB um viðurkenningar og eftirlit á gerð og búnaði ökutækja nr. 2018/858/ESB.


Skilgreining notkunarflokksins


Húsbifreið er fólksbifreið sem búin er sérstöku íbúðarrými (e. living accommodation space) sem útbúið er eftirtöldum búnaði (sbr. reglugerð 2018/858/ESB):

  1. sætum og borði,
  2. svefnaðstöðu sem má vera gerð úr sætum,
  3. eldunaraðstöðu, og
  4. geymsluaðstöðu.

Þessi búnaður á að vera varanlega festur í íbúðarrýminu. Þó má útbúa borðið þannig að það sé auðveldlega hægt að fjarlægja það.

Megináherslur við hönnun húsbifreiða er að geta búið í bílnum fremur en á akstur hans, segja má að húsbifreiðir séu "hús á hjólum". Af því leiðir að hvaða bifreið sem er verður ekki breytt í húsbifreið.

Nánari lýsing og túlkun er í næstu undirköflum.


All Motorhomes - Thor Motor Coach


Skráning notkunarflokksins


Notkunarflokkur "Húsbifreið"

  • Skráningarheimild: Það er heimilt (ekki krafa) að skrá bifreið í þennan notkunarflokk uppfylli hún kröfurnar sem lýst er í þessu skjali.
  • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sérstök regla tekur til hans í reglugerð um skoðun ökutækja.
  • Notkun: Bifreið í notkunarflokknum ber að færa til skoðunar í maí á skoðunarári óháð skráningarmerki. Tryggingarfélög hafa líka nýtt sér notkunarflokkinn til að bjóða önnur kjör á tryggingum.


Íbúðarrými


Svæðið getur verið hluti af innrými ökutækisins (innangengt milli íbúðarrýmis og ökumannsrýmis) eða sérstakt svæði án möguleika á að færa sig yfir í ökumannsrými (nema fara út úr ökutækinu).

Til samræmis við megináherslur um hönnun húsbifreiða má teljast eðlilegt að lofthæð í íbúðarrými sé nægileg til að fullorðið fólk geti athafnað sig þar án þess að bogra. Einnig að hægt sé að ganga beint inn í íbúðarrýmið utanfrá. 


Sæti og matborð


Í íbúðarrýminu skal vera matborð fyrir íbúa bílsins sem þeir geta setið við og neytt matar. Heimilt er að fella borðið niður á meðan það er ekki í notkun sem slíkt, eða jafnvel fjarlægja alveg með auðveldum hætti. Fjöldi sæta og stærð borðs skal að jafnaði rúma þann fjölda íbúa sem svefnaðstaðan rúmar.

Sæti skulu vera traust og fest á viðurkenndan hátt. Á þeim mega ekki vera hvassar brúnir eða útstæðir hlutir sem geta valdið meiðslum við snögga hemlun eða árekstur. Sæti farþega skulu þannig gerð að þau séu þægileg í notkun.

Öryggisbelti skulu vera í öllum sætum frá 01.10.2005 (þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum). Hliðarvísandi sæti eru óheimil. Sjá reglur um öryggisbelti í eldri bifreiðum í sérstöku skjali um öryggisbelti og púða.


Svefnaðstaða


Í íbúðarrýminu skal vera svefnaðstaða fyrir a.m.k. einn einstakling. Aðstöðuna má t.d. útbúa úr sætum bílsins og borði. Hana þarf að vera hægt að setja upp með einföldum hætti og án notkunar verkfæra. Eftir að rúm hefur verið sett upp á að vera hægt að loka bifreiðinni (dyrum).

Miða skal við að 70 cm rúmbreidd sé lágmark fyrir sérhvern einstakling og rúm nái að minnsta kosti 170 cm lengd. 


Eldunaraðstaða


Í íbúðarrými skal vera eldunaraðstaða sem samanstendur af vaski og eldavél. Þessi búnaður á að vera fastur í bifreiðinni og hluti af innréttingu hennar. Það á að vera hægt að nota eldunarbúnað á meðan íbúar eru inni í bílnum og með dyr lokaðar (s.s. í slæmu veðri).

  • Vaskur með krana og rennandi vatni. Auðvelt á að vera að fara með ferskvatnsílát og fylla á hann og taka burt frárennslisílát og tæma á viðeigandi hátt fyrir utan bílinn.
  • Eldavél sem föst er við innréttingu bíls, s.s. gas- eða rafmagnshellur. Gas- og raflagnir að eldavél þurfa að vera fastar. Ganga þarf frá gaskút með viðeigandi hætti, sjá leiðbeiningar í sérstöku skjali.

Heimilt er að loka eldunarbúnað af á meðan hann er ekki í notkun, jafnvel taka hann í sundur að einhverju leyti án notkunar verkfæra (en ekki fjarlægja hann í heilu lagi).


Geymsluaðstaða


Geymslur þurfa að vera fyrir m.a. farangur og eldhúsáhöld. Horft er til þess að geymslur séu formlegir geymslustaðir fyrir þessa hluti. Í íbúðarrými geta þetta verið lokaðir skápar, kistur eða skúffur en geta líka verið sérstakar hillur (opnar) uppi við loft. Að auki geta verið geymslur sem aðgengilegar eru utanfrá (eða bæði utanfrá og innanfrá) fyrir stærri hluti, t.d. útilegubúnað og annan farangur.


Slökkvitæki


Húsbifreið á að vera búin slökkvitæki sem samsvarar 2 kg slökkvimætti dufts og viðurkennt fyrir A, B og C brunaflokka (sjá nánar í sérstöku skjali um slökkvitæki og sjúkrakassa).


Gas, gasbúnaður og gaslagnir


Sjá leiðbeiningar í sérstöku skjali um gashylki, gaslagnir og gastæki.


Breytingasaga skjalsins


DagsetningEfnislegar breytingar
01.01.2023Nýtt skjal. Efni tekið úr reglugerðum og tilskipunum.


Var efnið hjálplegt? Nei