Bifreiðar

Umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi þann 1. janúar 2020. Hér að neðan er samantekt á helstu nýmælum laganna er varða bifreiðar. Ábendingar um framsetningu samantektarinnar má senda á vefur@samgongustofa.is.

 

Lögboðin ökuljós

Í lögunum eru ákvæði er varða lögboðin ökuljós.  Þau skulu ávallt vera kveikt að framan og aftan, óháð aðstæðum. 

Samanber 34. grein og 3. grein laganna lið 46.

Við akstur vélknúins ökutækis skulu lögboðin ökuljós ávallt vera tendruð.

Ökuljós: Lögboðin aðalljós eða dagljós sem loga að framan og að aftan á ökutæki.

Snjalltæki

Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.

Samanber 57. grein laganna

Stjórnanda ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta aksturinn, án handfrjáls búnaðar.

 

Akstur án réttinda

Svipta skal þann sem ekið hefur ökutæki án þess að hafa fengið til þess réttindi til að öðlast ökuskírteini í fjóra mánuði og framlengja í fjóra mánuði fyrir hvert skipti sem ekið er án réttinda. Ef svipta þarf þann sem ekki hefur náð tilskildum aldri til að aka ökutæki, skal miða við þann dag sem hann nær tilskildum aldri.

Samanber 58. grein laganna.

Svipta skal þann sem ekið hefur ökutæki án þess að hafa fengið til þess réttindi til að öðlast ökuskírteini í fjóra mánuði. Hafi viðkomandi ekki náð tilskildum aldri þegar brotið var framið skal miða sviptinguna við þann dag er hann nær tilskildum aldri, en að öðrum kosti gilda almennar reglur um upphaf sviptingartíma. Framlengja skal sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini um fjóra mánuði fyrir hvert skipti sem ekið er án ökuréttinda.

Ölvunarakstur

Í lögunum telst ökumaður ekki geta stjórnað ökutæki örugglega ef vínandamagn mælist 0,2‰ í blóði hans. Hlutlægu mörkin sem segja til um það hvort ökumaður geti stjórnað ökutæki örugglega eru því lækkuð úr 0,5‰ í 0,2‰. Refsimörk verða þó áfram miðuð við 0,5‰ og verður ökumönnum því ekki gerð refsing nema áfengi í blóði mælist yfir 0,5‰.

Samanber 49. grein laganna

Enginn má stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum áfengis.
Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,20‰, en er minna en 1,20‰, eða magn vínanda í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrammi í lítra lofts, en er minna en 0,60 milligrömm, eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt magn vínanda í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.
Ef magn vínanda í blóði ökumanns nemur 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.

Vanhæfismörk vegna lyfja

Ráðherra er veitt heimild til að setja reglugerð þar sem kveðið er á um vanhæfismörk vegna lyfja sem hafa áhrif á aksturshæfni. Þannig verður ráðherra heimilt að setja reglur sem kveða á um það með hlutlægum hætti hvenær ökumenn teljast ekki geta stjórnað ökutæki örugglega vegna neyslu lyfja.

Samanber 48. grein laganna

Ráðherra er heimilt að kveða á um vanhæfismörk með nánari hætti í reglugerð, þ.e. hvenær ökumaður teljist vera óhæfur til að stjórna ökutæki vegna neyslu lyfja.

Skráningarskylda vinnuvéla

Vinnuvélar sem ætlaðar eru til aksturs í umferð eru skráningarskyldar.

Samanber 72. grein laganna.

Eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis ber ábyrgð á skráningu þess í ökutækjaskrá og að skráningarmerki sé sett á það áður en það er tekið í notkun. Sama á við um eftirvagn vélknúins ökutækis.

Skoðunarskylda dráttarvéla

Dráttarvélar sem hannaðar eru til aksturs yfir 40 km hraða á klst. og eru aðallega notaðar á opinberum vegum eru skoðunarskyldar.

Samanber 74. grein laganna.

Ökutæki, skráð hér á landi, sbr. 1. mgr. 72. gr., skal færa til reglubundinnar almennrar skoðunar (aðalskoðunar) í samræmi við reglur sem ráðherra setur á grundvelli 3. mgr. Ákvæðið gildir þó ekki um dráttarvélar, aðrar en þær sem hannaðar eru til aksturs yfir 40 km hraða á klst. og eru aðallega notaðar á opinberum vegum...

Viðvörunarþríhyrningur og hættuljós

Nú er skylda að setja upp viðvörunarþríhyrninginn og kveikja á hættuljósi ef ökutæki er stöðvað vegna umferðaróhapps eða vélarbilunar eða af öðrum orsökum á stað þar sem bannað er að stöðva ökutæki eða leggja því. Áður var einungis talað um viðvörunarbúnað og notkun hans í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004

Samanber 32. grein laganna.

Skyldur ökumanns þegar ökutæki hefur stöðvast í sérstöku tilviki.
Nú stöðvast ökutæki vegna umferðaróhapps eða vélarbilunar eða af öðrum orsökum á stað þar sem bannað er að stöðva ökutæki eða leggja því. Skal þá flytja það á viðeigandi stað eins fljótt og unnt er nema annað leiði af ákvæði 3. mgr. 14. gr. Hafi ökutæki stöðvast á þannig stað eða svo að hætta eða óþægindi stafi af fyrir umferðina skal ökumaður gera ráðstafanir með hættuljósi og viðvörunarþríhyrningi til að vara aðra vegfarendur við þar til það hefur verið flutt brott. Tilkynna skal til lögreglu staðsetningu ökutækisins ef nauðsyn ber til.

Ráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um viðvörunarbúnað ökutækis sem stöðvast í sérstöku tilviki, notkun hans og til hvaða flokka ökutækja reglurnar nái. 

 

Heilbrigðisskilyrði fyrir ökuréttindum

Í lögunum er ákvæði um að lögregla skuli afturkalla ökuréttindi ökumanns tímabundið í þrjá mánuði ef vafi leikur á um að ökumaður uppfylli heilbrigðisskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini. Ökumaður skal svo gangast undir mat á aksturshæfni sinni undir umsjón trúnaðarlæknis Samgöngustofu og verða ökuréttindi ekki gild að nýju fyrr en að loknu slíku mati.

Samanber 63. grein laganna

Lögreglan getur afturkallað ökuréttindi ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini.
Þegar afskipti eru höfð af ökumanni sem lögregla telur vafa leika á að fullnægi skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. skal afturkalla ökuréttindin tímabundið í þrjá mánuði. Þau verða ekki gild að nýju fyrr en ökumaður hefur undirgengist mat á aksturshæfni undir umsjón trúnaðarlæknis Samgöngustofu.

Afturköllun ökuréttinda

Víðtækara ákvæði er í  lögunum um þá sem eru sviptir og þurfa að sækja sérstakt námskeið á vegum Samgöngustofu.

Samanber 63. grein laganna

Handhafi fullnaðarskírteinis sem sviptur hefur verið ökuréttindum í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða vímuefna öðlast eigi ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann hafi sótt sérstakt námskeið á vegum Samgöngustofu og staðist ökupróf að nýju. Sama á við um þann sem fengið hefur sviptingu vegna tiltekins fjölda punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota eða verið sviptur ökuréttindum í lengri tíma en 12 mánuði.
Byrjandi sem hefur fengið bráðabirgðaskírteini skv. 59. gr. og sviptur er ökuréttindum áður en bráðabirgðaskírteinið er endurnýjað í fullnaðarskírteini, öðlast eigi ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann hafi sótt sérstakt námskeið vegna aksturbanns skv. 3. mgr. 106. gr. og staðist ökupróf að nýju.
Sá sem misst hefur ökuréttindi vegna sviptingar, akstursbanns eða afturköllunar skal afhenda lögreglunni ökuskírteini sitt.
Heimilt er að taka gjald vegna þess kostnaðar sem hlýst af starfi trúnaðarlæknis Samgöngustofu. Umrætt gjald skal ekki vera hærra en raunkostnaður Samgöngustofu vegna starfs trúnaðarlæknisins. Gjaldinu er ætlað að standa straum af launakostnaði og sérstökum kostnaði við mat á aksturshæfni.

Öryggisbelti í hópbifreiðum

Ekki er heimilt að veita undanþágu frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimilt er að aka hraðar en 80 km á klst.

Samanber 77. grein laganna

Ráðherra getur sett reglur um undanþágu frá skyldu til að nota slíkan búnað, m.a. við sérstakan akstur og fyrir farþega hópbifreiða í almenningsakstri í þéttbýli. Ekki er heimilt að veita undanþágu frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimilt er að aka hraðar en 80 km á klst.

Sjálfkeyrandi ökutæki

Prófanir á sjálfkeyrandi ökutækjum verða heimilar, að fengnu leyfi Samgöngustofu og að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.

Samanber 76. grein laganna

Prófanir á sjálfkeyrandi ökutækjum mega aðeins fara fram með leyfi Samgöngustofu. Heimilt er að veita leyfi fyrir prófun á ökutæki sem er sjálfkeyrandi að fullu eða að hluta.

Neita má þeim sem háður er notkun áfengis um ökuskírteini

Sérstaklega er gert ráð fyrir því að neita megi þeim um ökuskírteini sem háður er notkun áfengis.

Samanber 58. grein laganna

Neita má þeim um ökuskírteini sem háður er notkun ávana- og fíkniefna, áfengis eða annarra sljóvgandi efna. Bera má ákvörðun um þetta undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a almennra hegningarlaga.

Rauð ljós

Í fyrsta sinn verður í lögum lagt bann við akstri gegn rauðu ljósi en slíkt bann hefur hingað til aðeins verið í reglugerð.

Samanber 7. grein laganna

Ökumanni er óheimilt að aka gegn rauðu umferðarljósi. Við rautt ljós skal ökutæki stöðvað áður en komið er að stöðvunarlínu eða, ef stöðvunarlínu vantar, umferðarljósastólpa.

Akstur í hringtorgum

Sett eru sérstök ákvæði um akstur í hringtorgum. Þannig er lögfest að ökumaður í ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum. Óheimilt er að skipta um akrein við hring eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi.

Samanber 19. grein laganna

Ökumaður sem ekur að hringtorgi skal veita þeim sem eru í torginu forgang. Í hringtorgi sem skipt er í tvær akreinar skal ökumaður velja hægri akrein, ytri hring, ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum. Ökumaður á ytri hring skal veita þeim sem ekur á innri hring forgang út úr torginu. Óheimilt er að skipta um akrein við hringtorg eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi.

Sorp úr ökutækjum

Í lögunum er lagt bann við því að fleygja sorpi út úr ökutæki eða skilja eftir á vegi sorp eða annað sem óhreinkar veg eða náttúru, jafnvel þótt það hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur. Í gildandi umferðarlögum er aðeins lagt bann við því að fleygja eða skilja sorp eftir á vegi það sem getur haft í för með sér hættu eða óþægindi fyrir umferðina.

Samanber 6. grein laganna

Eigi má fleygja út úr ökutæki, skilja eftir á vegi eða strengja yfir opinn veg í leyfisleysi neitt það sem getur haft í för með sér hættu eða óþægindi fyrir vegfarendur.
Eigi má fleygja út úr ökutæki eða skilja eftir á vegi sorp eða annað það sem óhreinkar veg eða náttúru, jafnvel þótt það hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur.

Takmörkun umferðar vegna mengunar

Veghaldara verður nú heimilað að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta talin á að svo verði. Til grundvallar banni skal liggja fyrir rökstuðningur, studdur mæliniðurstöðum og mengunarspám. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð með nánari ákvæðum um takmarkanir vegna mengunar.

Samanber 85. grein laganna

Sveitarstjórn eða Vegagerðinni, þegar um þjóðveg er að ræða, er heimilt að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta er talin á að svo verði. Til grundvallar slíku banni skal liggja fyrir rökstuðningur fyrir takmörkun umferðar vegna mengunar, studdur mæliniðurstöðum og mengunarspám.
Takmarkanir á umferð vegna mengunar frá ökutækjum geta t.d. falist í breytingum á hámarkshraða, takmörkun á umferð stærri ökutækja eða takmörkun almennrar umferðar með því að heimila tilteknum bifreiðum akstur á ákveðnum svæðum eftir oddatölu/jafnri endatölu eða sambærilegum endabókstaf skráningarmerkja. Upplýsingar um slíkar takmarkanir skulu gefnar með umferðarmerkjum og auglýsingum á opinberum vettvangi, svo sem á vefsetri Vegagerðarinnar eða sveitarfélags eða með öðrum tryggum hætti.

Ökukennsla

Fært er í lög að ökukennarar þurfi að stunda nám og standast próf í viðkomandi ökutækjaflokki en kveðið hefur verið á um það í reglugerð hingað til. Gerð er sú krafa að ökukennarar þurfi að fullnægja kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni. Þá verður heimilt að synja þeim um starfsleyfi sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot.

Samanber 64. grein laganna

Starfsleyfi til að annast ökukennslu má aðeins veita þeim sem:

  1. hefur náð 21 árs aldri,
  2. hefur haft ökuréttindi samfellt síðustu þrjú árin í þeim flokki sem hann sækir um starfsleyfi fyrir,
  3. hefur stundað nám fyrir ökukennara í viðkomandi flokki og lokið prófum sem því námi fylgja, og
  4. fullnægir kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Heimilt er að synja um starfsleyfi eigi ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga við. Enn fremur er heimilt að synja þeim um starfsleyfi sem hlotið hefur dóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Einungis rafbílar mega leggja í sérmerkt stæði fyrir rafbíla

Einungis rafbílar mega nota stæði sem merkt er bifreiðum til rafhleðslu.

Samanber 29. grein laganna

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á eftirtöldum stæðum:
...............
á merktu stæði ætluðu bifreið til rafhleðslu,

Bannað að leggja bílum í botnlangagötu

Í lögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum.

Samanber 29. grein laganna

Að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð er bannað að stöðva eða leggja ökutæki á eftirtöldum stæðum:
......
c. í snúningshaus botnlangagötu,

Samræmdur hámarkshraði vélknúinna ökutækja

Búið er að samræma hámarkshraða allra vélknúinna ökutækja og fella á brott ákvæði um lægri hámarkshraða sérstakra gerða ökutækja.

Samanber 38. grein laganna

Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um sérstakan lægri hámarkshraða vélknúins ökutækis en segir í 37. gr. ef þess er þörf vegna hönnunar eða notkunar ökutækisins. 

Ökutækjatryggingar

Ákvæði um vátryggingarskyldu ökutækja eru ekki lengur að finna í umferðarlögum heldur í nýjum lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019 sem taka gildi 1. janúar 2020.

Samspil gangandi, hjólandi og umferðar vélknúinna ökutækja

 

Göngugötur

Hugtakið göngugata er skilgreint í lögunum og sérstakt ákvæði sett um reglur sem gilda skulu í göngugötum. Þannig er umferð vélknúinna ökutækja í göngugötum almennt óheimil með ákveðnum undanþágum. 

Samanber 10. grein laganna

Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga heimil. Þá er heimil umferð vélknúinna ökutækja í þeim tilgangi að afhenda verslunum, veitingastöðum og sambærilegum aðilum vörur á skilgreindum vörulosunartímum sem gefnir eru til kynna með skilti.

Hjólað á miðri akrein þar sem hámarkshraði er 30 km á klst.

Hjólreiðafólk má hjóla á miðri akrein þar sem hámarkshraði er 30 km á klst. Almennt skal hjólreiðamaður halda sig hægra megin á þeirri akrein sem lengst er til hægri.

Samanber 43. grein laganna

Á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. er hjólreiðamanni heimilt að hjóla á miðri akrein, enda gæti hann fyllsta öryggis og haldi hæfilegum hraða.

Hjólað yfir gangbraut

Hjólreiðamaður má hjóla yfir gangbraut (á gönguhraða).

Samanber 43. grein laganna

Ef hjólreiðamaður á gangstétt þverar akbraut skal hann gæta að því að hjóla eigi hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða. Sama á við um hjólreiðamann sem þverar akbraut á gangbraut.

Hliðarbil ökutækja frá hjólreiðafólki að lágmarki 1,5 metrar

Þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar.

Samanber 23. grein laganna

Sá sem ekur fram úr öðru ökutæki skal hafa nægilegt hliðarbil milli ökutækis síns og þess sem ekið er fram úr. Sé ekið fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil að lágmarki vera 1,5 metrar.

 

Akbraut og stígar skarast

Hjólreiðamönnum er gert að sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast.

Samanber 42. grein laganna

Hjólreiðamaður skal sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast.

Beygja þvert á hjólarein.

Ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang.

Samanber 26. grein laganna

Þegar ökumaður ætlar að beygja þvert á hjólarein ber honum að veita forgang umferð hjólreiðamanna á hjólareininni. 

 

 

Aftur á yfirlitssíðu nýrra umferðarlaga


Var efnið hjálplegt? Nei