Verklagsbók: tjónaendurmat

Mat, endurmat, leiðbeiningar

Skjalið tilheyrir skoðunarhandbók ökutækja. Um lögformlega stöðu, útgáfu og ábyrgð á skjalinu vísast til formála handbókarinnar.

Í skjalinu er að finna samantekt á kröfum er varða tjónaökutæki auk leiðbeininga um endurmat.

Stjórnvaldskröfur


Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

  • Umferðarlög nr. 77/2019.
  • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.


Skoðunaratriði


Sé ökutæki skráð sem tjónabifreið er óheimilt að skoða það hefðbundinni skoðun og því eiga dæmingar í skoðunaratriðahluta handbókar ekki við.

Hlutverk skoðunarstofu vegna tjónaökutækja eru þessi (sjá nánari lýsingar í köflum skjalsins):

  • Að framkvæma endurmat á tjónaökutæki I sé þess óskað (og innan 20 daga frests).
  • Að skoða (aðalskoðun eða endurtekin aðalskoðun) ökutæki eftir að viðgerð hefur farið fram og tjónaskráning felld niður. Óheimilt er að afhenda númer og skrá ökutæki í umferð nema niðurstaða skoðunar sé án athugasemda eða lagfæring.


Skilgreiningar


Tjónaökutæki flokkast þannig samkvæmt reglugerð um gerð og búnað:

  • Tjónaökutæki: Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi. Hafi slíkt tjón orðið á ökutæki skal skilgreina og skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð. Ekki má taka slíkt ökutæki í notkun á ný nema að fram fari viðgerð á því af viðurkenndu réttingaverkstæði.
  • Tjónaökutæki I: Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu. Hægt er að óska eftir endurmati innan 20 daga, sé það ekki gert breytist skráningin í tjónaökutæki II.
  • Tjónaökutæki II: Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af tryggingafélagi til Samgöngustofu. Ennfremur tjónaökutæki I þar sem frestur til endurmats er runninn út.


Eftirfarandi er úr reglugerð um gerð og búnað um hvað veldur því að ökutæki flokkast sem tjónaökutæki:

  • Burðarvirki: Til burðarvirkis ökutækja heyrir sjálfberandi yfirbygging og grind eftir því sem við á. Einnig öryggisbúr farþega sem og burðar- og öryggisbitar yfirbyggingar. Hafi burðarvirki ökutækis skemmst telst það tjónaökutæki.
  • Framrúða: Framrúða ökutækis telst til burðarvirkis, sé hún límd. Aðrar límdar rúður sem eru hluti af burðarvirki ökutækis eiga einnig við. Við skipti á límdum framrúðum skal fara eftir fyrirmælum framleiðanda. Hafi rammi í kringum framrúðu ökutækis skemmst skal skrá ökutækið sem tjónaökutæki og notkun þess bönnuð þar til viðgerð fer fram á viðurkenndu verkstæði. Einangraðar skemmdir á límdum rúðum sem ekki eru hluti af stærra tjóni, t.d. stjarna eða sprunga eftir steinkast, skal meðhöndla eftir útlistingu skoðunarhandbókar ökutækja og telst ökutækið þá ekki vera tjónaökutæki.
  • Hjólabúnaður: Til hjólbúnaðar ökutækja teljast m.a. ásar, festingar, fjaðrabúnaður og hjól. Hafi festingar hjólabúnaðar ökutækis, sem teljast til burðarvirkis, gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað, telst það tjónaökutæki.
  • Öryggisbúnaður: Til öryggisbúnaðar ökutækja teljast m.a. öryggisbelti, líknarbelgir/loftpúðar sem og annar virkur öryggisbúnaður svo sem myndavéla- og nándarbúnaður. Hafi líknarbelgir/loftpúðar ökutækis sprungið út, telst það tjónaökutæki. Ökutæki telst einnig tjónaökutæki ef öryggisbeltastrekkjarar hafa verið virkjaðir og/eða teygst hefur á öryggisbelti.


Aðrar skilgreiningar á hugtökum samkvæmt reglugerð um gerð og búnað:

  • Viðgert tjónaökutæki: Ökutæki sem hefur fyrir 1. ágúst 2017 verið viðgert af öðrum en viðurkenndu réttingaverkstæði.
  • Margar tjónaskráningar: Ef ökutæki sem er skráð viðgert tjónaökutæki þann 1. ágúst 2017, lendir aftur í tjóni þannig að það teljist sem tjónaökutæki II, skráist það með margar tjónaskráningar óháð viðgerðaraðila.
  • Endurmat á tjónaökutæki: Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst og skal vera studd gögnum, það er greinargerð, ljósmyndum og/eða mælingum. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II. Faggiltar skoðunarstofur framkvæma endurmat. Gögn skulu send til Samgöngustofu sem skráir upplýsingarnar í ökutækjaskrá.
  • Viðurkennt réttingaverkstæði: Verkstæði sem er búið viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og hafa heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Aðeins ökutæki sem gert hefur verið við á viðurkenndu réttingaverkstæði geta fengið skráningarmerki að nýju. 


Mat og skráning á tjónaökutæki I


Ökutæki sem lent hefur í óhappi og tilkynnt hefur verið af lögreglu eða Skattinum (áður tollstjóra) til Samgöngustofu er skráð sem tjónaökutæki I. Sú skráning gildir í 20 daga og breytist svo sjálfkrafa í tjónaökutæki II hafi ekki verið óskað eftir endurmati (sjá næsta kafla).

Grundvöllur að mati lögreglu og Skattsins á því hvort ökutæki ætti að vera merkt tjónaökutæki I getur byggst á nokkrum einföldum atriðum, sjá töflu 1. 


Tafla 1. Ökutæki sem mögulega hefur orðið fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi, skal af lögreglu og Skattinum (áður tollstjóra) tilkynna sem tjónaökutæki I. Þættir sem horft er til við mat á því.

Telst tjónaökutæki ISkýring
Líknarbelgir/loftpúðar sprungið útÁ við um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis.
Ökutæki óökuhæft vegna skemmda á hjóla- eða stýrisbúnaðiHjólabúnaður eða stýrisbúnaður á einhvern hátt skemmdur sem veldur því að ökutækið telst óökuhæft. Sprungið dekk, ef felga sýnist óskemmd, veldur ekki eitt og sér skráningu.
Ökutæki hefur oltiðBeyglur og skemmdir verulegar víða á yfirbyggingu, hurðir gætu verið gengnar úr lagi, rúður brotnar eða farnar úr.
Verulegt hliðartjón á ökutækiAugljósar skemmdir á sílsum (bitanum undir hurðunum á hvorri hlið), oft með þeim afleiðingum að hurðir virka ekki eðlilega eða hefur aflögun á dyragötum í för með sér.


Endurmat skoðunarstofu á tjónaökutæki I


Faggiltar skoðunarstofur ökutækja hafa heimild til að framkvæma endurmat á tjónaökutæki I. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II.

Hægt er að óska eftir endurmati á tjónaökutæki I innan 20 virkra daga frá skráningu í ökutækjaskrá. Að þeim tíma liðnum skráist ökutækið sjálfkrafa sem tjónaökutæki II og verður þá að fara í viðurkenndan viðgerðarferil (sbr. næsta kafla) eigi að skrá það í umferð á ný.

Endurmat skal fara fram áður en viðgerð hefst. Sé viðgerð hafin er skoðunarstofu ekki heimilt að framkvæma endurmat. Ekki ber að meta það sem svo að viðgerð sé hafin ef búið er að opna eða taka einfalda hluti í sundur til að sjá betur í hverju tjón felst, æskilegt er þó að slíkt sé gert í samráði við skoðunarstofuna sem beðin er um að endurmeta tjónið. Einnig má vera búið að gera við sprungna hjólbarða.

Við endurmat á tjónabifreið I skal ökutækið jafnan fært til skoðunarstofu en einnig er skoðunarstofu heimilt að framkvæma skoðun ökutækisins utan skoðunarstofu. Við endurmat horfir skoðunarstofa til þeirra atriða sem fram koma í töflu 2.


Tafla 2. Ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni sem getur haft áhrif á aksturseiginleika þess og akstursöryggi, skal skrá sem tjónaökutæki II. Þættir sem horft er til við endurmat tjónaökutækis I.

Telst tjónaökutæki IISkýring
Rammar skemmst umhverfis límdar rúðurFramrúða ökutækis telst til burðarvirkis, sé hún límd, og má ramminn umhverfis hana ekki hafa skemmst. Sama gildir um aðrar límdar rúður sem eru hluti af burðarvirki ökutækis. Athuga að afmarkaðar skemmdir á límdum rúðum sem ekki eru hluti af stærra tjóni, t.d. stjarna eða sprunga eftir steinkast, valda ekki skráningu sem tjónaökutæki.
Hjólabúnaður bognað eða færst úr staðTil hjólbúnaðar ökutækja teljast m.a. ásar, festingar, fjaðrabúnaður og hjól. Skoða hvort festingar hjólabúnaðar ökutækis, sem teljast til burðarvirkis,  hafi gengið til og hvort sýnileg merki séu um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað.
Líknarbelgir/loftpúðar sprungið útÁ við um alla líknarbelgi/loftpúða ökutækis.
Öryggisbeltastrekkjarar virkjaðir eða teygst hefur á öryggisbeltiSést að öryggisbeltastrekkjarar hafa verið virkjaðir. Einnig ef teygst hefur á öryggisbelti (sést að saumar eru skemmdir eða ójafnir).
Hjól og stýrisbúnaður bognað eða færst úr staðÖxull/ás eða hjól hefur gengið til og sýnileg merki eru um að hjóla- eða stýrisbúnaður hafi bognað eða færst úr stað.
Burðarvirki bognað eða festingar gengið tilSýnileg merki eru um að burðarvirki yfirbyggingar eða sjálfstæð grind hafi bognað. Sérstaklega skal athuga festingar fyrir fjaðrabúnað og stýrisbúnað. Kýttur grindarendi myndar oftast skekkju á hjóla- og stýrisbúnaði.
Snúningur eða beygja á yfirbygginguSýnileg merki eru um snúning eða beygju á yfirbyggingu. Sést m.a. með því að bera saman hurðargöt og gluggagöt. Ef um hliðartjón er að ræða er hægt að bera saman hurðabil milli hurða á sömu hlið eða milli hliða (gengið út frá því að hurðabil sé alltaf það sama á óskemmdu ökutæki).
Þverbrot í þaki yfirbyggingarÞverbrot í þaki er öruggt merki um skekkju í burðarvirki (brotið er oft sýnilegt ofan við aftari framhurðarstaf).

Að loknu endurmati fyllir skoðunarstofa út eyðublað US.117, Tilkynning um endurmat tjónaökutækis. Þar ber að skrá upplýsingar um auðkenningu ökutækisins, skoðunarstofuna, dagsetningu endurmats, niðurstöðu matsins og staðfestingu skoðunarmanns. Eiganda (umráðamanni) ber einnig að undirrita eyðublaðið og staðfsta að viðgerð á ökutækinu hafi ekki átt sér stað fyrir endurmatið.

Útfyllt eyðublað er sent með rafrænum hætti til Samgöngustofu. Æskilegt er að til stuðnings láti skoðunarstofa fylgja nokkrar myndir af tjóni ökutækisins.


Ferill viðgerðar á tjónaökutæki (I og II)


Almennt gildir að engum öðrum en viðurkenndu réttingarverkstæði er heimilt að framkvæma viðgerðir á ökutæki sem skráð er sem tjónaökutæki sé ætlunin að taka það í notkun á ný. Aðeins ökutæki sem gert hefur verið við á viðurkenndu réttingaverkstæði geta fengið tjónaskráningu niðurfellda.

Minnt er á að ekki má hefja viðgerð á ökutæki sem skráð er tjónaökutæki I ef ætlunin er að óska eftir endurmati (sbr. fyrri kafla). Sé það ekki ætlunin má færa það strax til viðgerðar á viðurkenndu réttingaverkstæði (ekki þarf að bíða þessa 20 daga eftir því að ökutækið verði skráð sem tjónabifreið II). Sé ekki ætlunin að taka ökutæki í notkun á ný sem skráð hefur verið sem tjónaökutæki (I eða II) ber að afskrá það með viðeigandi hætti.  

Viðurkennt réttingaverkstæði er verkstæði sem búið er viðeigandi tækjabúnaði til viðgerða á ökutækjum eftir fyrirmælum framleiðanda og sem hefur heimild til að gefa út vottorð um viðgerð á tjónaökutæki. Samgöngustofa birtir á vef sínum lista yfir viðurkennd réttingaverkstæði sem og kröfur til þeirra. Að viðgerð lokinni gefur réttingaverkstæðið út vottorð um að viðgerð hafi fram og sendir til Samgöngustofu sem fellir niður tjónaskráninguna. Skráningin helst engu að síður í ferilskrá ökutækis.

Ökutækið er síðan fært til skoðunar á skoðunarstofu. Gæta verður þess að skráningarmerki ökutækisins, sem tekin höfðu verið af ökutækinu vegna tjónsins, hafi verið komið til skoðunarstofunnar fyrir skoðun. Hafi ökutækið gilda skoðun er það skráð í endurtekna aðalskoðun, annars aðalskoðun. 

Ekki má afhenda skráningarmerki og skrá ökutækið í umferð nema niðurstaða skoðunar sé án athugasemda eða lagfæring (og búið að fella niður tjónaskráninguna).


Fróðleiksmolar


Ekki er heimilt að skrá ökutæki með eftirfarandi athugasemdir af erlendum skráningargögnum hér á landi. Af þeim sökum er forskráningu slíkra ökutækja hafnað.

Collision Damaged Dismantled Fire
Flood Gray Market Junk Revived Junk
Salvage Rebuilt Salvaged Revived Salvage Scrap Vehicle
Totaled Water Damage Reconditioned For Parts Only
Scrap Wrecked VIN Missing Total Loss
Repaired Rebuilt Reconstructed Hail

Breytingasaga skjalsins

 

Dagsetning Efnislegar breytingar
01.01.2023 Nýtt skjal. Efni tekið úr Stoðriti (útg 20 2017): Kaflar 9.10.2, 9.10.3. Efni úr skráningarreglum. Uppfært, aukið og endurbætt.


Var efnið hjálplegt? Nei